Loading

HVERNIG STENDUR BRJÓSTAGJÖF: BRJÓSTAGJAFAVIKAN HEFST 1. OKTÓBER

Alþjóðlega brjóstagjafavikan verður haldin hátíðleg á Íslandi dagana 1.- 7. október 2012. Þetta er í fimmta sinn sem vikan er haldin formlega á Íslandi. Til þess að minna á mikilvægi brjóstagjafar verða ýmsar uppákomur alla vikuna. Þemað í ár er „Brjóstagjöf á Íslandi – þá og nú“. Hugmyndin bak við þetta er að leggja áherslu á hversu miklum árangri við höfum náð í brjóstagjöf hvað varðar tíðni og algengi en líka að skoða hvað má betur fara til að við getum náð enn lengra!

Þegar sagan er skoðuð má sjá að um miðja 19.öld var ungbarnadauði næstum helmingi meiri hér á landi heldur en á hinum Norðurlöndunum en á síðari hluta 19. aldar og fram á tuttugustu öld breyttist þetta og varð ástandið hér líkt og á hinum Norðurlöndunum. Þar sem brjóstagjöf var sjaldgæf var barnadauði mjög algengur og sem dæmi má nefna að um miðja 19. öld dóu 300 af hverjum 1000 fæddum börnum á fyrsta ári í Rangárvallasýslu. Ungbarnadauði var mestur í þeim sýslum þar sem börn voru alin á óþynntri kúamjólk en minnstur þar sem brjóstagjöf var algengust. Aukin brjóstagjöf leiddi svo til snarminnkunar á ungbarnadauða og því má helst þakka aukinni fræðslu til foreldra og þar áttu ljósmæður stóran þátt. Í brjóstagjafavikunni mun dr. Ólöf Garðarsdóttir flytja okkur erindi um þetta stórmerkilega efni í íslenskri mannkynssögu.

En hvernig stöndum við í dag? Það er hátt hlutfall íslenskra mæðra sem að byrjar á brjóstagjöf eða nánast allar mæður. Þar stöndum við mun betur heldur en önnur lönd eins og Bretland og Bandaríkin þar sem margar mæður ákveða að reyna ekki einu sinni að hafa börnin sín á brjósti. Það eru margir þættir sem að hafa áhrif á þá ákvörðun m.a. þekking, auglýsingar þurrmjólkurframleiðenda og lengd fæðingarorlofs. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með brjóstamjólk sem einu fæðu barnsins í sex mánuði en samkvæmt nýjum tölum um tíðni brjóstagjafar voru samt eingöngu um 8% íslenskra mæðra að fylgja þeim ráðleggingum en 75% barnanna voru á brjósti á þeim aldri og þess vegna fjórðungur hættur. Það má alltaf betur gera og þess vegna er svo mikilvægt að halda kostum brjóstagjafar á lofti og það er eitt af markmiðum brjóstagjafavikunnar.

Vikan hefst með að bjóða mæðrum upp á myndatöku af brjóstagjöf en það er orðinn fastur liður í brjóstagjafavikunni og margar yndislegar brjóstagjafamyndir hafa orðið til sem er ómetanlegt að eiga.
Það er einnig orðinn árviss viðburður í brjóstagjafavikunni að efna til fjöldagjafar á kaffihúsi og er þetta táknrænt fyrir vilja mæðra fyrir því að brjóstagjöf sé sjálfsögð á öllum kaffihúsum og veitingastöðum og almennt á almannafæri. Auk þessa verða fleiri uppákomur og hvetjum við alla til að kynna sér fjölbreytta dagskrá vikunnar.


DAGSKRÁ 2012

Mánudagurinn 1. október
Ljósmyndataka í Stúdío Douglas, kl. 16-18. Skráning fer fram á studningskona@gmail.com Verð 2000kr.
Þriðjudagurinn 2. október
Stuðningskvennahittingur að Aflagranda 40, kl. 10-12. Félagsmiðstöðin Vesturreitir.
Miðvikudagurinn 3. október
Brjóstagjöf þá og nú, dr. Ólöf Garðarsdóttir heldur fyrirlestur, kl. 20.30 í Mími, Ofanleiti 2, sal 11
Föstudagurinn 5. október
Fjöldagjöf á Kaffitár í Borgartúni kl. 15.00
Ljósmyndasýning á verkum Önnu Ellenar Douglas verður alla Brjóstagjafavikuna í búðinni Móðir, kona, meyja að Laugavegi 86.

X