Loading

ÍSLENSK FYRIRBURAFÖT VÆNTANLEG

Væntanleg er á vordögum glæný íslensk barnafatalína – sem ætluð er fyrirburum. Um er að ræða fyrstu íslensku línu sinnar tegundar eftir því sem við komumst næst en merkið heitir Tamiko – sem er japanska og þýðir „fallegasta barnið.” Konan á bak við Tamiko heitir Berglind Baldursdóttir og er enginn nýgræðingur þegar kemur að hönnun barnafata því hún á einnig heiðurinn af Baby Grappling fatnaðinum. Fyrirburafötin koma eins og áður segir á markað í vor, bæði hér á landi sem og erlendis.

Aðspurð að því hver kveikjan að hönnuninni sé segist Berglind ekki eiga fyrirbura sjálf – ólíkt því sem flestir halda.

„Sonur minn fæddist 16 merkur á meðan fyrirburar geta vegið 600 grömm upp í 2,5 kg. Hjá mér er þetta meira hugsjónarvinna sem ég datt alveg óvart út í….eða örlög, hver veit? Áhuginn á Vökudeild kviknaði í kringum 2000, þá langaði mig að fara að vinna þar. En þar sem ég var ekki með heilbrigðismenntun var ekkert í boði. Fyrir nokkrum árum fékk ég svo áhuga á fyrirburafötum. Sá áhugi kviknaði út frá hugboði, en fólk sem ég þekki átti von á barni og ég fékk á tilfinninguna að barnið mundi fæðast fyrir tímann. Sú meðganga endaði því miður ekki vel og þetta sat alltaf í mér. Þegar ég fór svo að hanna barnaföt 2009, undir merkinu Baby Grappling, ætlaði ég mér að hafa samfellur og fleira í fyrirburastærðum, til að koma til móts við þennan hóp. Í byrjun árs 2010 fór ég að vinna betur í hugmyndinni. Ég var þá komin með góðan framleiðanda erlendis og góða reynslu af fataframleiðslu, en ég var deildarstjóri samþykktadeildar Latabæjar. Þegar ég settist við tölvuna til að skoða úrvalið af fyrirburafötum sá ég hvað það var mikill skortur, og það um allan heim, ekki bara á Íslandi. Það tók mig innan við viku að ákveða að stofna nýtt fatamerki og hanna sérstaka fyrirburafatalínu.”

Hvar verður hann fáanlegur?

„Ég er komin með jákvæð viðbrögð frá þremur verslunum sem ég hef talað við á höfuðborgarsvæðinu svo það á eftir að koma í ljós nákvæmlega hvar fötin verða til sölu. En þar sem meirihluti fyrirburafæðinga á Íslandi fer fram í Reykjavík þá mun sá hópur eiga auðveldan aðgang að fötunum. Erlendis verða fötin til sölu á Amazon og ég mun líka tala við verslanir. Amazon er stærsta netverslun í heimi og Baby Grappling vörurnar eru einmitt að fara í sölu þar í fyrsta sinn núna í lok nóvember.
Fyrirburafötin verða tilbúin til sölu í vor. Ég er nýbúin að fá mátunarsýnishorn en þau fer ég með upp á Vökudeild í mátun. Fyrirburaforeldrar og starfsfólkið á Vökudeild hefur verið yndislega hjálplegt í að svara spurningum og segja mér að ég sé á réttri leið með þetta,” segir Berglind.

„Svo langaði mig líka að segja ykkur að í nóvember er verið að vekja athygli á fyrirburafæðingum um allan heim og nú í fyrsta sinn verður 17. nóvember alþjóðlegur dagur tileinkaður fyrirburum, eða “World Prematurity Day”,” bætir Berglind við en þess má jafnframt geta að hún heldur úti Facebook-síðunni Tamiko-Preemie & NICU sem hægt er að komast inn á HÉR. Síðan er ætluð fyrirburaforeldrum og þar mun Berglind setja inn ýmsar upplýsingar sem nýtast foreldrum og aðstandendum, reynslusögur, myndir, fræðigreinar og fleira. Þess má geta að Baby Grappling vörurnar verða til sölu hjá Choke.is í Ármúla 2 en hægt er að finna heimasíðu Baby Grappling HÉR.

Ljósmynd: Á myndinni er Berglind ásamt Indiönu Karen, 6 mánaða.

X