Loading

HVEITILAUS SÚKKULAÐIHNETUKAKA – UPPSKRIFT

Þessa dásemdaruppskrift er að finna í nýútkominni bók Berglindar Sigmarsdóttur, Heilsuréttir fjölskyldunnar. Kakan er guðdómlega bragðgóð og hveitilaus – hvort sem þið trúið því eða ekki. Við hvetjum ykkur til að prófa uppskriftina… og verða ykkur út um þessa snilldar bók.

Hveitilaus súkkulaðihnetukaka

Þessi kaka er góð eins og hún er og þarf ekkert að hafa með henni, æðisleg með góðum kaffibolla eða mjólk. En það má alveg bræða 70% súkkulaði og hella aðeins yfir hana og bjóða með henni þeyttan rjóma eða, eins og á myndinni, gríska jógúrt sem er blönduð með hunangi.

300 gr möndlur (án hýðis), malaðar í matvinnsluvél (eða möndlumjöl)
190 gr valhnetur
200 gr dökkt súkkulaði, 70% kakóinnihald
5 egg, aðskilin
250 gr mjúkt íslenskt smjör
1 tsk. vanilludropar
200 gr xylitol eða hrásykur

Aðferð:

1. Hitið ofninn í 150°C

2. Leggið bökunarpappír í ferkantað bakstursform eða eldfast mót (20 x 25 sm eða 23 x 23 sm að stærð). Ég smyr alltaf svolitlu smjöri aðeins yfir pappírinn.

3. Setjið möndlur, valhnetur og súkkulaði í matvinnsluvél og vinnið þar til fínmalað.

4. Hrærið mjúkt smjörið ásamt vanillu og hrásykri/xylitoli í hrærivél þar til létt. Bætið þá einni og einni eggjarauðu við þar til allar eru komnar út í. Bætið þá súkkulaðihnetublöndu út í skálina og hrærið saman.

5. Stífþeytið eggjahvítur í stórri skál. Takið svo súkkulaðihnetublönduna og blandið varlega saman við eggjahvíturnar í a.m.k. þremur hlutum. Best er að nota bökunarsleikju og taka vel af súkkulaðihnetublöndunni og blanda henni varlega saman við með stórum hringlaga hreyfingum til að halda loftinu í deiginu. Gerið þetta þar til öll súkkulaðihnetublandan er komin saman við eggjahvíturnar.

6. Hellið deiginu í formið og setjið í miðjan ofn í 1 klukkustund og 15 mínútur. Leyfið kökunni að kólna í forminu og setjið það svo inn í ísskáp í 4 klukkustundir, eða yfir nótt.

X