Loading

INNRÁS Í IKEA

„Sveitafólkið” skellti sér í höfuðborgarferð um liðna helgi.

Hagkaup, KFC og IKEA eru dæmi um valda áfangastaði sem heimsóttir voru ásamt flestu af því sem ekki er í boði í annars fullkomna heimabæ okkar.

Í heimsókn hjá ömmunni voru börnin dekruð og spillt sem er víst einn af kostum þess að fá að vera amma. Í augnablikshugsun (lesist: tveggja tíma hugsun á meðan á IKEA-ferðinni stóð) hefði hún hins vegar alveg mátt eiga þau.

Þeir viðskiptavinir IKEA þennan laugardag sem sáu ráðvilltu ljóskuna hlaupandi í allar áttir leitandi að tveimur vel virkum börnum eiga inni hjá mér afsökunarbeiðni vegna truflunar minnar á því sem átti líklega að vera róleg verslunarferð.

Það leið ekki ein mínúta sem ég hafði bæði börnin í augnsjá og á meðan annað þeirra dáðist að rúllustiganum og hugsaði mjög líklega um það að troða einhverjum af sínum alltof fiktandi fingrum inn í rauf í þrepunum þá var hitt að æfa sig í að labba upp og niður aðrar tröppur ásamt því að leita að pabba sínum sem var rólegur og stresslaus heima.

Lyftan var alveg jafn áhugaverð sem og fólkið sem kom út úr henni.Það varð að koma við allt, reyna að hrinda því og helst eiga það. Hefði ég verið vopnuð debetkorti hefði ég mjög líklega keypt mér frið með einhverju, já bara einhverju til þess að halda þessum elskum innan ákveðins radíus.

Ég hugsa að hugmyndin að barnageymslunni í IKEA hljóti að hafa komið frá nokkura barna móður sem hafi í vanhugsun sinni ákveðið að fara ein með börnin sín á jafn stórt svæði. Það jaðrar við klikkun og ber merki um alltof mikla bjartsýni að fara með börn á slíka staði. Eitt hefði sloppið en tvö eða fleiri er ávísun á keppni í því að týnast. Það hlaut að vera ástæða fyrir því að slíkar geymslur fyrirfinnast á jafn mörgum stöðum. Ég hins vegar hef aldrei lagt það í vana minn að stunda búðarráp af neinu viti svo ég hef ekki nýtt mér þessa þjónustu þar sem ég hef ekki verið mikið fyrir það að skella börnunum mínum í pössun hingað og þangað, þó reikna ég fastlega með því að gera það ef ég legg leið mína á sambærilegan stað með börnin með mér.

Betra er að hafa mömmuna sæmilega heila á geði og krakkana skoppandi á afmörkuðu svæði.

Til þess að gera langa sögu stutta þá lifði ég (og bæði börnin) af og komumst öll heil út úr IKEA. Af virðingu við annað fólk þá held ég að ég haldi mér og mínum þessum megin við göngin á næstunni.

Hér þar sem sjávarloftið leikur um okkur, Langisandurinn í bakgarðinum og ekkert IKEA.

– –

Íris Gefnardóttir, 28 ára mamma með meiru. Bý með manni, börnum og hundi á besta stað á Íslandi, Akranesi. Þrátt fyrir heimabæinn kann ég samt lítið í fótbolta en bæti það upp með fjörugu ímyndunarafli og hæfileikanum til þess tala mikið um misskemmtileg viðfangsefni með það að leiðarljósi að bæta í minn eigin viskubrunn. Daglegt líf og hugleiðingar má lesa um á www.gefnardottir.blogspot.com.

X