Loading

Játningar pelamömmu

Brjóstagjöf hentar ekki öllum og það var þannig hjá okkur mæðgum á sínum tíma. Þegar ég hugsa til baka þá var þetta vandamál frá fyrsta degi. Við þurftum að vera á spítalanum í þrjá daga eftir fæðingu af því að litla krílið fékk guluna því hún bara nennti ekki að borða. Það gekk brösuglega að fá hana til að sýna brjóstinu einhvern áhuga þannig að eina nóttina vöknuðum við hjónin á tveggja tíma fresti til að gefa henni brjóstamjólk með sprautu. Upp á sprautuna var þrætt langt rör sem var fest við puttann á öðru hvoru okkar og hún látin totta puttann til að fá mjólk svo að hún lærði að þannig kæmi mjólk. Þetta var löng og erfið nótt. Ég þurfti að vakna hálftíma á undann manninum mínum til þess að pumpa mig, svo vakti ég hann og hann gaf henni á meðan ég gerði tilbúið fyrir næsta skipti. Ég náði yfirleitt ekki að sofa mikið á milli pumpu og gjafa. Mest svona hálftíma því mér tókst aldrei að sofna um leið og ég lagðist á koddann. Ég hef aldrei verið jafn þreytt og þessa nótt. Þetta var mjög furðuleg upplifun. Ég sat hálfsofandi með brjóstapumpu hangandi á mér hálfa nóttina á meðan feðginin sváfu. En allt erfiðið um nóttina bar árangur þar sem litla daman braggaðist og við fengum loksins að fara heim.

En brjósta veseninu lauk var ekki lokið. Eftir að heim var komið fengum við fyrstu heimsóknina frá heimaþjónustunni og þar fór ég yfir allt sem gengið hafði á í brjóstgjöfinni á spítalanum og fékk ráðleggingar frá ljósmóðurinn. Hún sýndi mér hinar og þessar stellingar sem gætu hentað betur. Hún lumaði á allskonar fróðleik m.a. að brjóstin væru oft bjúguð og þrútin svona fyrst um sinn og ég þyrfti að kreista lauslega saman geirvörturnar aðeins fyrst og móta þær svo að þær kæmust betur upp í barnið. Þetta hafði enginn á spítalanum minnst á en þetta hjálpaði helling!

Það var svo komið að fyrstu nóttinni heima og þar sem við mæðgur vorum nú enn svolitlir klaufar í þessu brjóstastússi þá gat ég ekki alveg vippað henni bara beint upp í rúm og skutlað upp í hana brjósti liggjandi þegar sú stutta vaknaði svöng um nóttina. Ég ákvað að fara fram í stofu því ég var svona öruggust í þessari „tækni” sitjandi með hana í sófanum og þá hófst fjörið. Þessa fyrstu nótt tók það okkur mæðgur klukkutíma að finna út úr þessu. Sem sagt að koma henni almennilega á þannig að hún fengi eitthvað og væri ekki alltaf að missa þetta út úr sér.

Daginn eftir kemur svo ljósan og fær alla sólarsöguna og fylgist með okkur í þessum aðgerðum okkar og ákveður að lána mér mexíkanahatt og vá það var algjör bjargvættur! Eftir að ég fór að nota hann þá fór allt að ganga mikið betur. Við höfðum hann í láni í nokkra daga og svo prófuðum við okkur áfram án hans og það gekk bara glimmrandi vel líka svo við þurftum ekki hans aðstoð lengur.

Allt var loksins farið að ganga nokkuð vel fyrir sig og heimaþjónustan var á enda og við vorum bjartsýn á framhaldið.

Brjóstagjöfin gekk ágætlega í einhvern tíma en sú litla var ansi dugleg við að sofna bara alltaf án þess að ná að „klára” og það þýddi ekkert að reyna að kitla hana eða eitthvað til að halda henni við efnið því litli letinginn sofnaði bara samt! Hún hætti líka mjög fljótt að nenna að vakna á nóttunni til að súpa hún var örugglega bara farin að sofa alveg heila nótt þegar hún var um tíu daga gömul sem er nú frekar óvanalegt. Ég held að þetta hafi minnkað framleiðsluna hjá mér en ég var ekkert að hugsa út í það. Mér fannst bara mjög þægilegt að eiga barn sem svaf á nóttunni en ég hefði líklega átt að vekja hana og gefa henni svolítinn sopa til að halda framleiðslunni í gangi. Það var líka farið að vera eins og það væri ekki nóg flæði og hún var oft mjög óþolinmóð og nennti oft ekki að sjúga nógu lengi þannig að kæmi almennilegt flæði en með þrjósku gekk það nú yfrirleitt á endanum. En svo kom að því að hún þurfti að fá ábót fyrir nóttina og þá fékk hún smá þurrmjólk í pela þegar hún var búin að drekka hjá mér.

Eftir að við vorum búin að finna ágætis jafnvægi í ábótagjöfum gekk allt bara nokkuð vel í smá tíma. En svo fór þetta að verða basl aftur. Ég á mjög óþolinmóða litla dömu og hún hafði bara alls ekki þolinmæði í að sjúga nógu lengi þannig að kæmi almennilegt flæði. Ef það kom ekki hellingur um leið þá varð hún bara reið og þetta var oftar en ekki fari að enda í slagsmálum hjá okkur þar sem ég var að reyna koma henni aftur á brjóstið og hún lét öllum illum látum.

Hún var rétt að verða þriggja mánaða þegar þetta var að gerast og á þessum tímapunkti ákvað ég bara að nú væri komið nóg. Það segja flestir að brjóstagjöf sé svo notaleg og eigi að vera falleg og hugguleg stund þar sem móðir og barn mynda góð og sterk tengsl. Brjóstagjöfin var allavega ekki þessi fallega notalega stund sem svo margar lýsa hjá okkur mæðgum og mér fanst algjör óþarfi að vera pína okkur báðar áfram í einhverju sem var augljóslega ekki að virka! Fyrir okkur var þetta streituvaldandi og óþægilegt að vera kannski einhverstaðar annarstaðar en heima að reyna gefa barninu sem bara orgar og streitist á móti eins og ég væri að pína hana þegar ég var bara að reyna koma ofan í hana mat.

Ég skammaðist mín aldrei fyrir að hætta með hana svona snemma. Ég útskýrði bara fyrir fólki þegar það var að spyrja að þetta hefði bara ekki hentað fyrir okkur og nú liði okkur báðum mikið betur.

Mér finnst mjög leiðinlegt hvað það er oft litið niður á pelamömmur og hvernig sumar upplifa mikla pressu við að reyna hafa barnið eins lengi og hægt er á brjósti. Sumar eru kannski að pína sig áfram í einhverju sem er bara alls ekki að ganga. Ég hefði örugglega reynt að þrjóskast eitthvað áfram með mína en það hefði gert hvorugri okkar gott þar sem þessi slagsmál fóru illa í okkur báðar. Mér leið illa að vera að „neyða” brjóstinu upp í barnið og hún var reið því hún bara skildi ekki hvað ég var alltaf að troða þessu brjósti upp í hana sem gaf svo tíkarlega lítinn sopa hún vildi bara almennilegt flæði og það helst í gær!

Það er auðvitað alveg pínu meira vesen að vera pelamamma. Það þarf alltaf að passa að muna vera með heitt vatn og mjólkurduft og passa að mjólkin sé hvorki of heit né of köld, þrífa pelana, finna þurrmjólk sem hentar þínu barni og stundum þarf að gefa malt út í mjólkina því það getur oft verið kúkavesen á þessari þurrmjólk.

Þegar þú ert með barnið á brjósti þá ertu bara alltaf með allt “reddy to serve” – allt við rétt hitastig og þarft ekki allt þetta aukadót sem er voða næs. En það kemst fljótt upp í vana að ferðast með allt þetta nesti maður er hvort sem er yfirleitt alltaf með skiptitösku fulla af alskonar aukahlutum þegar þau eru svona lítil þannig það munar nú ekkert mikið um að bæta nokkrum hlutum í viðbót. Það eru líka alveg ákveðin þægindi sem fylgja því að vera pelamamma; pabbinn getur líka gefið barninu, það er auðveldara ef barnið þarf að fara í pössun, þarf ekkert að pumpa og safna í frysti bara útskýra hvernig á að blanda og þú veist nákvæmlega hvað barnið þitt er að drekka mikið sem getur verið mjög þægilegt. Svo eru eflaust margir fleiri kostir en þetta eru svona helstu kostirnir sem ég man eftir í augnablikinu.

En pointið er að vera ekki að pína sig áfram í einhverju sem bara er ekki að virka. Ef þetta er að valda streitu milli barns og móður þá er þetta ekki málið. Þetta á ekki að vera eitthvað sem veldur óþægindum eða kvíða. Þetta hentar ekki öllum og það er bara allt í lagi. Það er erfitt en við eigum ekki að vera hugsa of mikið um hvað öðrum finnst þetta er þitt barn – punktur!

Annars er ég mjög forvitin að vita hvernig þetta verður þegar litli bumbukúturinn minn mætir í lok mars. Ætli hann verði eins og systir sín eða mun hann búa yfir meiri þolinmæði í þessum málum? Það er engin leið að vita ég verð víst bara að bíða og sjá hvað verður þau geta víst verið misjöfn þessi börn.

Anna Sigrún

– – –

Ég heiti Anna Sigrún og er 28 ára. Ég á eina dóttur sem heitir Freyja og er fædd þann 1. maí 2015 og síðan er lítill drengur væntanlegur í heiminn í lok mars. Ég hef verið gift í þrjú ár en við höfum verið saman síðan 2009.

Ég bý og vinn í Breiðholti, er að vinna á leikskóla í augnablikinu en það styttist í að ég fari í veikindaleyfi á síðustu vikum meðgöngunnar og við tekur svo fæðingarorlof. Helstu áhugamál mín eru barnauppeldi og barnamenning, förðun, ljósmyndun, DIY stúss og falleg hönnun. Ég hef MJÖG gaman af því að versla og skoða allskonar sniðugt á netinu og svo er ég með skipulagsdellu! Ég er mjög dugleg að búa til allskonar lista og skipulag yfir hvernig er best að skipuleggja hitt og þetta…en ég er ekki alveg jafn góð í að fylgja þeim, sérstaklega innan veggja heimilisins.

– – –

Langar þig að verða bloggari?
Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt?
Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Við ætlum að endurvekja okkar stórskemmtilega MÖMMUBLOGG og erum að leita að vel skrifandi og áhugaverðum foreldrum til að deila sögum úr lífi sínu.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora(hjá)foreldrahandbokin.is

X