Loading

Hugmyndir um börn

Í samfélaginu eru við lýði margar skrítnar hugmyndir um börn. Á meðal þeirra eru þessar:

  • Ef börn fá of mikla nánd verða þau þurfandi og læra ekki að standa á eigin fótum.
  • Ef börn fá of mikla umhyggju verða þau frek.
  • Ef börn eru ekki skömmuð þá læra þau ekki muninn á réttu og röngu.
  • Ef börn eru ekki látin „gráta út” öðru hvoru læra þau ekki að takast á við erfiðar tilfinningar.
  • Börn eru í eðli sínu frek og helstu tilfinningar sem þau láta í ljós eru reiði og móðgun.
  • Það er í lagi að slá á rassinn á börnum þó það sé ekki í lagi að slá á fullorðna rassa.
  • Börn eiga að treysta á aðra til að vita hvenær, hvort og hvernig þau eiga að sofa og borða.
  • Börn eiga að haga sér eins og fullorðnir við hinar ýmsu aðstæður.
  • Tilfinningalíf barna skiptir minna máli en tilfinningalíf fullorðinna.

Þessar hugmyndir virðast vera rótgrónar í hugum margra fullorðinna einstaklinga. Svo vel grónar að þó fjöldi rannsókna í tengslafræðum og taugalíffræði hafa hrakið þær nær fólk ekki að tileinka sér nýja þekkingu. Ástæða þess er eflaust sú að flestir notast við svipaðar uppeldisaðferðir og notaðar voru á þá. Til þess að breyta þessum viðhorfum þurfum við vitundarvakningu um umönnun barna. Foreldrar þurfa að leyfa sér að endurskoða hugmyndir sínar og þora að víkja frá gömlum venjum.

Í samskiptum við börn er gott að spyrja sig hvort sama hegðun væri í lagi í samskiptum við fullorðinn einstakling sem maður elskar innilega, til dæmis maka sinn. Myndi ég láta maka minn gráta einan þegar honum liði illa, bara af því að mér þætti ástæðan fyrir grátinum asnaleg? Myndi ég hrifsa í peysu vinkonu minnar þegar hún ætlaði að gera eitthvað sem mér líkaði ekki? Myndi ég segja konunni minni að fara strax að sofa þó hún væri alls ekki þreytt, bara af því að klukkan væri orðin ellefu? Myndi ég hóta vini mínum, með reiðilegum svip og ákveðnum tón, að skilja hann einan eftir á stað sem hann gæti ekki bjargað sér á, því hann talaði svo mikið um hvað hann langaði í sleikjó?

Börn eru litlar manneskjur sem eiga margt ólært. Skilaboðum er yfirleitt hægt að koma á framfæri á margan ólíkan hátt, bæði til barna og fullorðinna. Ef markmiðið er að kenna börnum að koma vel fram, styðja við tilfinningalegan og félagslegan þroska þeirra, kenna þeim tilfinningalegt úthald og samkennd þurfa foreldrar að vanda vel til verksins. Flest höfum við getuna til þess alveg eins og við höfum getu til að bæta okkur í starfi og sinna endurmenntun. Margir segja að uppeldi barna sé eitt erfiðasta en jafnframt mikilvægasta verkefni sem einstaklingur getur tekist á við. Eðlilegt væri því að leggja metnað sinn í að sinna því vel og tileinka sér framkomu í garð barna sem virðist hafa jákvæð áhrif á persónulegan þroska þeirra.

– – –

Rakel Rán er með meistaragráðu í fjölskyldumeðferð og starfar hún á meðferðarstofunni Shalom í Reykjavík. Þar býður hún upp á ráðgjöf og meðferð fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur. Rakel hefur sérhæft sig í meðferð við langtímaafleiðingum kynferðisofbeldis í æsku, sem og samskiptum við börn og umönnun þeirra.
Rakel Rán heldur úti fésbókarsíðunni Ást og umhyggja – fjölskyldustuðningur. Hægt er að hafa samband við Rakel með tölvupósti á netfangið rakelran@gmail.com.

X