Loading

HLAUPABÓLAN KOMIN Í HÚS

Hlaupabólan er mætt á heimilið og nú eru góð ráð dýr. Rifjaður var upp gamall fróðleikur en ef satt best skal segja veit ég ósköp lítið um þessa pest annað en maður fær hana einu sinni, betra er að fá hana ungur en gamall og foreldrum er ráðlagt að byrgja sig upp af súkkulaði þegar smits verður vart (fyrir þá sjálfa). Annars bara að taka þetta með trompi og hlúa vel að litlu krílunum.

Tekið af vefnum hTveir:

Almennar upplýsingar

Meðaltími hlaupabólusmits er yfirleitt um 14-21 dagur. Hlaupabóla orsakast af veiru (varicella-zoster) og er mjög smitandi.

Smitið byrjar nokkrum dögum áður en einkennin birtast og standa þar til vatnskenndu blöðrurnar (útbrotin) hafa sprungið. Fyrsta vísbending getur verið vægur hiti, höfuðverkur, eymsli í hálsi og slappleiki.

Útbrotin byrja sem litlir deplar sem breytast síðan í blöðrur, þetta getur staðið yfir allt frá nokkrum dögum til allt að tveimur vikum. Vatnskenndu blöðrurnar springa síðan og mynda lítil sár sem verða hörð og þorna upp. Útbrotin eru algengust á efri hluta búks.

Hómópatískar remedíur hafa oft hjálpað mikið þegar börn eru með hlaupabólu. Hér fyrir neðan eru nokkrar þeirra nefndar, sem hugsanlega gætu hjálpað:

 • Aconite, Belladonna eða Ferrum phosphoricum: geta reynst vel í byrjun þegar hiti er til staðar, áður en útbrot byrja að myndast.
 • Antimonium crudum: getur reynst vel ef barnið er pirrað og erfitt er að gera því til hæfis. Hvít skán er á tungunni. Hósti eða bronkítis fylgja oft.
 • Antimonium tartaricum: getur átt við ef barnið er vansælt, slappleiki er til staðar og slen. Hósti eða bronkítis fylgja oft. Útbrotin geta verið sein að birtast.
 • Pulsatilla: getur átt við ef barnið er grátgjarnt, þarfnast huggunar og félagsskapar. Lítill eða enginn þorsti er til staðar og barninu líður betur við að baða sig og við ferskt loft.
 • Rhus toxicodendron: getur átt við ef mikill kláði er til staðar og barnið er mjög órólegt. Barnið getur jafnvel ekki verið kyrrt sökum kláða. Þetta er góð remedía til að hafa í huga ef kláði er megin einkenni eða jafnvel eina einkennið.
 • Sulphur: getur átt við ef mikill kláði er í útbrotunum og á svæðinu í kring með roða og oft finnst börnum eins og húðin sé að brenna. Kláðinn magnast í hita og í heitu rúmi og er oft verstur á kvöldin. Barnið vill kalt að drekka og finnst gott að liggja á köldu og að leggja kalda bakstra á kláðasvæðið.

Hómópatía kemur ekki í veg fyrir hlaupabólu, en hún getur degið úr einkennum og gert veikindin styttri og bærilegri fyrir barnið.

Tekið skal fram að ávallt er heillavænlegast að leita sér aðstoðar hjá reyndum hómópata, til að auka líkur á að rétt remedía sé valin. Hér fyrir ofan er einungis nefndar örfáar remedíur en fleiri remedíur koma til greina, allt eftir einkennum hjá barninu.

 

Tekið af doktor.is

Hvað er hlaupabóla?
Hlaupabóla er mjög smitandi sjúkdómur, sem er algengur hjá börnum. Sjúkdómurinn lýsir sér með bólum eða blettum á húð sem verða að nokkurs konur blöðrum og síðar sárum. Mikill kláði getur fylgt bólunum. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur og orsakast af veiru (varicella-zoster) sem einnig veldur sjúkdómnum ristli.

Hver er orsökin?
Veiran smitast milli fólks með beinni snertingu, t.d. snerting við sprungnar blöðrur eða með úðasmiti. Einstaklingur getur smitað aðra allt að þremur dögum áður en hann fær sjálfur útbrot og er smitandi þar til allar bólur hafa sprungið og þornað upp. Veiran er til staðar í vessanum sem er inni í bólunum og því getur einstaklingur smitað meðan einhver vessi er enn til staðar. Meðgöngutími sjúkdómsins þ.e.a.s. sá tími, sem líður frá því að einstaklingur smitast þar til hann fer að fá einkenni, í þessu tilviki bólur, vessafylltar blöðrur og sár er 10-21 dagur.
Hver eru einkennin?

 • Útbrot á búk og í andliti. Útbrotin berast síðan í hársvörð, handleggi og fætur. Þau geta einnig borist yfir á slímhúðir og kynfæri.
 • Útbrotin valda kláða.
 • Til að byrja með eru þetta litlar rauðar bólur, sem eftir nokkra klukkutíma verða að blöðrum. Blöðrurnar verða síðan að sárum á 1-2 dögum. Það myndast hrúður og þær þorna upp.
 • Nýjar blöðrur geta myndast eftir 3-6 daga.
 • Það er mjög mismunandi hversu margar blöðrur hver einstaklingur fær.
 • Sjúkdómnum getur iðulega fylgt hiti.
 • Börn verða yfirleitt lítið veik á meðan fullorðnir geta orðið mjög veikir.
 • Slappleiki og hiti geta varað í einhvern tíma áður en bólurnar myndast.

 

Hverjir eru í áhættuhóp?
Þungaðar konur, sem hafa ekki fengið hlaupabólu og einstaklingar með veiklað ónæmiskerfi, þ.á.m. börn með hvítblæði og alnæmissjúklingar. Fyrirburar og ungbörn, auk þess sem einstaklingar á ónæmisbælandi lyfjum geta einnig orðið mjög veikir. Þeir, sem eru í áhættuhóp og eru í smithættu geta fengið mótefni gegn veirunni í sprautuformi. Í sumum löndum er bólusett gegn veirunni, en það er ekki gert hér á landi.

Hvað er til ráða?

 • Einstaklingur er smitandi þangað til að allar blöðrur eru orðnar að sárum og nýjar eru hættar að myndast. Halda skal smituðum einstaklingi heima við.
 • Neglur skulu klipptar eða hanskar notaðir.
 • Gætið verður hreinlætis, ef þið hafið komið við blöðrurnar eða svæðin í kring er ráðlegt að þvo sér vel um hendur. Börn klóra gjarnan í blöðrurnar og geta því borið smit.
 • Kaldur bakstur getur linað kláðann.
 • Hiti og sviti valda kláða, því er gott að vera í svölu umhverfi. Sturta eða bað skolar svitann af og fólki líður betur á eftir.
 • Sjúkdómsgreiningin er byggð á ofangreindum augljósum einkennum.

Batahorfur
Yfirleitt stafar engin hætta af sjúkdómnum. Sjúkdómurinn varir í 7-10 daga hjá börnumen lengur hjá fullorðnum. Fullorðnir fá oftar fylgikvilla en börn en þeir eru hins vegar mjög sjaldgæfir.
Sá sem hefur einu sinni fengið hlaupabólu fær hana aldrei aftur. Hins vegar getur veiran síðar valdið sjúkdómi sem heitir ristill (herpes zoster). Einstaklingur með ristil getur smitað aðra af hlaupabólu.

Hvaða fylgikvillar geta komið í kjölfar hlaupabólu?

 • Þvagfærasýkingar.
 • Bólga í augum eða lungnabólga.
 • Í sumum tilfellum getur hlaupabóla m.a. valdið heilabólgu, hjartavöðvabólgu og Reyes– heilkenni.

Hver er meðferðin?

Meðferðin felst einkum í því, að draga úr einkennum. Hægt er að lina kláðann eins og greint var frá hér að ofan. Einnig eru til lyf til útvortis notkunar sem draga úr kláðanum. T.d. sinkáburður og púður, áburður sem inniheldur menthol svo og mentholspritt. Einnig eru til staðdeyfikrem. Þessi lyf draga einungis úr kláðanum tímabundið og við notkun þeirra ber að hafa í huga að þau geta valdið sviða í stutta stund. Ef kláðinn verður svo mikill að hann truflar svefn barnsins, er hægt að gefa því kláðastillandi lyf, andhistamín, sem þó getur haft sljóvgandi áhrif. Sams konar lyf eru gefin við ofnæmissjúkdómum, ferðaveiki og svefnleysi. Hægt er að meðhöndla sjúkdóminn hjá heilbrigðum einstaklingi með lyfjum sem virka á veiruna sjálfa, ekki bara einkennin.

X