Loading

HVAÐ ER FJÖLSKYLDUMEÐFERÐ?

Pistill eftir Rakel Rán Sigurbjörnsdóttur, fjölskyldumeðferðarfræðing.

Kæru lesendur,
mér hefur hlotnast sá heiður að skrifa pistla á þessa fínu síðu. Það er víst við hæfi að ég kynni mig og þá þjónustu sem ég býð upp á áður en ég birti almenna pistla.

Ég útskrifaðist úr fjölskyldumeðferðarnámi við HÍ vorið 2011. Í náminu lagði ég áherslu á tengslakenningar og samskipti við börn. Undanfarin ár hef ég unnið við meðferð átraskana á Landspítalanum en hef nú skipt um vinnustað og er nýlega farin að vinna sjálfstætt við fjölskyldumeðferð. Nýi vinnustaðurinn heitir Shalom og er heildræn meðferðarstofa. Á stofunni tek ég á móti einstaklingum, pörum og fjölskyldum auk þess að halda fyrirlestra og námskeið.

Í starfi mínu tengdu börnum vinn ég bæði með foreldrum meðan á meðgöngu stendur og eftir hana. Á meðgöngu koma oft upp ýmis mál sem foreldrar vilja leysa áður en barnið kemur í heiminn. Margir foreldrar óttast fæðinguna og komandi foreldrahlutverk og þá er gott að blanda saman samtalsmeðferð og dáleiðslu til að styrkja foreldrana fyrir fæðinguna og tímann eftir hana.

Í vinnu með börnum byrja ég alltaf á að hitta foreldri/foreldra til að ræða þeirra hugmyndir um hvað barnið sé að ganga í gegnum og hvernig vandinn birtist þeim. Þannig er hægt að tala opinskátt um vanda barnsins og áhrif hans á foreldrana. Þegar barnið kemur með til meðferðar er áherslan lögð á tilfinningar og hugarheim þess. Aðferðir sem ég nota fara eftir aldri barnsins og persónuleika þess. Stundum notast ég fyrst og fremst við samtalsmeðferð, stundum við aðferðir úr leikjameðferð (e. theraplay) og stundum við sköpun s.s. teikningu og leirgerð. Þegar um ungabörn er að ræða notast ég við aðferðir úr meðferðartækni sem kallast Watch, Wait and Wonder. Ungabörn koma einna helst með til meðferðar þegar foreldri glímir við þunglyndi eða önnur veikindi og þegar foreldri á erfitt með að tengjast barni sínu tilfinningalega.

Í hefðbundinni para- og fjölskyldumeðferð er unnið með hina ýmsu erfiðleika sem upp geta komið. Almennt byggir hún á samtalsmeðferð en aðrar aðferðir eru einnig notaðar eftir því sem við á. Þar má meðal annars nefna notkun fjölskyldu- og lífsskeiðakorta. Fjölskyldur koma gjarnan saman til meðferðar þegar vinna á með mál sem snerta fjölskylduna í heild s.s. erfiðleika í samskiptum, skilnaði eða andleg eða líkamleg veikindi einhvers í fjölskyldunni.

Ég held að mest öll mín vinna snúist að fjölskyldum, beint eða óbeint. Í einstaklingsmeðferð legg ég áherslu á að skoða líf einstaklingsins í samhengi. Uppeldi, áföll, sem og öll önnur lífsreynsla hefur áhrif á hver við erum og hvernig lífi við lifum.

Hér á síðunni mun ég fyrst og fremst skrifa pistla sem tengjast umönnun og uppeldi barna. Ég vona að þeir megi koma lesendum að góðu gagni.

Hægt er að hafa samband við mig með því að senda tölvupóst á netfangið rakelran@gmail.com.

Rakel Rán Sigurbjörnsdóttir,
fjölskyldumeðferðarfræðingur

Rakel Rán er lærður fjölskylduráðgjafi frá Háskóla Íslands. Hún starfar á Shalom þar sem boðið er upp á heildræna meðferð. Þar býður hún upp á ráðgjöf og meðferð fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur. Rakel Rán vinnur að meistaraverkefni um samskipti við börn og heldur úti fésbókarsíðunni Ást og umhyggja – fjölskyldustuðningur.

Hægt er að hafa samband við Rakel með tölvupósti á netfangið rakelran@gmail.com.

X