Loading

HUGVITSAMLEG HOLLUSTURÁÐ

Pistill eftir Ebbu Guðnýju Guðmundsdóttur, höfund bókarinnar Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða?

Heil og sæl!

Ef þið eruð að baka eða stússast eitthvað í eldhúsinu er lítið mál að breyta gömlum og góðum uppskriftum svo þær verði heilsusamlegri:

 • 1 dl hveiti – 1 dl spelti (og oft má, sérstaklega í brauðuppskriftum, skipta og setja helming af grófu spelti og helming fínt eða allt gróft.. þetta grófa er bragðmeira og bragðbetra en þetta hvíta/fína, finnst mér:)
 • 1 dl heilhveiti – 1 dl grófmalað spelti (en að sjálfsögðu er ekkert að því að nota gott (lífrænt) heilhveiti ef þið þolið það vel.
 • 1 tsk lyftiduft – 1 tsk vínsteinslyftiduft (vínsteinslyftiduft er ekki drýgt með hveiti og inniheldur ekki aluminum (þungmálmur). Ef þið eruð að breyta ger uppskrift í vínsteinslyftidufts uppskrift að þá setjið þið 1 tsk af vínsteinslyftidufti á hver 100 gr af mjöli!

Einnig er auðvelt að setja í staðinn fyrir smá af korninu fræ eða möluð fræ ef þau þurfa að dulbúast:) (möluð rólega í blender eða kaffikvörn), saxaðar eða malaðar hnetur, kókosmjöl og jafnvel bókhveiti sem er glúteinlaust en bókhveiti er sérlega fínt í vöfflur og pönnukökur á móti speltinu um það bil 70% spelti og 30 % bókhveiti. Það er þó ekkert mál að setja enn stærra hlutfall af bókhveiti í pönnukökur og vöfflur!!! Málið með glúteinlausa mjölið, eins og bókhveiti, er að það lyftir sér ver og molnar frekar… en ekkert mál þegar því er blandað saman við speltið. AB-mjólk eða hrein jógúrt/súrmjólk hjálpar líka kökum að lyfta sér til dæmis ef þið notið ekki egg og halda deginu líka betur saman. Einnig er sniðugt að leggja um 1 dl af hörfræjum í bleyti í smá vatn yfir nótt og nota svo í brauðuppskrift því þau verða eins og “slím” sem einmitt heldur brauðinu vel saman. Ef þið notið ekki lífræna jógúrt í brauðdeig er snjallt að kreista smá ferskan sítrónusafa í deigið (1 msk á 100-200 gr ca) því þetta súra hjálpar deginu að lyfta sér betur.

 • 1 dl sykur – 1/2-3/4 dl hrásykur
 • 1 dl sykur – 1/2 dl lífr. agave
 • 1 dl sykur – 1/2 dl lífr. hunang
 • 1 dl sykur – 1/2 dl lífr. maple syrup (hlynsýróp)
 • 1 dl sykur – 3/4 dl pálmasykur (palmsugar)
 • 1 dl púðursykur – 3/4 dl hlynsýróp
 • 1 dl smjörlíki – 1 dl smjör (og jafnvel rjómi, namm! svaka gott t.d. í súkkulaðikökur)
 • 1 dl smjörlíki/smjör – 3/4 dl lífr. kaldpressuð kókosolía (sem er ein hitaþolnasta olían)
 • Smjörlíki inniheldur herta fitu og fleira sem er ekki hollt fyrir okkur!

Svo gera alls kyns krydd uppskriftir sætar… það hefur Solla kennt mér… vanilla, kardimommur, kanill og svo framvegis… og líka gott í sjeikinn. Einnig má nota þroskaða banana í kökur til að gera sætt!

Gangi ykkur svo vel.

Hjartans kveðjur,
Ebba xx

p.s. Pálmasykur er kominn í mikið uppáhald hjá mér:

*Lífrænn pálmasykur er unnin náttúrulega úr pálmatrjám og er heilsusamlegt sætuefni. Innfæddir bændur safna saman safanum úr blómum kókostrjánna og búa þannig til pálmasykur. Navitas pálmasykur kemur alveg í staðinn fyrir venjulegan sykur í alla matargerð, hvort sem það er í matinn, eftirréttinn, bakstur eða blandarann. Pálmasykur er með mjög lágan sykurstuðul (GI35) sem er helmingur af sykurstuðli venjulegs sykurs og hann inniheldur einnig vítamín og steinefni eins og Kalíum, magnesíum, sínk og járn.

——

Ebba Guðný Guðmundsdóttir er kennari að mennt en hefur undanfarin ár helgað sig næringu ungbarna og hollari lífsháttum allrar fjölskyldunnar. Hún gaf út bókina Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða? sem hefur reynst íslenskum foreldurm ómetanlegur fjársjóður í leitinni að hollari lífsháttum. Ebba heldur úti vefsíðunni pureebba.com þar sem hægt er að finna myndbönd og girnilegar uppskriftir.

X