Loading

HVAÐ ER FORMJÓLKURKVEISA?

Of mikil mjólkurframleiðsla – oft nefnd formjólkurkveisa

Móðir getur tímabundið framleitt meiri mjólk en barn hefur þörf á. Í flestum tilfellum er þá ekki komið jafnvægi á framleiðsluna en hjá sumum mæðrum heldur framleiðslan áfram að vera of mikil. Of mikil mjólkurframleiðsla getur verið til óþæginda bæði fyrir móður og barn. Barnið á í erfiðleikum með að ná og halda góðu taki á brjóstinu vegna mikils flæðis.
Brjóstin virðast alltaf yfirfull og oftast lekur mikið úr hinu brjóstinu við gjafir. Aukin hætta er á stífluðum mjólkurgöngum og brjóstastíflu.
Merki um offramleiðslu mjólkur hjá barni:

  • Gleypir í sig mjólkina.
  • Gubbar oft eftir gjafir.
  • Loft í maganum, kveisueinkenni.
  • Oft grænar froðukenndar hægðir.
  • Annaðhvort mjög mikil eða mjög lítil þyngdaraukning.

Þetta hefur áhrif á það hvernig barnið sýgur (brjóstagjafatæknina). Barnið getur verið órólegt við brjóstið í gjöfinni þar sem það berst við mikið mjólkurflæði sem streymir inn í munn þess. Sum börn forðast alveg að taka brjóstið vegna þessa. Önnur breyta sogtækninni og klemma fyrir geirvörtuna eða þrýsta tungunni á móti til að minnka flæðið. Þetta getur leitt til óþæginda fyrir móðurina, sársauka í gjöfinni og í versta falli sáramyndunar á geirvörtunni.

Þegar mjólkurframleiðslan er í fullkomnu jafnvægi fær barnið venjulega þau næringarefni sem það þarf á að halda í réttum hlutföllum. Eftir því sem líður á gjöfina verður mjólkin feitari og næringarríkari. Þegar offramleiðsla er á mjólk fyllist magi barnins áður en það drekkur feitu mjólkina sem það þarf nauðsynlega á að halda. Þessi börn eru oft með miklar kröftugar hægðir, hálfgerðar kúkasprengjur vegna þessa mikla mjólkurmagns sem að þau fá. Einnig verða þau fljótt svöng aftur eftir gjöfina.
Kröftugt losunarviðbragð getur tengst mikilli mjólkurframleiðslu. Móðurinni er oft ráðlagt að mjólka sig aðeins í byrjun gjafar. Mjólkin þrýstist þá ekki eins kröftuglega úr brjóstinu og barnið fær frekar feitu mjólkina. Þetta ráð getur hinsvegar gert ástandið verra þegar um mikla mjólkurframleiðslu er að ræða.

Það er mikilvægt að læra að stoppa allan leka (halda við geirvörtu í 10 sekúndur). Eftirfarandi aðferð hefur verið þróuð af brjóstagjafaráðgjöfum til að draga úr mjólkurframleiðslu („Full drainage and block feeding method“).

  1. Byrjað er að mjólka brjóstin eins mikið og hægt er með mjaltavél eða handmjólkun. Það er hægt að handmjólka brjóstin en bestur árangur næst með mjaltavél með tvöföldu setti (mjólkar bæði brjóstin í einu). Það bætist alltaf mjólk í brjóstin þannig að það er ekki hægt að tæma brjóstin alveg.
  2. Þegar búið er að mjólka brjóstin, er barnið lagt á brjóst. Það fær að drekka af báðum brjóstum eins og það vill.
    Barnið sofnar jafnvel á brjóstinu og er satt eftir að hafa drukkið af brjósti sem að sprautar ekki mjólk af fullum krafti.
  3. Það sem eftir er af deginum, drekkur barnið brjóstið eins og það vill. Gott er að deila deginum í þriggja tíma bil.

Nú á ekki að tæma með mjaltavél á undan. Fyrstu 3 tímana er sama brjóstið alltaf boðið í gjöf. Næstu 3 tíma er svo næsta brjóst gefið, sama hversu barnið drekkur oft. Ef 3 tímar nægja ekki til að hvíla hitt brjóstið má bæta við einni klukkustund þannig að sama brjóst sé boðið í 4 tíma. Í sumum tilfellum þarf kannski að auka enn tímann og dæmi eru um að gefa sama brjóst í hálfan dag til að draga úr framleiðslunni.
Hjá mörgum er nóg að „heiltæma“ brjóstið og nota ofangreinda aðferð í eitt skipti, meðan aðrar mæður þurfa að nota þessa aðferð endurtekið til að framleiðslan minnki eins og óskað er eftir.
Gjarnan má nota þá mjólk sem mjólkuð er seinna og geyma hana í frysti.

Það er líka hægt að nota þá aðferð að „klemma” saman brjóstið nálægt brúna svæðinu, til að minnka flæðið og sumum gengur vel að tempra flæðið með þeirri aðferð, gallinn getur verið að ná nógu góðu taki á réttum stað, sérstaklega ef brjóstið er fullt og þrútið. Þetta getur virkað öfugt ef að takið er ekki rétt og meiri mjólk sprautast upp í barnið. Það getur haft áhrif í hvaða stellingu er gefið, betra er að halla sér aftur í gjöfinni heldur en fram og jafnvel að liggja með barnið ofan á sér þegar það drekkur. Gjafirnar ganga oft betur á næturnar og liggjandi stelling getur verið betri en sitjandi vegna þess að þá getur umframmjólkin lekið niður (gott að hafa taubleiu undir).

Heimildir:

Veldhuizen-Staas. C.G. (2007) Overabundant milk supply: an alternative way to intervene by full drainage and block feeding. International Breastfeeding Journal, 2(11)
Að hluta til stuðst við upplýsingar af www.ammehjelpen.no

Ingibjörg Baldursdóttir hjúkrunarfræðingur og IBCLC brjóstagjafaráðgjafi.

Hún vinnur sjálfstætt með ráðgjöf og námskeið um brjóstagjöf og umönnun ungbarna. Jafnframt því er hún að ljúka meistaranámi í hjúkrun í HÍ með áherslu á sérhæfingu í brjóstagjöf. Ingibjörg heldur jafnframt út Facebook síðunni Brjóstagjöf – meira en bara næring þar sem hægt er að fá ráðgjöf frá Ingibjörgu um allt er viðkemur brjóstagjöf og umönnun ungbarna.

X