Loading

Í SVARTNÆTTINU ER MYRKRIÐ MEST

Dagar og nætur sem einkennast af kvíða, verkefni sem virðast yfirdrifin og erfið eins og að fara með kaffibollann úr stofunni yfir í eldhús, tilfinning um að barnið íþyngi manni óbærilega og sé fyrir manni í lífinu er nær daglegt brauð hjá mér.

Það koma góðir dagar þar sem ég horfi á yngsta drenginn minn og fyllist ást og lotningu. Hugsa með mér að ég gæti ekki verið án hans. Þá finnst mér dagleg verkefni auðveld og nýt þess að eiga samskipti við eldri strákinn minn.

Síðan koma einnig slæmir dagar. Þá horfi ég á yngsta soninn og þoli ekki tilhugsunina um tilvist hans. Ég finn að það er rangt að hugsa svona, veit að það sé ekki heilbrigt, enda er ég að reyna að laga það. En það er meira en að segja það. Stundum finnst mér ég vera að drukkna, finnst ég troða marvaða út í hið endalausa og sé ekkert land fram undan.

Ég hef hingað til leitað til geðdeildar Landspítalans þar sem ég hitti sálfræðing úr FBM-teyminu en ég veit ekki hvort að það hafi gert mér gott eður ei. Samskipti milli sálfræðinga í teyminu hafa ekki skilað sér sem skildi, sá sem sér um mín mál hefur gleymt að setja inn lyfseðil fyrir lyfinu mínu og les sjaldan tölvupóst. Ég varð nánst uppiskroppa með lyf og einu sinni var ég búin að bóka tíma í gegnum tímabókunarkerfið en þegar ég mætti á staðinn eftir eins og hálfs tíma akstur til höfuðborgarinnar kom í ljós að bókunin hafði ekki skilað sér. Fyrir höfuðborgarferðina hafði ég einnig sent tölvupóst þess efnis að mér liði verulega illa og sæi ekkert ljós í lífinu. Ég hef ekki enn fengið svar við þeim tölvupósti og í dag eru liðnar þrjár vikur síðan.

Eftir að ég kom á spítalann og fékk að vita að tíminn var ekki inni í kerfinu ásamt því að sálfræðingurinn var veikur fannst mér eins og sú brú sem ég var búin að byggja frá landi og að mér úti á miðju vatninu hefði verið brotin. Svo mölbrotin að ég missti móðinn og kvíðinn og þunglyndið tóku öll völd. Mér fannst sem að ég skipti engu máli, sér í lagi þar sem að svo virtist að sálfræðingur minn væri alltaf að gleyma mér.

Ef það væri ekki fyrir manninn minn veit ég ekki hvar ég væri stödd. Ég lægi líklega inni í rúmi, skjálfandi af kvíða og ófær um að hugsa um börnin mín. En ég kvíði nær hverjum degi að eitthverju leyti, stundum svo mikið að ég skelf öll, get ekki hugsað og finnst ég eiga erfitt með andardrátt. Mig langar svo að líða vel, mig langar svo að líða eins og ég mér leið áður en ég varð ólétt, ég þrái einn auðveldan og kvíðalausan dag.

– – –

Ég heiti Hildur Lilja en er yfirleitt kölluð Hilja. Ég er 26 ára, gift og á tvo litla drengi. Ég er menntaður náttúrufræðikennari og ástríða mín tengist fyrst og fremst hinum ýmsu sviðum heimilisins og reyni ég að deila þeirri ástríðu á www.hiljainspires.blogspot.com. Hér hef ég hins vegar hugsað mér að deila með ykkur móðurhlutverki mínu.

X