Loading

HVAÐ GERIR MAMMA ÞÍN?

…Þegar hún komst að því að væri von á þér? Hoppaði hún hæð sína af gleði en var líka pínu kvíðin? Vissi ekkert hvað væri í vændum. Þegar hún eignaðist þig, þá var það stórkostlegasta augnablik lífsins, ekkert komst nálægt þeirri tilfinningu að horfa í augun á þér og halda á þér í fyrsta sinn. Hún gaf þér allt sem hún átti, ótakmarkaða ást, nærveru, knús og kossa. Ekkert var nógu gott fyrir þig.

Stoltið þegar þú snerir þér fyrst, fórst að skríða og svo að ganga. Mamma þín var að springa af stolti og gleði og sagði öllum hvað þú varst duglegur. Þegar þú fórst að tala, skrifaði hún niður hvert einasta orð og hvað það þýddi. Þegar þú sagðir eitthvað sniðugt þá fannst mömmu þinni það svo stórkostlegt að hún setti það í status á facebook, jafnvel þó að vinum hennar fyndist það ekkert jafn stórkostlegt og henni. Hún tók eins langt fæðingarorlof eins og hún gat og ákvað svo að vera heimavinnandi til að geta verið til staðar fyrir þig og vera heima þegar þú komst úr leikskólanum og seinna skólanum. Seint á kvöldin þegar þú varst sofnaður þá vann hún.

Fylgdi þér klökk í leikskólann fyrsta daginn og það var eins og væri verið að rífa úr henni hjartað þegar þú fórst að gráta. Snýtti, baðaði, skeindi og þreif….alltaf sjálfsagt. Huggaði þig þegar þú meiddir þig, þvoði fötin þín…líka þegar þú varðst stór. Hjálpaði þér við heimanámið, bakaði fyrir bekkjarskemmtanir, stóð úti í kuldanum þegar þú kepptir í fótboltanum. Fylgdi þér á mótin þó að hún væri ekkert spennt fyrir að sofa í tjaldi….ekkert var nógu gott fyrir þig. Mamma þín vakti yfir þér þegar þú varst veikur, vakti með þér þegar þú gast ekki sofið og vakti eftir þér af áhyggjum yfir því að þú kæmist heill heim þegar þú varðst stór.

Hverjum áfanga var fagnað eins og annað eins hefði ekki nokkuð annað barn afrekað. Grátið með þér á erfiðum stundum og hlegið saman á góðum. Á hverjum degi var hún til staðar fyrir þig, boðin og búin að gera allt sem hún gæti til að þér liði sem best og þú myndir verða hamingjusamur einstaklingur.

Hvað gerir mamma þín? Ha… mamma… svo sem ekkert – hún er bara heimavinnandi.

– – –

Ingibjörg Baldursdóttir er hjúkrunarfræðingur og IBCLC brjóstagjafaráðgjafi.
Hún vinnur sjálfstætt með ráðgjöf og námskeið um brjóstagjöf og umönnun ungbarna. Jafnframt því er hún að ljúka meistaranámi í hjúkrun í HÍ með áherslu á sérhæfingu í brjóstagjöf. Ingibjörg heldur jafnframt út Facebook síðunni Brjóstagjöf – meira en bara næring þar sem hægt er að fá ráðgjöf frá Ingibjörgu um allt er viðkemur brjóstagjöf og umönnun ungbarna. Hún heldur jafnframt úti vefsíðunni Barnið okkar þar sem þessi pistill birtist upphaflega og mikið magn fróðleiks er að finna auk nánari upplýsinga um námskeiðahald og ráðgjöf.

X