Loading

HVAR Á BARNIÐ AÐ BÚA?

Ég skildi nýverið eftir nokkurra ára sambúð við barnsföður minn. Saman eigum við einn son en fyrir á ég annan dreng með öðrum manni. Dáldið íslenskt og pínu flókið en samt varð það raunverulega ekki flókið fyrr en eftir skilnaðinn.

Ég deili forræði með báðum barnsfeðrum og í sameiningu höfum við alltaf lagt upp með að gera það sem er börnunum fyrir bestu. En eins auðvelt og það hljómar þá er það oft allt annað en einfalt og oft langar mig að anda í brúnan bréfpoka.

Þegar við skildum (ég og seinni barnsfaðir minn) var ákveðið að sonur okkar yrði viku og viku hjá okkur í senn. Það virtist eina lendingin en ég verð að viðurkenna að ég spyr mig oft hverra hagsmuna sé helst verið að gæta? Eru það minna? Barnsföðurs míns? Eða drengsins?

Sjálf gæti ég ekki hugsað mér að hann byggi alfarið hjá föður sínum og sjálfur hugsar hann slíkt hið sama. Því varð úr að drengurinn flakkar á milli og á nú tvö heimili þar sem hann deilir lífi sínu viku og viku í senn. Stundum spyr ég mig hvort það sé honum fyrir bestu? Að skjóta aldrei almennilega rótum, að vera án vina sinna í heila viku? Ég veit það hreinlega ekki og mér finnst þetta erfitt – gríðarlega erfitt.

Annað er síðan samskipti bræðranna. Einhvern vegin endaði það þannig að þeir eru í burtu nánast á sitt hvorum tímanum. Þó að eldri drengurinn sé meira hjá mér en sá yngri þá eru þeir aldrei hjá mér báðir um helgar og ég finn svo greinilega hvað þeir sakna hvors annars.

Ég veit svo sem ekki hvaða tilgangi þetta raus í mér á að þjóna en mikið óskapleg vildi ég að það væru til einfaldar reglur um hvernig haga eigi þessum málum og mig grunar líka að þegar öll viku/viku börnin eru komin á legg þá fáum við að heyra æði misjafnar sögur af árangri slíks fyrirkomulags.

Ein ráðvillt.

Af persónulegum ástæðum vill höfundur greinarinnar ekki koma fram undir nafni og við skiljum það mætavel. Vilt þú deila sögu þinni með lesendum eða fá góð ráð. Sendu okkur þá póst á thora@foreldrahandbokin.is

X