Loading

Hið „eðlilega” foreldrahlutverk

Ég vaknaði í morgun, líkt og aðra virka morgna, við morgunútvarp rásar 2. Í gegnum svefninn heyrði ég að verið var að ræða hið „eðlilega samband” milli ungabarns og móður. Pistlahöfundur var óðamála og vildi koma á framfæri þeirri staðreynd að margir af þeim karlmönnum sem nýttu réttindi til feðraorlofs væru í raun að eyða tímanum í eitthvað allt annað, byggja bílskúr (?) eða fara á veiðar, þeir væru að misnota kerfið – enda væri það fáránlegt að halda að ungabörn þyrftu að tengjast feðrum sínum fyrstu árin – það væri mikilvægara að þau tengsl yrðu á unglingsárum – það væri „eðlilegast” – náttúrulegast!

Áhugavert er að skoða það menningarlega forræði sem fjölmiðlar og auglýsingar hafa og hvernig þessir þættir móta hið siðferðislega rétta í samfélaginu – normið. Það er því hollt að staldra við og gagnrýna þá ímynd sem ítrekað er dregin upp af fjölskyldueiningunni og hlutverki kynjanna innan hennar, en ímyndin um fjölskylduna er ein af grunnstoðum nútímasamfélagsins. Ríkjandi orðræða auglýsinganna, sem byggir á hefðum og gildum feðraveldisins, heldur þannig á lofti því sem telst til eftirbreytni.

lifis_augl

Hér að ofan er mynd úr auglýsingaherferð fyrir líftryggingar. Myndin sýnir teikningu af karli og konu sem halda á ungabarni (klætt í blá föt). Á myndinni eru örvar sem benda annars vegar á föðurinn og hins vegar á móðurina. Örvarnar eru samhverfar og hjá þeim standa orð sem eiga að lýsa því hvernig ábyrgt foreldri er.

Hér eru nokkur dæmi úr rituðu máli auglýsingarinnar:

Móðirin: Rækta líkama og sál – Faðirinn: Afla sér þekkingar, (örvar á höfuð).
Móðirin: Halda góðri rútínu – Faðirinn: Axla ábyrgð, (örvar á herðar).
Móðirin: Sýna tillitssemi – Faðirinn: Deila verkefnum á heimilinu, (örvar á hendur).
Móðirin: Hvílast vel – Faðirinn: Stappa stálinu í aðra þegar á móti blæs, (örvar á fætur).

Móðirin: Vera jákvæð – Faðirinn: Sýna tómstundum annarra í fjölskyldunni áhuga, (örvar á fætur).

Hlutverk hins ábyrga föðurs, samkvæmt auglýsingunni hér, styrkir og viðheldur ímynd karlmennskunnar. Orðin sem standa við líkamshluta föðursins eru framsækin, nánast hernaðarleg og þar er að finna orð eins og: skipulag, að deila verkefnum, stappa stálinu í, að hvetja áfram o.s.frv. Ef skoðuð eru þau orð sem standa við líkamshluta móðurinnar sést hvernig þau fela í sér orðræðu um náttúruna eins og t.d. að rækta, að búa í haginn og styrkja þannig ímynd móðurinnar við umönnun og ,hreiðurgerð‘. Þau orð sem lýsa móðurinni vísa einnig í líkama hennar og tilfinningar, þannig virðast orð eins og: að hvílast, vera jákvæð, sýna tillitssemi, ýta undir þær hugmyndir að kona sé undirgefnari og viðkvæmari en karlmaður.

Það er athyglisvert að þrátt fyrir að reynt sé að gæta jafnréttis í myndmálinu (þau halda bæði á barninu og horfa bæði brosandi fram í lesandann) byggir uppstilling myndefnis á rótgrónum kynjaímyndum. Karlmaðurinn er stærri, það er hann sem heldur á barninu en konan styður við það. Hér er því undirstrikað það sem kemur fram í texta auglýsingarinnar: ímynd móðurinnar sem viðkvæm tilfinningavera og föðursins sem verndara og geranda í foreldrahlutverkinu.

– – –

Pistill eftir Þórhildi Laufey Sigurðardóttur. Þórhildur eða Tóta eins og hún er alla jafna kölluð skrifaði þennan pistil meðan hún var í mastersnámi í almennri bókmenntafræði að rannsaka sjónmenningu og hélt úti bloggsíðunni Mylsnur. Þar kafaði hún reglulega ofan í myndmál í auglýsingum og ekki síst birtingarmynd kvenna í þeim. Algjörlega frábær síða og holl lesning. Tóta hefur hins vegar verið of löt undanfarin misseri til að skrifa eitthvað af viti og við skorum hér með á hana að halda áfram að tjá sig enda er hún bæði vel gefin, hnyttin og frábær penni.

– – –

Langar þig að skrifa inn á Foreldrahandbókina? Við leitum bæði að frambærilegum bloggurum sem og pistlahöfundum. Sendu okkur póst á thora@foreldrahandbokin.is.

X