Loading

HIN VIKAN

Aðra hverja viku er ég barnlaus, ein heima í kotinu og þó margir myndu halda að þá vikuna væri maður kannski örlítið betur til hafður því nægur væri tíminn þá er staðreyndin þveröfug hjá mér.

Vikuna sem ég er barnlaus þá er ég yfirleitt aðeins úfnari, sofna seint, vakna í seinni kantinum og vinn lengur. Ég er utan við mig (meira en venjulega), ég fer út á línuskautana mína á miðnætti og horfi á sjónvarpsþætti þangað til að klukkan er orðin allt of margt.

Miðvikudagar eru þeir dagar sem eru síst í uppáhaldi hjá mér. Á miðvikudögum er ég annaðhvort búin að vera barnlaus í sex daga eða þá á leiðinni að verða barnlaus í sjö. Síðasti miðvikudagur byrjaði til dæmis með dæsi yfir því að finna ekkert bílastæði. Þá tók ég dæsandi símtal þar sem viðtakandinn gaf mér tvo valkosti, pakka saman og fara heim eða snúa skeifunni í bros og taka daginn með trompi. Ég tók seinni valkostinn, fann loks stæði og mætti svo brosandi í góðan hádegishitting.

Engu að síður endaði dagurinn með dæsi yfir misheppnaðri verslunarferð sem hljómaði einhvern veginn svona:

Ein barnlaus og viðutan fór í Hagkaup rétt fyrir miðnætti og keypti sér tvær perlufestar, legghlífar og grifflur (hún er að fara í eighties partí). Á leiðinni út dettur hún næstum því á hausinn en tekst að bjarga sér og halda virðingunni (eða svona næstum því). Þegar heim er komið prófar hún dressið og smellir á sig perlufestunum, önnur slitnar og út um alla íbúð hoppa perlur … inn í öll herbergi og í allar áttir. Hún ryksugar upp perlurnar í augsýn og ákveður að hinar megi bíða betri tíma. Þá tekur hún upp grifflurnar og í ljós kemur að þær eru ennþá með þjófavörninni á … ahhh, þar kom ástæðan fyrir því að þjófavörnin í Hagkaup pípaði um það leyti sem hún gekk útúr búðinni. Jæja, annar helmingur kaupanna var þó í lagi. Daginn eftir fer hún í Hagkaup með slitna perlufesti í höndunum og grifflurnar með þjófavörninni. Þjófavörn búðarinnar pípir og hún lítur afsakandi í augun á reiðum öryggisverðinum sem kemur svífandi. Jæja hún fær nýja festi og grifflurnar tilbaka án þjófavarnar. Hallelúja fyrir að strimlinum var ekki hent í þetta skiptið!

Svo kom fimmtudagur sem eru yfirleitt heldur kærkomnari. Aðra hverja viku fer sá dagur í afslöppun en hina vikuna í strákastuð með púkunum mínum.

En þennan fimmtudag var hugurinn meira hjá púkunum í leik en alveg í 100% virkni. Matartíminn hljómaði einhvern veginn svona: Olía sett á pönnu, smella dekkjum á legóbílinn, gleyma pönnunni, gera meira legó, líta upp, sjá fullt af reyk, hlaupa inn í eldhús, grípa pönnu og hlaupa út. Hósta af reyk, opna alla glugga og hurðir, reykræsta, sitja út á palli hóstandi, gefa börnum kaldar pylsur því mamma kveikti næstum í.

En hey batnandi fólki er best að lifa og ég hlýt að fara batnandi … er það ekki annars?

– –
Halldóra Anna Hagalín hefur starfað síðastliðin sex ár við ýmislegt tengt tímaritum. Hún hefur ritstýrt fótboltablaði, ferðablaði, sinnt vefmálum og markaðsmálum en starfar í dag sem ritstjóri unglingablaðsins Júlíu, fríblaðsins Heilsunnar og sem vefstjóri Birtíngs útgáfufélags. Henni finnst, að eigin sögn, best að hafa nóg fyrir stafni og kann vel að meta þann fjölbreytileika sem lífið hefur upp á að bjóða. Hún er þrítug sjálfstæð móðir með tvo hressa drengi sem eru fjögurra ára og á sjöunda ári.

Ljósmynd: Rakel Ósk Sigurðardóttir

X