Loading

HEILBRIGÐAR MATARVENJUR

Pistill eftir Rakel Rán Sigurbjörnsdóttur, fjölskyldumeðferðarfræðing.

Matur er svo miklu meira en bensín fyrir líkamann. Fyrir utan gleðina sem því fylgir að borða góðan mat þá gegnir hann mikilvægu hlutverki í félagslegum aðstæðum. Þegar við förum í boð, veislur eða heimsóknir er alla jafna boðið upp á mat. Innan heimilisins fær matur stóran sess. Það er farið að kaupa mat, elda mat, borða mat, ganga frá eftir mat, baka, ganga frá eftir bakstur. Börn eru spurð hvað þau hafi fengið að borða í leikskólanum og skólanum og innkaupalistar eru skrifaðir. Það er því til mikils að vinna að geta umgengist mat á jákæðan máta.

Fyrir suma er matur þó annað en gleðiefni. Þeim leiðist matur, borða ekki hitt og þetta því það er fitandi, óhollt eða eitrað. Sumir fara í megrun eftir megrun og blanda saman mataræði og holdafari. „Ég fæ mér bara tvær brauðsneiðar á dag svo ég fitni ekki”.

Æskilegt er að börnum sé boðið upp á heilbrigt matarumhverfi og að þeim sé kennt að umgangast mat á eðlilegan og öfgalausan hátt. Hér að neðan eru nokkur atriði sem gott getur verið að hafa í huga varðandi mat og matarvenjur.

Reglulegar máltíðir

Gott er að borða á u.þ.b. 3ja tíma fresti. Máltíðirnar eru morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur og á milli þeirra eru morgunkaffi, síðdegiskaffi og eftir kvöldmat er gjarnan kvöldhressing. Til að allir hafi matarlyst þegar kemur að máltíð er gott að ekki sé borðað stuttu áður en máltíðin hefst. Ef einhver er orðinn mjög svangur áður en maturinn er tilbúinn er fínt að bjóða upp á grænmeti eða ávöxt.

Sameiginleg máltíð
Það er yndislegt að geta átt að minnsta kosti eina sameiginlega máltíð yfir daginn þar sem fjölskyldan situr saman til borðs og á ánægjulega stund saman.

Öllum þarf að líða vel við matarborðið
Ágætt er að hafa sem viðmið að erfiðleikar og vandamál eru ekki rædd meðan á máltíð stendur. Slíkt má bíða þar til eftir mat til að tryggja að máltíðin sé notaleg stund sem engin þurfi að kvíða.

Tölum fallega um matinn
Þrátt fyrir að allir hafi sínar skoðanir á matnum sem er í boði er óþarfi að tala illa um hann. Ef ekkert fallegt er um matinn að segja er óþarfi að tjá sig um hann.

Reynum að komast hjá svart-hvítri umræðu um mat

Óþarfi er að skilgreina mat sem hollan og óhollan. Mjög fátt er skaðlegt sé það borðað í hóflegum skömmtum. Ef skilgreina þarf mat er eðlilegra að útskýra betur hvað átt er við og tala þá um næringarríkan mat, næringarsnauðan mat, fituríkan, fitusnauðan, trefjaríkan mat og þar fram eftir götunum. Almennt er þó óþarfi að skilgreina matinn mikið fyrir börnum.

Svengd og sedda
Við fæðumst með skynjara á það hvenær við erum svöng og hvenær við erum orðin södd. Það er mikilvægt að ýta undir að fólk hlusti á sín innri merki um hungur og saðningu en borði ekki eftir fyrirfram ákveðnum skömmtum. Enginn ætti að vera neyddur til að klára allt af disknum sínum né að vera stoppaður vilji hann fá sér meira.

Engar öfgar
Bannlistar finnst mér ekki eiga við í mataræði. Ekki nema um sé að ræða ofnæmi fyrir ákveðnum matartegundum. Þannig ætti t.d. nammi, kökur og kex að vera eðlilegur þáttur í mataræði, án öfga. Þá á ég við að nammi, kökur og kex eigi hvorki að koma í staðinn fyrir máltíð né að vera á bannlista.

Sérstakir nammidagar?
Margir eru með ákveðna nammidaga. Nammidagar eru þó til þess fallnir að byggja upp spennu fyrir sætindum. Að ýmsu leyti er skynsamlegra að hafa neyslu sætinda ekki sem ákveðna athöfn einu sinni í viku heldur að bjóða öðru hvoru upp á súkkulaði eða ís eftir máltíð og bjóða öðruhvoru upp á kexkökur/kökur í kaffitímanum.

Matur er nauðsynlegur

Matur ætti ekki að vera notaður sem refsing eða verðlaun.

Alla jafna borðar fólk um sex sinnum á dag. Það ætti því að koma öllum til góða að temja sér heilbrigðar matarvenjur og jákvætt samband við mat – bæði börnum sem og fullorðnum. Gott er að hafa í huga í þessari umræðu sem annarri, að foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna.

– – –
Rakel Rán er lærður fjölskylduráðgjafi frá Háskóla Íslands. Hún starfar á Shalom þar sem boðið er upp á heildræna meðferð. Þar býður hún upp á ráðgjöf og meðferð fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur. Rakel Rán vinnur að meistaraverkefni um samskipti við börn og heldur úti fésbókarsíðunni Ást og umhyggja – fjölskyldustuðningur.
Hægt er að hafa samband við Rakel með tölvupósti á netfangið rakelran@gmail.com.

X