Loading

Í HVERNIG FORMI ERT ÞÚ?

Ég datt út í eymd og volæði. Gekk í gegnum tímabil þar sem allt var ómögulegt, allt gekk á afturfótunum, fötin passa ekki svo auðveldlega lengur, hárið hræðilegt, óplokkuð, loðin á fótunum með bjúg og exem og svo finnst mér ég alveg einstaklega ljót þessa dagana. Til þess að toppa eymdina horfir maður á sjónvarpsauglýsingar frá líkamsræktarstöðvunum þar sem spengmjóar og vel til hafðar skvísur lyfta lóðum og stunda jóga. Ólétta konan ég er eins og hvalur og þrái að finna blóðbragðið í munninum eftir góðan tíma í ræktinni, en það verður að bíða betri tíma. Ég þarf að mana mig til þess að gera einföldustu hluti og reyna að horfa á hlutina eins jákvæðum augum og mögulegt er. Sjálfsmyndin fauk út í veður og vind en núna loksins er ég að koma til baka hress sem fress. Hvaða rugl er það að reyna að sannfæra ófríska konu á þriðja þriðjungi að það sé einmitt tíminn til að blómstra?? Það hefur alveg farið fram hjá mér!!

Ég er búin að vera óvirk hér allan þennan tíma og núna er samviskubitið farið að naga mig að innan. Það var því ekkert annað í stöðunni en að láta vita af sér, ég er á lífi, reyndar alveg sprell lifandi og það er margt sem mig langar að segja frá og fræða ykkur um.
Ég er að undirbúa verkefni sem er reyndar ennþá á frumstigi, sem snýst um heilbrigða lífshætti án töfralausna. Nú fá sjálfsagt margir upp í kok og hugsa „enn eitt líkamsræktarátakið!!“ En ég get fullvissað ykkur um það að þetta verkefni, sem er sveipað þessari svakalegu dulúð er mjög spennandi og snýst alls ekki um kílóamissi eða í „kjólinn fyrir jólin“. Ég kem til með að upplýsa ykkur frekar á næstu vikum og jafnvel auglýsa eftir þátttakendum. Eina skilyrðið sem ég set er að viðkomandi sé tilbúinn til þess að vinna að verkefninu í nokkrar vikur og leggja sig alla/n fram við að ná árangri. Það tekur ekki nema nokkrar mínútur á dag og ávinningurinn er ómetanlegur!
Ástæðan fyrir þessu er þessi endalausi áróður um breytta tíma og betri líðan. Við getum keypt ógrinni af bókum með alls konar kúrum og lausnum til þess að yngja okkur, grenna og bæta. Alls staðar sjáum við auglýsingar um betra form og allt of margir láta plata sig út í eitthvað sem mjög erfitt er að standast í lengri tíma og gefast á endanum upp. En þá spyr ég eins og góð vinkona mín spurði mig í einum göngutúrnum: „Hvað er form? Okkar umræða fjallaði allt í einu um líkamlegt, lífeðlisfræðilegt og andlegt form, en allt of margir horfa á ákveðið form og vilja meina að það sé það eina rétta.

Eftir að fréttir bárust um að Íslendingar stefndu í það að verða feitasta þjóð í Evrópu hafa fordómar og áróður um það að heilsa okkar sé á niðurleið verið mjög áberandi. Í öllum þessum hamagangi hafa svo kallaðir heilsugúrúar tvíeflst og nú ætla bókstaflega allir að bjarga Íslandi! Forvarnir er það sem við þurfum að leggja áherslu á enda hæpið að senda alla Íslendinga sem eru yfir 30 í BMI í líkamsræktarátak til þess eins að lækka einhverjar tölur á blaði. Ég held að við stöndum ágætlega að forvarnarmálum án þess að ég geti fullyrt það, en þessu breytum við ekki á einum degi, hvað þá ári. Allar góðar breytingar taka sinn tíma og mikilvægt að við séum meðvituð um það. Það hefur marg sinnis sýnt sig að skyndilausnir og það að ana að slíku verkefni er sjaldnast besta leiðin að breyttum lífstíl og aðeins örfáir sem ná að tileinka sér nýja siði á nokkrum mánuðum.

Kannski er ég ein af þeim sem ætla að breyta heiminum en ég get svarið það að ég mun ekki gera það á einum degi. Mitt helsta markmið er að vekja ykkur til umhugsunar, fá ykkur til þess að skoða aðeins það sem er næst ykkur og hvar þið standið í lífinu. Skiptir það í alvöru svo miklu máli að komast í gallabuxur númer 28 eða eigum við að njóta lífsins heilsuhraust? Það er kannski við hæfi að enda þennan pistil sem fjallaði um allt og ekki neitt með spurningunni:

Eftir hverju sækist þú í lífinu?

– – –
Helga Kristín Sæbjörnsdóttir er 27 ára gömul og búsett í sveitasælunni við Laugarvatn. Hún hefur eitt ómældum tíma og áhuga í það að mennta sig og þar af leiðandi prófað margt spennandi sérstaklega í tenglsum við útivist og heilsu.
Hún útskrifaðist sem íþrótta- og heilsufræðingur vorið 2010 en átti þá fljótlega sitt fyrsta barn. Dóttir henn varð eins árs 26. desember 2011 og á hún samkvæmt sónar von á litlum bróður í lok mars 2012. Starf hennar sem heimavinnandi og sjálfstætt starfandi húsmóðir er því langt í frá lokið og eftir því sem hún best veit bara rétt að byrja.
Hún segist alltaf vera að læra eitthvað nýtt í tengslum við uppeldi barna, og hefur oftar en ekki rekið sig á það að fæst er hægt að lesa um í bók. Það er því að hennar mati nauðsynlegt að spinna söguna eftir persónuleika barnsins og það þykir henni sérstaklega áhugavert.
Ljósmynd: Lýður Geir Guðmundsson

X