Loading

Hengdist næstum því í rennibraut

Litlu mátti muna að illa færi á dögunum þegar hin átta ára gamla Marley Oster hengdist í rennibraut. Tildrög slyssins voru þau að Marley var með hatt sem hékk um hálsinn á henni. Þegar hún var að renna sér niður festist plastsmellan á hattaböndunum þannig að hatturinn sat fastur og Marley líka. Þrátt fyrir að líkamsþungi Marley héngi allur á plastsmellunni gaf hún sig ekki og henni var ómögulegt að losa sig sjálf. Vinkona hennar, Madison, náði á endanum að losa hana og var Marley flutt í snarhasti á sjúkrahús.

Móðir hennar birti myndirnar öðrum foreldrum til varnaðar og bað fólk að athuga allar smellur á fatnaði og höttum/húfum til að tryggja að þær opnist við aðstæður sem þessar.

Að sögn lækna mun Marley ná sér að fullu en líf hennar hafi hangið á bláþræði – bókstaflega.

Við brýnum að sjálfsögðu fyrir foreldrum að vera á varðbergi og passa vel upp á snúrubönd, hatta/húfubönd og annað í þeim dúr. Slysin eru fljót að gerast og það er aldrei of varlega farið.

X