Loading

ÍSLENSK BARNALEIKFÖNG FRÁ MARÚN

Við tókum að sjálfsögðu HönnunarMars með trompi og skoðuðum það helsta sem í boði var. Í Epal rákumst við á þær Mörtu Pálsdóttur vöruhönnuð og Sigrúnu Agnesi Rúnarsdóttur myndlistarkonu en saman mynda þær hönnunartvíeykið Marún. Voru þær stöllum mættar með tvær afurðir, annars vegar barnaboli og samfellur með fallegu íslensku ljóði og mynd á og hins vegar Litlu Gunnu og Litla Jón sem að eru tréleikföng sem sýna splunkunýja hlið á þjóðbúningnum okkar og eru í senn bráðfalleg og einstaklega skemmtileg leikföng.
Leikföngin voru hönnuð með það að markmiði að stuðla að þroska barnsins með því að örva samhæfingu augna og handa. Með aldrinu sjá börnin hvernig hægt er að púsla leikföngunum saman á réttan hátt svo að úr verði strákur og stelpa, klædd íslenska þjóðbúningnum. Þau eru nefnd efitr algengustu nöfnum Íslendinga fyrr á árum, Gunna og Jón.
Aðspurðar sögðu þær stöllur að markmiðið væri að fara með leikföngin á alþjóðlegan markað með því að klæða leikföngin í aðra þjóðbúninga frá löndum víðsvegar um heim. Ekki er enn ljóst hvenær leikföngin koma á íslenskan markað en þeirra verður væntanlega beðið með mikilli eftirvæntingu enda um frábæra vöru að ræða. Þess má jafnframt geta að Litla Gunna og Litli Jón er bæði eiturefnalaus og umhverfisvæn.

Heimasíða Marún má nálgast HÉR. Auk þess eru þær á Facebook.

X