Loading

JÁ TAKK ÓLÁTAGARÐUR!

Fagurkerar Íslands geta formlega hætt að örvænta yfir tómlegum og hugmyndasnauðum barnaherbergjum því nýja uppáhaldsbúðin okkar Ólátagarður (sem jafnframt er vinnustofa og allskonarannaðskemmtilegt) er farið að bjóða upp á námskeið í barnaherbergjum.

Og hvað þýðir það? kunna margir að spyrja og það er ekkert skrítið. Á námskeiðinu, sem er er ein kvöldstund af eintómum skemmtilegheitum, er barnaherbergið stúderað, ákveðnar litapallettur, hvað þú vilt hafa inn í því, hvernig þú getur nýtt það sem þú átt, blásið lífi í misfagra hluti og þar fram eftir götunum – allt undir handleiðslu snillinganna í Ólátagarði sem eru að öðrum ólöstuðum margfaldir Íslandsmeistarar í smartheitum. Þú þarft sem sagt ekkert að kaupa – bara að spá og spöglera!

Í Ólátagarði sjálfum er síðan hægt að föndra inn í herbergið og fá endalausar hugmyndir hvernig hægt er að gera þreytta hluti skemmtilega. Fyrir þá sem hafa aldrei mætt í Ólátagarð (sem er á Snorrabraut) er ráðlagt að kíkja þangað sem fyrst til að sjá hvað er í boði – þá sérstaklega föndursvæðið þar sem hægt er að mæta með börnin og föndra eitthvað fallegt.

Opið er allan daginn þannig að foreldrar í fæðingarorlofi geta skotist við og dundað við eitthvað skemmtilegt og ekki má gleyma að því að Vala og Berglind taka vel á móti öllum enda einstakar áhugamanneskjur um börn og barnaherbergi. Ekki þarf heldur að hafa áhyggjur af kostnaðinum því að öllu verði er stillt í hóf.

Sem sagt – þó að þetta hljómi eins og hreinasti auglýsingapóstur þá er það bara af einskærri aðdáun og ánægju með framtakið. Við þurfum á svona sniðugum búðum/verkstæðum eins og Ólátagarði að halda og því skorum við á alla að kíkja þangað sem fyrst. Húrra fyrir Ólátagarði!

X