Loading

HVERNIG LÍTA MÖMMUR ÚT?

Þegar konur eignast fyrsta barnið sitt þá gerist eitthvað innra með þeim sem ég get ekki alveg lýst með orðum. Sjálfkrafa leggjum við allt í veðið til þess að tryggja það að barnið okkar fái ekkert nema það besta. Með þessari breytingu kemur líka breytt útlit. Allt í einu erum við hættar að pæla í því hvort við séum með ælu á öxlinni, slef í hárinu eða graut á peysunni (ég er nú reyndar svo slæm að ég gleymi stundum að loka brjóstarhaldaranum eftir gjöf).

Þegar ég varð ólétt lét ég mína bestu vinkonu og guðmóður dóttur minnar taka af mér loforð. Ég ætlaði sko aldrei að verða flíspeysu mamma og svarta húmornum mínum skyldi ég aldrei tapa.

Í dag geng ég ekki í flíspeysum og crocks en áður en ég vissi af var ég farin að eyða öllum morgnum á bleika sloppnum mínum. Í honum skottast ég fram úr á morgnanna með dóttur minni og svo áður en ég veit af er komið hádegi (ég lofa, ég hef aldrei farið í honum út úr húsi). Þetta segir mér ekki að ég sé orðin flíspeysu mamma heldur það að ég er að njóta þess í botn að vera í fæðingarorlofi. Hversu ljúft er það að fá að skottast um á náttsloppnum til hádegis með Hólmfríði og hafa það huggó?

Húmornum hef ég ekki tapað! Bleiki pardusinn kann sko enn að koma öllum úr ójafnvægi með sínum óviðeigandi brandörum.

Punkturinn er kannski óljós en það sem mig langar að koma til skila er það að þótt við séum sjúskaðar og illa til hafðar að þá erum við elskaðar skylirðislaust af börnunum okkar. Ég vil hugsa það þannig að sjúskuð mamma er mamma sem eyðir allri sinni orku í börnin sín frekar en sjálfan sig. Hún er þreytt og uppgefin mamma sem setur börnin í forgang.

Ég pæli oft í því þegar ég lít í spegil og finnst ég vera ómöguleg hvað lítil börn eru fordómalaus. Þrátt fyrir nokkru aukakíló og slæman hárdag að þá er átta mánaða stelpan mín ekkert að pæla í því hvernig mamma hennar lítur út í dag vegna þess að hún elskar mig en ekki útlitið mitt. Mér finnst það hálf skrítin tilhugsun að hugsa til þess að svona litlir einstaklingar sem eru í raun óskrifað blað geti kennt manni svona mikið án þess að gera sér grein fyrir því.

Gleymum samt ekki að hafa okkur til annað slagið vegna þess að það er nauðsynlegt andlegri heilsu. Ég veit bara það að þegar ég set upp spari Krillu að þá ósjálfrátt líður mér betur heldur en sloppa Krillu.

– – –

Kristín Greta er tvítugur Bolvíkingur, búsett á ísafirði og á dóttur fædda í nóvember 2011. Er að fara í nám í haust og stefnir á að verða ljósmóðir. Hefur rosalegan áhuga á börnum og uppeldi þeirra.

X