Loading

HVAÐ SKIPTIR MÁLI OG HVAÐ EKKI

Maðurinn minn var með son okkar í sundi um daginn og varð vitni að því í karlaklefanum að maður bölsótaðist yfir smekkleysi dóttur sinnar: „Nei, ekki setja sokkana undir, þeir eiga að fara yfir“. Dóttirin var eins og tískuslys, með sokkana undir gammósíunum eins og henni fannst sennilega þægilegast en ekki yfir eins og allir vita að er málið ef þú ætlar ekki að vera eins og auli. „Þetta er miklu fallegra hinsegin“ hélt pabbin áfram að bögga stelpuna. Dóttirin mótmælti og vildi endilega halda sínu striki. Pabbinn tók sig þá til og fór á hækjur sér til að redda málunum sjálfur, draga sokkana undan gammósíunum til að hægt væri að laga ferlegheitin. Ekki vildi betur til en að dóttirin féll við og rak höfuðið í. Pabbinn hélt áfram ótrauður og sagði pirraður við stelpuna sína: „Já, þú verður að passa þig að detta ekki!“.

Og hver er boðskapur sögunnar? Jú, kæru foreldrar, veljið ykkur orrustur. Ekki vaða í þær allar með hornin á undan. Hvaða máli skiptir það þó sokkarnir séu undir gammósíunum? Svona í stóra samhenginu? Og þó að þau vilji endilega vera í stígvélum þegar sólin skín og allir eru í skóm með opinni tá? Og þó að spennan sé í einhverjum hnút á bakvið annað eyrað af því að þau heimta að setja hana í sjálf? Og þó að þeim finnist þægilegast að vera gyrt upp að geirvörtum? …

Kannski fussa einhverjir núna, halda að börnin mín séu eins og þau hafi dottið út úr heimasíðu Lindex og ég viti ekki hvað í fjandanum ég er að rausa. Ég skal glöð leiðrétta þann misskilning. Dóttir mín tók upp á því um það leyti sem hún datt í þriggja ára aldurinn að slysast aldrei til að vera í samstæðum sokkum, og ég er að tala um ALDREI! Þar sem mátti láta ljós sitt skína í frumleika nýtti hún það. Kannski af því að hún er í Hjallastefnuleikskóla þar sem allir eru frekar keimlíkir í skólabúningunum sínum eða kannski bara af því að hún er svo frábær og hugmyndarík stelpa.

Ég veit svosem ekki hvað það var sem fékk hana til að taka upp á þessu en hún heldur enn fast í þennan sið. Og stígvélin fara yfirleitt best með nettum krumma og henni virðist ekki finnast það neitt óþægilegt. Henni finnst enn fremur afar skemmtilegt að spóka sig um í kjól um helgar (og þegar á að taka nokkur dansspor en þá virðist það gefa upplifuninni eitthvað extra að vera í kjól). Þá er hún oft eins og hún hafi dottið niður úr litatrénu og hitt allar greinarnar á leiðinni niður. En hún er aldrei „ekki í stíl“ eða „ósmart“ á einhvern hátt. Hún er bara flottur þriggja ára krakki, það finnst mér allavega og því meiri litadýrð því meiri hress- og ferskleiki.

Það er ekki svalt að kæfa niður sjálfstæða hugsun og frumleika hjá börnum, við eigum að fagna honum. Ef þau kjósa að rölta á móti straumnum þá eigum við að lána þeim hönd og styðja við þau. Við foreldrar eigum ekki að rembast við að hnoða þeim ofan í mótið margumtalaða, það er svo þröngt þar. Ef þau eiga einhvers staðar að vera í skjóli sem þau sjálf þá á það að vera hjá mömmu og pabba. Ég get ekki annað en vonað að pabbinn (tískulöggan) hafi áttað sig á því hvað þetta var heimskulegt þegar hann var búinn að fella dóttur sína vegna yfirþyrmandi tískuvitundar sinnar. Ég vona bara að hann sé búinn að biðja hana afsökunar á vitleysunni í sér. Það verða aðrar og mikilvægari orrustur sem ekki verður umflúið að demba sér í svo við ættum að spara orkuna.

– – –

Sigrún Magnúsdóttir hér. Súgfirðingur á Akureyri. Háskólanemi og stefni á að verða grunnskólakennari. Á tvö stórkostleg eintök sem mér finnst magnað að hafa fætt í þennan heim. Ágústa Sóley kom í september 2009 og Skarphéðinn Ás í september 2011. Hressir og skemmtilegir krakkar. Á mér líka eiginmann. Hann er ágætis kall.

X