Loading

ÍSLENSK FERSKVARA HANDA BÖRNUM

Íslenskur barnamatur hefur verið í mikilli sókn og nú er svo komið að hægt er að kaupa tvær íslenskar tegundir. Þó er aðeins eitt fyrirtæki hérlendis sem býður upp á ferskan barnamat og það er Ávaxtabíllinn. Haukur Magnússon, framkvæmdastjóri Ávaxtabílsins, segir að það standi oft í vegi fyrir foreldrum að matinn frá þeim sé ekki að finna í krukkudeildinni eins og annar barnamatur. Þess í stað sé hann að finna inn í kæli og oft þurfi foreldrar að svipast um eftir honum. Ferskvara framleidd hérlendis hljóti að vera betri kostur en innflutt vara með geymsluþol í yfir ár en þó mættu viðtökur íslenskra foreldra vera betri.

Hvað varð til þess að þið ákváðuð að fara út í framleiðslu á barnamat?
Í sjálfu sér er ekkert eðlilegra en að framleiddur sé ferskur íslenskur barnamatur á Íslandi. Barnamaturinn okkar er framleiddur úr ávöxtum og grænmeti og við þekkjum það hráefni vel hjá Ávaxtabílnum eftir að hafa höndlað með þá ferskvöru í fjölda ára.
Við töldum einnig góður líkur, á því að nýsköpunarfyrirtæki á landsbyggðinni, sem skapaði störf og jákvæðni í samfélaginu, ætti uppá pallborðið hjá Íslendingum í kreppunni í keppni við innfluttan niðursoðinn barnamat.

Hvaða bragðtegund hefur verið vinsælust?
Banani/daðla, epli, sveskja og loks, gulrót/rófa/kartafla hafa verið vinsælust en nýju réttirnir, epli/pera, sveskja/epli og sæt kartafla/kartafla/spergilkál hafa fengið mjög góðar viðtökur

Hvernig er framleiðsluferlið?
Grænmeti er skolað, flysjað, brytjað niður og loks maukað. Fer svo í hæfilega hitameðhöndlun áður en maukið er sett í dósir. Sama á í raun við um ávextina líka en vinnslan á banönum, sveskjum og döðlum er þó sýnu einfaldari, þótt peran og eplið séu líkari grænmetinu hvað vinnsluferlið snertir. Allar dósir fara svo í hitameðhöndlun í lokin til að tryggja hreinleikan.

Hver er munurinn á ykkar mat og hefðbundnum innfluttum barnamat?
Munurinn er sá, að innflutti maturinn hefur verið hitameðhöndlaður við 100 gráður, en við það hitastig er gengið tryggilega frá því að ekkert sé á lífi í matnum sem geti hindrað hið langa geymsluþol sem maturinn hefur. Þetta gildir alveg eins um lífrænan barnamat, hann er jafn lífvana.
Barnamaturinn okkar er hitaður uppí um 72 gráður, samkvæmt ráðleggingum rannsóknarfyrirtækis, en við það hitastig drepast þær örverur sem skaðlegastar eru, en ensím, vítamím, steinefni og aðrar náttúrulegar tengingar haldast. Fyrir vikið hefur ferski íslenski barnamaturinn aðeins 3 vikna geymsluþol, en ég bara spyr hvað ástæða er til þess að barnamatur dugi í heilt ár? Þeir eru trúlega sárafáir foreldrarnir sem fara ekki í matvöruverslun einu sinni í viku og því lítið mál að kippa með sér ferskvöru.

Hvernig hafa viðtökurnar verið?

Viðtökurnar hafa bæði verið góðar og ekki nógu góðar – við höfum fengið mikið hrós fyrir frumkvæðið og góða vörur en salan hefur ekki fylgt eftir þeim góðu kveðjum. Þetta er auðvitað nýjung og það kostur tíma og fjármagn að koma nýjungum á markað. Ferski barnamaturinn er auk þess ekki staðsettur hjá hinum barnamatnum í verslunum, heldur í mjólkurkælum verslana, vegna þess að hann er ferskvara. Fólk þarf því að hafa fyrir því að finna okkur í verslunum, en ef farið er í Bónus, Krónuna eða Hagkaup, þá þarf aðeins eilitla þolinmæði og þá finnst sá ferski í mjólkurkælunum. Svo við horfum björt fram á veginn því við teljum að svona vörulína eigi fullt erindi á markaðinn og í maga frískra Íslendinga. Ekki síst vegna þess að tekist hefur að halda verðinu sambærilegu við hina erlendu risa. Þess má reyndar geta að við bjóðum maukið okkar í stóreiningum til sjúkrahúsa og elliheimila og þar hefur það fengið góðar móttökur. Það eru nefnilega ekki allir svo heppnir að geta tuggið harðfisk eins og ekkert sé.

Hvernig fer vöruþróunin fram?
Vörulínan byggðist í upphafi á þeim vörum sem vinsælastar eru í verslunum og einnig því sem vinsælast er að gera heima. Síðan höfum við verið í ágætis sambandi við okkar vini á Facebook og þeir haft skoðun á því hvað þeim fyndist vanta í vörulínuna. Þannig urðu 3 nýju tegundirnar til. Þetta sambland af vörum sem fást í verslunum og því vinsælasta sem fólk gerir heima, er grunnhugsunin á bakvið vörulínuna. Við reynum að höfða til beggja hópa, þeir sem eru vanir að kaupa niðursoðnar vörur í verslunum geta nú fengið þær ferskar og þeir sem maukuðu ferskt heima, geta stundum hvílt sig á heimavinnunni.

Hverjir eru það sem standa að baki Barnavagninum?
Ávaxtabíllinn stendur á bakvið Barnavagninn enda er vagninn skilgetið afkvæmi bílsins. Eignarhaldsfélag Suðurnesja á svo hlut í fyrirtækinu með okkur.

X