Loading

HIN FULLKOMNA MÓÐIR

Þegar ég var nýbúin að eignast strákinn minn fann ég fyrir svo mikilli hamingju. Hann var svo fallegur, svo fullkominn.

Ég hafði séð svo mikið af myndum af nýfæddum krílum og fannst þau alltaf svo rauð og krumpuð en það var Þorvaldur ekki, eða ekki fannst mér það. Mér fannst hann svo yndislega mjúkur og sléttur og einstaklega fallegt barn. Ég vildi bara hafa hann í fanginu og hef kannski gert alltof mikið af því frá því að hann fæddist en það er vegna þess hversu mikið ég elska hann og mér hefur alltaf liðið best með hann í fanginu. Þrátt fyrir þreytu og bakverki þá finnst mér hann hvergi eiga jafn mikið heima eins og í fanginu á mér. Ég lá með hann í fanginu í ábyggilega hátt í eina og hálfa klukkustund áður en hann var tekinn og mældur og vigtaður. Svo þyrmdi yfir mig; ég var orðin móðir, mitt líf var ekki bara mitt heldur var það líka hans, hann átti og á jafn mikið í mér og ég í honum. Ég var orðin ábyrg fyrir annarri manneskju. Það var agnarsmá, lítil og falleg manneskja sem treysti á mig og trúði eins ábyggilega og sólin skín. Og á því augnabliki var ég alveg viss um að ég myndi valda honum vonbriðgum. Ég myndi á einhvern hátt ekki vera nógu góð, að hann gæti aldrei verið stoltur af því að kalla mig mömmu. Ég myndi aldrei geta staðið undir þessu fallegu nafni sem hann kallar mig.

Fyrsta kvöldið eftir að hann fæddist fór unnusti minn heim að sofa, hann var orðinn alvarlega svefnvana og lasinn en vildi alls ekki fara af því hann hélt ég gæti ekki verið ein. Ég fullvissaði hann um að ég gæti þetta alveg og hann mætti alveg fara með hreinni samvisku. Þegar hann var farin sat ég bara og vissi ekki hvað ég ætti að gera næst, litli unginn minn var sofandi í vöggunni sinni og ég sat þarna alein í óþægilegri spítalbirtunni og reyndi að átta mig á því hvað var að gerast. Ég fór að gráta, ég hugsaði um að biðja hjúkkurnar um að taka Þorvald fram svo ég gæti náð smá svefni en þá hugsaði ég um það að þá yrði ég svo sannarlega orðin alein, þá væri búið að taka barnið mitt frá mér og ég yrði ALEIN. Ég grét þá bara enn meira við þá tilhugsun.

Seinna um kvöldið kom mamma til mín og eyddi nóttinni hjá okkur mæðginum. Ömmustrákurinn hennar var agalega hrifinn af henni og saug á henni hökuna í gríð og erg stórann hluta nætur. Það hjálpaði mér rosalega að fá mömmu til mín.

Eftir þetta urðu hlutirnir samt ekki skárri. Mér fannst ég alltaf vera ein og fannst svo erfitt að vera til að ég vissi bara ekki hvort ég hefði það af! Ég var alltaf grátandi og hver dagur virtist erfiðari en sá fyrri. Þegar hjúkkurnar spurðu mig í ungbarnaeftirlitinu hvernig ég hefði það smellti ég bara í eitt bros og spaslaði í bauganna og gráthrukkurnar sem höfðu myndast og sagði að mér liði svo vel og að þetta væri allt saman draumur í dós.

Svo fór alltaf að fjúka í mig útaf engu. Ég var geðvond og reið yfir minnstu hlutum og grét svo inn á milli. Það er hundleiðinlegt að líða svona og tekur ekki einungis toll á mig heldur líka á sambandið mitt og móðurhlutverkið. Ef mér líður ekki nógu vel þá er ég ekki að gefa mig 100% í mömmuhlutverkið og unnustuhlutverkið.

Þannig þá ákvað ég í sameiningu við Esra að fara og fá einhversskonar hjálp. Það tók svoldinn tíma fyrir Esra að fá mig til að viðurkenna að einhvað væri að og fara og leita mér hjálpar en þegar það tókst var mér létt. Ég var búin að viðurkenna fyrir sjálfri mér og öðrum að mér liði alls ekki vel og ég þyrfti hjálp. Ég fór og spjallaði við heimilislæknirinn minn og var sett á þunglyndis- og kvíðastillandi lyf.

Í dag er líf mitt allt annað, litli drengurinn minn er byrjaður á leikskóla og ég byrjuð í vinnu, nú í vikunni byrjar svo Esra í skólanum og allt er að ganga rosalega vel. Nú fæ ég að vakna á morgnanna glöð og kát með lífið og hlakka til dagsins, en ekki kvíða fyrir honum. Það er mjög góð tilfinning og ég vil þakka því fólki sem hvatti mig til að leita mér aðstoðar.

Með þessum pistli vil ég minna stúlkur/konur, nýbakaðar mæður nær og fjær, á það að þær þurfa ekki að skammast sín þó þeim líði illa, þó þær fái þá hugsun að þeim langi einfaldlega að gefast upp og skila barninu í næstu Hagkaups verslun! Mörgum okkar, ef ekki flestum, líður svona á einhverjum tímapunkti. Það er ósköp eðlilegt og ekkert til að skammast sín fyrir, mesta áherslu verður að leggja á að gera einhvað í málinu. Leita sér hjálpar og láta sér líða vel svo maður geti verið til staðar fyrir alla aðra sem eru þáttur í lífi manns.

Við erum misjafnar eins og við erum margar, það er engin uppskrift af „hinni fullkomnu móður“ að minnsta kosti hef ég enn ekki fundið hana. Við gerum allar okkar besta og þurfum að passa okkur að dæma ekki hvor aðra yfir hlutum sem eru ekki nákvæmlega eins hjá okkur og hjá öðrum, hver móðir ræður hvernig hún elur upp barnið sitt og á ekki að þurfa að líða illa þó hún kaupi ekki allt lífrænt eða gefi barninu einstaka smáköku!
Munum bara að elska börnin okkar og gera það besta sem við getum.
Það gerir okkur á okkar eigin hátt að „hinni fullkomnu móður“.

– – –

Gíslunn Hilmarsdóttir heiti ég og fæddist 6. ágúst 1994. Ég bjó í Kollsvík með fjölskyldunni minni til 8 ára aldurs, 2002, en þaðan fluttum við í Garðabæ. Ég á hann Þorvald Kára sem varð 1 árs 3.ágúst og er trúlofuð honum Esra. Ég vinn á frístundaheimili Hjallastefnunnar á Vífillsstöðum og nýt þess svo að liggja í leti með körlunum mínum þegar leiksskóla, skóla og vinnu er lokið!

X