Loading

HORFÐU-HINKRAÐU-HUGLEIDDU

Pistill eftir Rakel Rán Sigurbjörnsdóttur, fjölskyldumeðferðarfræðing.

– – –

Horfðu, hinkraðu og hugleiddu

Í önn hversdagsins er oft mikið að gera og heimilislífið á það til að verða að rútínu. Sækja á leikskólann/frístundaheimilið, koma heim, undirbúa mat, borða, baða og sofa. Það er margt sem þarf að gera til að allt gangi upp, eða þannig líður mörgum í það minnsta. Margir foreldrar hlakka til að börnin fari að sofa svo þeir geti fengið “sinn” tíma á kvöldin. Í öllum látunum er þó mikilvægt að muna eftir börnunum. Börn eru tilfinningaverur sem þurfa mjög mikið á foreldrum sínum að halda. Og eins og foreldrarnir þurfa “sinn” tíma þurfa börnin það líka.

Börnin þurfa tíma með foreldrum sínum. Rólegan tíma þar sem þau fá að tengjast foreldrum sínum án þess að sími, sjónvarp eða skammir geti truflað. Til að móta slíkan tíma er gott að nota aðferð sem kallast Watch, Wait and Wonder.

Á íslensku kallast aðferðin Horfðu, hinkraðu og hugleiddu (HHH) og byggir hún á samveru barns og foreldris. Sýnt hefur verið fram á að aðferðin örvi sjálfsprottinn og skapandi leik barnsins, dragi úr hegðunarvanda og styrki tengsl milli foreldris og barns svo eitthvað sé nefnt.

Aðferðin byggir á því að foreldri og barn eiga saman stund (20-30 mín, minnst þrisvar sinnum í viku) þar sem barnið ræður ferðinni og foreldrið fylgist með. Barnið hefur frumkvæði að leiknum og foreldrið er þögull áhorfandi en ekki þátttakandi. Mikilvægt er að foreldrar dragi sig í hlé og segi börnum sínum ekki til né siði þau á leiktímanum.

Áður en HHH stundin hefst undirbýr foreldið rýmið sem á að nota. Best er að rýmið sé afmarkað, t.d. lokað herbergi og í því á ekkert að vera sem barnið má ekki ná í. Viðkvæmir og verðmætir hlutir eru því fjarlægðir svo ekki þurfi að stoppa barnið þegar HHH stundin er byrjuð. Slökkt er á síma og sjónvarpi og þeim tækjum sem geta truflað stundina. Barnið á að geta gert hvað sem er þennan tíma, þar sem foreldri hefur gert rýmið öruggt fyrir leikinn. Barninu eru ekki sett mörk nema það geti skaðað sig eða foreldrið, eða eyðilagt eitthvað.

Hlutverk foreldrisins er að sitja á gólfinu hjá barninu, fylgjast með leik barnsins og sýna því að foreldrið sé til staðar þegar/ef barnið þarf á því að halda. Að öðru leyti á foreldrið ekki að gera neitt. Barnið sér um rest. Barnið velur hvaða dót það vill leika með, hvort það vilji leika eða bara knúsast hjá foreldrinu og hvort það vilji nota dót á hefðbundinn hátt eða ekki. Á meðan HHH studninni stendur finnur barnið að foreldrið hefur tíma fyrir barnið, að barninu sé treyst til að leika sér sjálft og að foreldrið hafi áhuga á því sem barnið er að gera. Barnið getur notað leikinn til að tjá líðan sína og hugsanir og það fær ekki skammir eða stjórnun á meðan.

Þessi einfalda aðferð, að vera til staðar án þess að stjórnast eða taka þátt í leik, reynist mörgum foreldrum erfið. En þetta er án efa með því fallegra sem við getum gefið börnunum okkar, tími, traust og umhyggja. Svo þrátt fyrir að HHH stundin geti tekið á fyrir foreldra þá græða allir þegar upp er staðið.

Fyrir þá sem vilja kynna sér HHH betur bendi ég á eftirfarandi slóðir:
http://watchwaitandwonder.com/
http://vimeo.com/6016065

Góðar horfðu, hinkraðu og hugleiddu stundir!

– – –

Rakel Rán er lærður fjölskylduráðgjafi frá Háskóla Íslands. Hún starfar á Shalom þar sem boðið er upp á heildræna meðferð. Þar býður hún upp á ráðgjöf og meðferð fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur. Rakel Rán vinnur að meistaraverkefni um samskipti við börn og heldur úti fésbókarsíðunni Ást og umhyggja – fjölskyldustuðningur.
Hægt er að hafa samband við Rakel með tölvupósti á netfangið rakelran@gmail.com.

X