Loading

JÓLAHÁTÍÐ EÐA EKKI

Undanfarin ár, á þessum árstíma hef ég verið mjög hugsi og spurt mig spurninga eins og: „hvað er fjölskylda?; hvernig kemst ég í jólaskap?” Ástæðan er að sjálf er ég einstæð móðir sem á þrjár yndislegar dætur og lít svo á að þær séu mín nánasta fjölskylda.

Desember er sá tími sem ég sakna þess allra mest, í öllum þessum undirbúningi og hátíðargleði, að eiga ekki maka. Ég verð bara að viðurkenna, eins yndislegar og dætur mínar eru, eins lánsöm og ég er að eiga heilbrigðar og flottar stelpur, heimili, nóg að bíta og brenna og við góða heilsu, þá finnst mér alltaf vanta eitthvað á þessum árstíma.

Ég veit ekki alveg hvers vegna mér líður svona, en held að það sé einfaldlega sú staðreynd að fjölskylduímyndin, þ.e. tveir fullorðnir einstaklingar sem eiga saman börn, sé það sem er fjölskylda. Sjálf þekki ég bara þá mynd, alveg frá því ég var barn og svo ung komin með fjölskyldu. Þessir einstaklingar njóta jólahátíðarinnar saman, eru saman við kertaljós, spil, konfekt og kósíheit, svo ég tali ekki um alla hamingjuna og gleðina sem ríkir á heimilinu.
Þó var það þannig að sjálf sá ég nánast ein um jólaundirbúninginn. Samt var það öðruvísi og ég fékk þá a.m.k. álit makans á hvað ætti að gefa börnunum í jólagjöf, hvað ætti að baka fyrir jólin og fleira. Ég fékk aðstoð við að setja upp jólaskrautið, eða að minnsta kosti hvatningu til að gera það, en núna finn ég varla fyrir löngun til að skreyta.

Desember er eini mánuður ársins sem ég virkilega sakna þess að eiga ekki maka. Það vantar eitthvað í jólaundirbúninginn og ég velti því fyrir mér hvort þetta sé svipuð upplifun og hjá þeim sem hafa misst ástvin. Ég er svo lánsöm að ég á hér alla mína nánustu ættingja og þekki það því ekki.
Dætur mínar eru yndislegar og verða alltaf yndislegri og yndislegri með hverju árinu. En þrátt fyrir það á ég frekar erfitt á þessum árstíma eftir að ég varð ein. Ég skammast mín fyrir þessar tilfinningar og finnst ég vera virkilega ósanngjörn að líða svona. Ég hef ekki einu sinni getað rætt þetta, því skömmin er svo mikil.

Ég sakna jólaundirbúningsins þar sem spennan var í hámarki, markmiðið að skreyta sem mest og búa í fallegu jólahúsi, njóta þess að undirbúa jólasteikina og ákveða hver eftirrétturinn ætti að vera. Ég bjó líka alltaf til jólakonfekt og sörur, það voru jólin. Núna hef ég mig ekki í að gera þetta og veit ekki hvað veldur þessu.

Ég geri mér þó grein fyrir því að þetta er ekki depurð, heldur einhver söknuður á því sem ég átti og á ekki lengur, eins og einhvers konar sorgarferli.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skrifa niður þessar hugleiðingar mínar, er sú skömm sem ég hef upplifað og ekki getað rætt við neinn. Mér finnst ég vera að svíkja dætur mínar með því að hlakka ekkert til jólanna. Ég reyni að halda gleðinni fyrir dætur mínar og geri mitt besta, en löngunin er ansi lítil. Jólahátíðin er hátíð barnanna og það er eina sem ég óska mér.

Ég veit að ég er ekki ein í þessari stöðu, en ég held samt að það sé staðreynd að fólk er ekki mikið að tala um þessa birtingarmynd af sorgarferli eftir aðskilnað.

– – –

Elísabet Sóley Stefánsdóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stundar nú MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Elísabet hefur unnið mikið með börnum, á leikskóla, við daggæslu og við forfallakennslu. Hún hefur einnig haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Samhliða meistaranámi starfar Elísabet sem ráðgjafi í eineltismálum hjá Liðsmönnum Jerico. Hún heldur fræðslufyrirlestra um einelti í skólum og á stofnunum og vinnur afleysingarstörf á meðferðarheimili fyrir unglinga. Elísabet á þrjár dætur og sú yngsta er með dæmigerða einhverfu. Hægt er að hafa samband við Elísabetu í tölvupósti: elistef@simnet.is

X