Loading

ÍSLENSKA MAMMAN ÉG

Ég hef búið á austurströnd Ástralíu í nú 1,5 ár og er hér við mastersnám með fjölskylduna með mér. Ég hef fengið ótal mörg kommentin á það að ég sé móðir. Svona gáttuð komment með stórum augum og tilheyrandi hissa-tón. Ekki að það sé neitt ótrúlega merkilegt hér að eignast endilega börn, heldur frekar það að eiga tvö börn og vera móðir í mastersnámi. Samferðafólkið mitt í skólanum er upp til hópa ekki fjölskyldufólk og þá eru það frekar pabbarnir sem eru að læra frekar en mömmurnar.

Eins er normið hérna að mamman sé heima fyrstu árin eftir að börnin fæðast og leggi karríerinn eða annað á hilluna á meðan. Sem Íslendingi finnst mér það náttúrulega ótrúlega gamaldags! Hér eru allir rólóar alla daga fullir af mömmum með krílin sín, helst tvö fædd með sem minnstu millibili. Þær eru í mömmuklúbbum og hópa sig saman með börnin og grilla í görðunum (ooo svo ástralskt og æðislegt) og tjilla. Þetta eru Ástralíumömmurnar og ég mömmustúdentinn hef oft hitt þær á róló með minn yngsta, en hann fer bara tvisvar í viku á leikskólann og aðra daga en þá eigum við morgnana okkar saman. Mér finnast þessir morgnar ómetanlegir og ótrúleg forréttindi að fá að stjórna tíma sínum svona sem námsmaður og sér í lagi með heimavinnandi húsföður sér til stuðnings. Við leikum og ég er mamman sem fer niður rennibrautina og klifrar efst upp í klifurturninn, geri frussandi burrahljóð í bíló og hoppa á trampó. Maður verður nú að hafa gaman að þessu líka. Þær eru meira í að spjalla og ég finn að ég á kannski ekkert sérlega margt sameiginlegt með þeim nema það að vera móðir.

Í skólanum stend ég líka út úr eins og áður sagði. Skólafélagarnir geta illa skilið hvernig ég fari að þessu með tvö börn þegar þeir ströggla og bögglast við námið (rétt eins og ég sjálf!) barnlaus. Ég hef hins vegar bent þeim á að ég sofi ekki frameftir, hef ekki tíma fyrir ræktina, djamma ekki öllum stundum, eigi ekki fyrir því að ferðast (og „eyða“ tíma í það!) og bendi þeim svo líka á að börnin eigi jú líka pabba. Hissa svipurinn verður þá bara stærri og hvað þá þegar ég segi þeim að normið heima í okkar kynslóð sé í raun að pabbarnir séu bara nánast jafnmiklar mömmur og þeir eru pabbar. Geta allt og gera allt og vilja það og njóta þess.

Mér finnst alltaf jafn kúl og gaman að ræða þetta. En ennþá skemmtilegra finnst mér þegar barnlausu samstúdentar mínir, sem reyndar eru ekki Ástralir og eilítið yngri en ég, finna það hjá sér að þurfa að dásama mig fyrir það hversu glæsilega ég lít út, hvað ég sé töff og kúl, og þurfa sérstaklega að ræða það að ég geti virkilega hlaupið 10 kílómetra um helgar og að ég mæti á skóladjömm, eins og maður sé hreinlega önnur tegund af manneskju þar sem maður sé móðir. Annað eins respekt hef ég varla fundið! Og ég auðvitað útskýri stolt fyrir öllum sem vilja heyra að svona, akkúrat svona, séu íslenskar konur. Og mæður. Og ömmur. Og pabbar. Að allar vinkonur mínar séu nákvæmlega eins og ég! Ok, ég tek undir það: töffaramömmur! Við njótum lífsins í skóla eða vinnu sem mæður þótt orkan eftir daginn mætti oft vera meiri og dagurinn lengri. Við vinnum, lærum og ferðumst heimshorna á milli með börnin okkar og finnst það svo sem ekkert mál. Við gerum það sem gera þarf hvort sem það er að vinna lengi eða læra mikið og knúsum börnin okkar vel og lengi á meðan.

Þetta erum við, langaði bara til að segja ykkur það! Ekki endilega perfekt heimavinnandi með heimabakað í kaffinu og ofurskipulögð nestisbox fyrir daginn, heldur harðduglegar og kúl, frjálsar og flottar.

– –

Erla Sigurlaug Sigurðardóttir er 36 ára tveggja barna móðir sem langar í þriðja. Hún hefur búið með fjölskyldunni síðastliðið 1,5 ár í Ástralíu þar sem hún stundaði mastersnám í alþjóðlegum friðarfræðum en er á heimleið í sumar. Erlu finnst skemmtilegast að gera hversdagslega hluti að öðruvísi og spennandi athöfn með krökkunum og að ræða málin með þeim þar sem slíkt spjall, þótt stutt sé, birtar alltaf upp daginn.

X