Loading

HVE LENGI Á BRJÓSTI?

Tímaritið Times hristi allhressilega upp í fólkinu með síðustu forsíðu sinni. Uppstillingin, ung og hugguleg móðir með stálpað barn sitt á brjósti. Kannski var þetta mynd sem var brjóstagjöf til heilla, kannski vann hún gegn henni.
Netheimar loguðu, sitt sýndist hverjum. Málið er nefnilega að við virðumst öll hafa skoðun á brjóstagjöf, þá helst brjóstagjöf annarra, alveg óháð því hversu vel að okkur við erum í „þeim fræðum”.

Einn athyglisverður punktur í umræðunni var, hvenær er tími til að ljúka brjóstagjöf?

Stutta svarið ætti að vera „kemur þér ekki við” en þá yrði þessi grein heldur stutt. Brjóstagjöf er nefnilega einkamál og hvort sem brjóstagjafatíminn er langur eða stuttur er það í höndum móður og barns hvenær nóg er komið.

Því miður er það svo að margar mæður finna þrýsting frá umhverfinu að hætta brjóstagjöf sem fyrst. Kannski löngu áður en þær sjálfar eða börnin þeirra hafa áhuga á því. Leiðinlegasta spurning í heimi er hvort barnið eigi að vera á brjósti fram að fermingu eins og tíminn milli 6 – 9 mánaða og 13 ára sé enginn.
Nóg um það. Spurningin er sem sagt, hvenær er rétti tíminn til að hætta brjóstagjöf til? Hvenær er algengast að börn hætti á brjósti?

Líkast til er ógjörningur að svara þessum vangaveltum því manneskjan er fyrir löngu flutt úr skóginum. Maðurinn hefur komið sér upp flóknu samfélagslegu kerfi með boðum og bönnum sem eru breytileg frá einni þjóð til annarrar. Flestar viðurkenndar ákvarðanir eru samfélagslegar og teknar út frá því hvernig við lifum og hvað hentar frekar en út frá því hvað náttúran ætlaði.

Opinberlega er mælt með brjóstagjöf í tvö ár eða lengur, alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með því að brjóstamjólk sé eina fæða ungabarns til sex mánaða aldurs og að brjóstamjólk sé gefin með næringarríkum mat til tveggja ára aldurs og lengur eða svo lengi sem móðir og barn kjósa. Á Íslandi er miðað við eitt ár eða svo lengi sem móðir og barn kjósa.

Brjóstamjólk heldur alltaf næringargildi sínu þrátt fyrir að hún breytist lítillega eftir því sem á líður. Móðurmjólkin rennur ekki út og verður ekki „næringarlaust” sull eins og stundum er haldið fram. Hún heldur einnig áfram að vera mikilvæg vörn gegn sjúkdómum og sýkingum. Á þessu hafa verið gerðar ótal rannsóknir sem flestallar sýna það sama.

Yfir heiminn litið er algengt að börn hætti á brjósti frá tveggja til fjögurra ára. Þó er erfitt að staðhæfa um almenna lengd brjóstagjafar því forsendurnar eru mjög misjafnar, sum börn eru til dæmis aldrei á brjósti.

Horft í opinberar tölur kemur í ljós að þriðjungur allra barna í sunnanverðri Afríku eru enn á brjósti um tveggja ára aldur. Í mörgum löndum Asíu eru börn á brjósti eftir tveggja ára aldur og í Indónesíu eru 63% barna enn á brjósti við tveggja ára aldur. Víða er hreinlega gert ráð fyrir því að börn séu á brjósti fram eftir aldri og enn annarsstaðar t.d. á Vesturlöndum er viðurkennt og viðbúið að hætta brjóstagjöf snemma, jafnvel á fyrstu mánuðunum. Til samanburðar við tölurnar hér að ofan má benda á að á Íslandi eru um 26% prósent barna enn á brjósti við eins árs aldur en í Noregi er um þrjátíu og fimm prósent barna á brjósti á sama aldri. Í Ástralíu eru um 20% tólf mánaða barna enn á brjósti. Tölurnar eru víða ennþá lægri eins og í Englandi.

Mannfræðingurinn Katherine Dettwyler hefur leitað svara við því hvenær náttúran ætli mannabörnum að hætta á brjósti. Til að fá einhverja niðurstöðu skoðaði hún hvenær önnur stór spendýr til dæmis prímatar vöndu ungviði sitt af brjósti. Hennar niðurstaða er að börn ættu að hætta á brjósti milli 2,5 til sjö ára. Hún skoðaði meðal annars meðgöngulengd, þyngd, vaxtarhraða og æviskeið dýrategunda. Sumar dýrategundir venja ungviði sitt af brjósti þegar fæðingarþyngdin hefur fjórfaldast. Strákar hafa flestir fjórfaldað fæðingarþyngd sína um 27 mánaða meðan stelpur eru nær 30 mánaða. Górillur og simpansar brjóstfæða afkvæmi sín sex sinnum meðgöngulengd sína sem gefur vísbendingu til að menn ættu að hafa börn sín á brjósti til fjögurra og hálfs árs. Bent var á að sumir apar venja ungana af þegar þeir hafa náð einum þriðja af fullri þyngd sé sú tala yfirfærð á menn ættu börn að hætta á brjósti milli fimm og sjö ára.

Börn sem eru á brjósti á öðru, þriðja og fjórða ári borða flest allan mat og drekka vel. Þau komast vel af án brjóstamjólkurinnar en dafna betur með henni. Næringarlegt mikilvægi brjóstamjólkurinnar minnkar en heldur sér og mikilvægi hennar sem huggun og öryggistæki eykst. Margar rannsóknir benda meðal annars til þess að barn sem er lengi á brjósti sé sjálfsöruggara en jafnaldri þess.

Fái börn tækifæri til þess að ráða því sjálf hvenær þau hætta er næsta víst að þau hætta.

Þau hætta kannski ekki þegar mamman eða amman vill að þau hætti. Að öllum líkindum verða þau á brjósti fram yfir fyrsta og jafnvel annan afmælisdaginn. Það heldur ekkert ólíklegt að þau verði enn á brjósti þegar þriggja ára afmælið er runnið upp. Börn eru mistilbúin til þess að hætta á brjósti, sum virðast vera til í að gefa mjólkina uppá bátinn um eins og hálfs árs meðan önnur ríghalda í sopann sinn fram til fjögurra, fimm ára aldurs.

Það verður ekki ofsagt að brjóstagjöf ætti að vera einkamál hverrar fjölskyldu, hverrar móður og barns. Það er ekki hægt að gefa upp ákveðið tímabil með hvenær sé best að hætta brjóstagjöf það ætti að vera sameiginleg ákvörðun móður og barns. Sé vilji fyrir langri brjóstagjöf hjá móður og barni mælir flest ef ekki allt með því. Ávinningurinn verður alltaf meiri eftir því sem á líður. Það er svo okkar hinna að hafa þroska og umburðarlyndi til að láta af gagnrýni og láta ákvörðunina vera alfarið í höndum fjölskyldunnar.

Börn hætta alltaf að lokum á brjósti. Fái þau að venja sig sjálf af brjósti eru allar líkur á að þau verði hætt fyrir sjö ára aldur með örfáum undantekningum. Einhverjir ættu að anda léttar við að vita að það eru stjarnfræðilega litlar líkur á að börn séu á brjósti við fermingu. Engum sögum fer af því að fullorðin manneskja sé enn á brjósti.

– – –

Soffía Bæringsdóttir er kennari og doula og burðarpokaspekúlant. Hún rekur vefverslunina www.hondihond.is sem selur bækur og burðarpoka. Hún hefur óbilandi áhuga á öllu sem tengist fæðingum og barnauppeldi.
Hægt er að hafa samband við Soffíu með tölvupósti á netfangið soffia@hondihond.is.

X