Loading

Hreiðurgerð eða skipulagsbrjálæði?

Þar sem ég er nú komin í veikindaleyfi þá hefur „hreiðurgerðin” og undirbúningurinn fyrir litla stubb hafist fyrir alvöru. Ég er búin að vera í rúma viku frá vinnu og Guð minn góður hvað undirbúningurinn hófst með miklum stæl. Ég byrjaði að sjálfsögðu á því að búa til allskonar lista því ég er sjálfmenntaður sérfræðingur í listagerð og ég er búin að merkja hinar ýmsu hillur og kassa inni í herbergi dótturinnar og ég veit ekki hvað og hvað.

Skipulagsæðið hefur eiginlega ekki stoppað. Ég er með nokkra lista í gangi; það er innkaupalistinn, spítalatösku listinn, verkefna listinn og svo síðast en ekki síst Freyju listinn því frumburðurinn skal sko ekki gleymast og það verður séð til þess að henni líði sem allra best á meðan mamma og pabbi „ná í” litla bróður.

Ég hugsa út í það á hverjum degi hvernig þetta mun vera fyrir hana og hvernig henni muni líða og ég vill náttúrulega raska hennar rútínu sem minnst. Ég er búin að útbúa einskonar „fylgiseðil” með henni sem fer í töskuna hennar, því það er ekki nóg að pakka í spítala tösku fyrir mig heldur þarf ég líka að hafa eina Freyju tösku reddy ef hún þarf að vera í einhverja daga hjá ömmum og öfum.

Á fylgiseðlinum eru aðalega bara svona gagnlegar upplýsingar fyrir ömmurnar og afa eins og hvernig vistunartíminn hennar er á leikskólanum, hvað starfsfólkið á deildinni hennar heitir, hversu lengi morgunmatur er í boði, upptalning á hvað er í leikskólatöskunni og svo að sjálfsögðu símanúmerið hjá leikskólanum og svo símanúmer hjá mömmu og tengdó svo þau geti haft samband sín á milli ef eitthvað er.

Svo eru nokkrar línur um hinar ýmsu venjur fyrir svefntíma og hvenær hún er vön að fara í bað og hver uppáhalds teiknimyndin hennar er í augnablikinu. Ég þurfti nú samt alveg að ritskoða þetta helling þar sem ég var alveg óvart komin út í aðeins of mikil smáatriði, og listinn orðinn að “step by step” Freyju leiðbeiningum og vantaði bara að orðabók Freyju með skuldskeytingu fylgdi með.

Mér tókst nú samt alveg hjálparlaust að einfalda fylgiseðilinn töluvert og nú er hann bara ein blaðsíða. En það er meira á Freyju listanum mínum en bara að útbúa þennann fylgiseðil. Þar er að sjálfsögu listað upp hvað þarf að vera í ferðatöskunni góðu og svo eru nokkrir hlutir sem ég þarf að versla fyrir dömuna. Hún fær nýjan tannbursta með í töskuna og óvæntann glaðning sem er nýr  DVD með Gurru grís til að sýna ömmu og afa og svo að sjálfsögðu þarf ég að vera búin að græja gjöf handa henni frá litla bróður sem hann gefur henni þegar þau hittast því litli bróðir mun örugglega fá eittvað af gjöfum og hún Freyja mín þarf nú að fá eittvað líka svo hún verði minna abbó ef hún verður eitthvað abbó.

Spítalatösku listinn minn er svona styðst kominn, ég hugsa að ég deili honum á mömmu blogginu síðar þegar ég hef lokið við hann og jafnvel búin að pakka í tösku. Ég þarf að grafa upp gamla spítalatösku listann minn og stúdera hann aðeins. Ég er búin að vera einbeita mér að undirbúningnum og verkefnalistanum hér heima og þar er að sjálfsögðu að gera pláss fyrir og koma fyrir fötunum hans litla stubbs og það þarf smá skipulagshæfni þar. Við erum bara með eina kommóðu fyrir barnafötin þar sem flest fötin hennar Freyju eru geymd og svo fataskáp með hillum og ég þoli ekki hillur, það er svo leiðinlegt að leita að svona litlum fötum í hillum ég vill frekar hafa öll þessi litlu föt í skúffum. Þannig að systkinin munu þurfa að deila kommóðu og af því ég á svona mann sem man aldrei hvar neitt er geymt þá er ég búin að teikna upp skipulagið á hverri skúffu fyrir sig svo að hann viti hvað er hvar. Ég ætla svo að plasta þetta og geyma í kommóðunni svo að „greyið” óskipulagði maðurinn minn sé með þetta alveg á hreinu nú mun hann ekki hafa afsökun til að ganga ekki frá barnafötunum.

Skúffunum í kommóðunni skúffunum er öllum hólfað niður með SKUBB boxunum úr IKEA þannig að það var frekar auðvelt að skipta þessu upp á skipulagðann hátt. Nú er ég nokkuð viss um að einhver er að velta fyrir sér „afhverju ertu ekki með sér skúffur fyirir þau?”…. og já það er ástæða! Sumar flíkur er maður bara að nota meira en aðrar eins og samfellur og sokkabuxur þess vegna ég vill hafa auðvelt aðgengi að þeim, ég meika ekki að vera alltaf að beygja mig og bogra til að ná í föt þannig ég hef allt sem er sjaldan notað neðst eins og gallabuxur og svona „fínni” föt sem henta ekki alveg í leikskólann.

Nú á ég bara eftir að splæsa mér í nokkra svona SKUBB kassa í viðbót klára að fylla inní skipulags teikningarnar og þá er fataskipulagið komið á hreint í bili….þetta mun allt fara í rugl aftur ég bara veit það en þetta verður a.m.k. voða fínt til að byrja með og lítið mál að koma í lag aftur með því að fylgja skipulaginu.

Ég held að maðurinn minn sé mjög feginn akkúrat núna að ég á ekki merkimiðavél því ég væri líklega búin að setja merkimiða á allt ef ég ætti svoleiðis!

En næst á dagskrá er að vinna í innkaupalistanum með öllu sem þarf að kaupa og svo er það að klára að pakka í þessar töskur því nú eru bara tæpar fjórar vikur í settann dag! Ég vakna nefninlega oft á nóttunni til að pissa, svona af því ég er ólétt og þannig er þetta bara, og ég er oft alveg MJÖG lengi að sofna aftur lágmark tvær klukkustundir og stundum sofna ég ekki einu sinni aftur! -Ótrúlega pirrandi! En þegar ég ligg svona lengi að reyna að sofa þá fer hausinn oft alveg á fullt, sem er kannski hluti af ástæðunni fyrir því að ég sofna ekki. Ég fer að hugsa hvað væri gott að setja í spítalatöskuna, hvað ég þarf að gera hér heima og hvað mig vantar og fer í símann minn og bæti á listana mína. Ég held að ef ég bara klára þessa lista og klára að pakka í þessa spítalatösku og Freyju tösku þá hafi ég minna til að „obsessa” yfir á nóttunni og þá næ ég kannski að sofna. Ég ætla að láta á það reyna en ef ég þekki sjálfa mig rétt þá finn ég bara nýja lista að búa til og fylli þá af nýjum hlutum til að hafa „áhyggjur” af…

Anna Sigrún

– – –

Ég heiti Anna Sigrún og er 28 ára. Ég á eina dóttur sem heitir Freyja og er fædd þann 1. maí 2015 og síðan er lítill drengur væntanlegur í heiminn í lok mars. Ég hef verið gift í þrjú ár en við höfum verið saman síðan 2009.

Ég bý og vinn í Breiðholti, er að vinna á leikskóla í augnablikinu en það styttist í að ég fari í veikindaleyfi á síðustu vikum meðgöngunnar og við tekur svo fæðingarorlof. Helstu áhugamál mín eru barnauppeldi og barnamenning, förðun, ljósmyndun, DIY stúss og falleg hönnun. Ég hef MJÖG gaman af því að versla og skoða allskonar sniðugt á netinu og svo er ég með skipulagsdellu! Ég er mjög dugleg að búa til allskonar lista og skipulag yfir hvernig er best að skipuleggja hitt og þetta…en ég er ekki alveg jafn góð í að fylgja þeim, sérstaklega innan veggja heimilisins.

– – –

Langar þig að blogga? Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt?
Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Við höfum endurvakið okkar stórskemmtilega MÖMMUBLOGG og erum að leita að vel skrifandi og áhugaverðum foreldrum til að deila sögum úr lífi sínu.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora(hjá)foreldrahandbokin.is

X