Loading

HVAÐ GERIR OKKUR AÐ FORELDRUM?

Eins og eflaust fleiri las ég pistilinn um stjúpforeldra hérna á síðunni, algjörlega frábær grein.

Það sem ég fór samt að velta fyrir mér í framhaldinu, er sú skoðun sem margir virðast hafa að aðeins sé hægt að eiga einn pabba og eina mömmu, í mínum huga allavega er lífið alls ekki svona einfalt.

Hvað er það sem gerir okkur að foreldrum? Er það að eiga 50% af erfðaefninu í einhverjum einstaklingi? Eða er það kanski að vera til staðar fyrir barnið, fylgjast með því dafna og þroskast, gefa því að borða, skipta á bleyju, sjá barnið læra að sitja, skríða, ganga, tala. Kyssa á bágtið, kenna barninu munninn á réttu og röngu. Vaka yfir barninu þegar það er veikt, hafa áhyggjur af því, reyna alltaf að gera sitt allra besta til að þetta barn vaxi sem best úr grasi?

Í mínum huga er svarið ekki mjög flókið.

Ég geri mér samt alveg grein fyrir því að mín skoðun er ef til vill frekar lituð af tveim ástæðum.

Því að ég ólst upp hjá pabba mínum og mömmu sem sumir myndu samt vilja meina að væri ekki mamma mín því að hún á ekki 50% af erfðaefninu í mér. En hún á mig nú samt alla og þó manni hafi kanski ekki alltaf fundist hún besta mamma í heimi þegar maður var að kafna úr gelgju þá sé ég það svo vel núna að ég hefði líklegast ekki getað fengið betri mömmu.

Eldri sonur minn er líka svo heppinn að hafa eignast besta pabbann í öllum heiminum, pabba sem kom inní líf hans þegar hann var 6 mánaða gamall, og ég er ekki frá því að hann eigi stundum meira í drengnum heldur en ég.

Í mínum huga er það nefninlega ekki erfðaefnið sem gerir okkur að foreldrum endilega, það er allt hitt.

– –
Ég heiti Sif Hauksdóttir og er 24 ára, ég á tvo yndislega og orkumikla drengi, sá eldri er fæddur í september 2009 og sá yngri í október 2010. Ég er heimavinnandi húsmóðir með þann yngri þangað til hann kemst á leikskóla en eftir það eru engin plön, ég hef nefninlega ekki ennþá komist að því hvað mig langar að verða þegar ég verð stór!

X