Loading

HVENÆR Á BARNIÐ AÐ FÁ FYRSTU FÖSTU FÆÐUNA?

Pistill eftir Ingibjörgu Baldursdóttir, hjúkrunarfræðing og IBCLC brjóstagjafaráðgjafa:

Hvenær á barnið að fá fyrstu föstu fæðuna?
Börn sem nærast eingöngu á brjósti og þyngjast eðlilega þurfa ekki að byrja að fá fasta fæðu fyrr en í fyrsta lagi við sex mánaða aldurinn og helst ekki fyrir sextán vikna aldur nema sérstakar ástæður liggi fyrir. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ( WHO ) mælir með brjóstamjólk sem einu næringu barnsins fyrstu sex mánuðina. Móðurmjólkin uppfyllir allar næringar og vökvaþarfir barnsins þennan tíma. Þegar byrjað er að gefa fasta fæðu er best að gefa fyrst brjóstið og bjóða barninu svo litla skammta af matarsmakkprufum. Þroski sá sem börn þurfa að hafa til að fara að smakka aðra fæðu en brjóstamjólkina er m.a. að barnið geti setið upprétt og sé byrjað að sýna því áhuga þegar aðrir matast. Þetta gerist yfirleitt á sjötta mánuði og ef að barnið hefur líka aukna þörf fyrir fleiri gjafir á brjóstinu, getur verið kominn tími til að prófa fyrstu fæðuna. Það er samt alltaf skynsamlegt að hugsa hvort þetta sé tímabundin þörf fyrir fleiri gjafir og gefa barninu brjóstið örar í nokkra daga.
Ástæðan fyrir því að miðað er við sex mánaða aldurinn en ekki einhvern annan er að meltingarkerfi smábarna nær nægilegum þroska til að geta melt fasta fæðu á þessum aldri. Att Meðfæddar járnbirgðir móðurmjólkurinnar minnka hratt eftir þennan aldur og er talið að það sé heppilegt að börn fari að fá járnríka fæðu á þessu tímabili. Sum brjóstabörn eru þó ekki yfir sig spennt fyrir matargjöfum fyrr en um eins árs aldurinn en þjálfast smám saman í að smakka annan mat en brjóstamjólkina, þó að það sé kannski ekki í miklum skömmtum til að byrja með. Maturinn er með mismunandi áferð og bragði og börn sem hafa fengið brjóstamjólk eru oft nýjungagjörn að smakka nýjar bragðtegundir vegna þess að þau eru vön að bragð brjóstamjólkurinnar sé síbreytilegt eftir því hvað mamma þeirra borðar. Það má segja að frá sex mánaða til eins árs sé föst fæða einskonar ábót við brjóstamjólkina en eftir eins árs aldurinn snýst það við.


Ingibjörg Baldursdóttir er hjúkrunarfræðingur og IBCLC brjóstagjafaráðgjafi.

Hún vinnur sjálfstætt með ráðgjöf og námskeið um brjóstagjöf og umönnun ungbarna. Jafnframt því er hún að ljúka meistaranámi í hjúkrun í HÍ með áherslu á sérhæfingu í brjóstagjöf. Ingibjörg heldur jafnframt út Facebook síðunni Brjóstagjöf – meira en bara næring þar sem hægt er að fá ráðgjöf frá Ingibjörgu um allt er viðkemur brjóstagjöf og umönnun ungbarna.

X