Loading

JÓLASVEINARNIR GÓÐU

Pistill eftir Soffíu Bæringsdóttur, kennara, doulu og burðarpokaspekúlant.

Þá eru bræðurnir komnir á kreik. Ég á í fullu fangi með að útskýra allt þetta jólasveinavesen fyrir dóttur minni fjögurra ára.

Þetta er í fyrsta sinn sem þeir koma allir við hjá okkur. Í fyrra komu síðustu fimm, árið þar áður komu tveir. Yngri systir hennar, ársgömul, fær í skóinn í ár þó jóli hafi ekki heimsótt þá eldri fyrstu tvö jólin.

Stelpan mín skilur ekki af hverju jólasveinarnir eru að þvælast í Reykjavík í desember, auðvitað er mikið meira vit í því að þeir komi á sumrin þegar það er hlýtt. Hún skilur heldur ekki af hverju þeir eiga stóran og ljótan kött sem vill ekki láta klappa sér og því síður af hverju mamma þeirra er ekki fyrir lifandis löngu orðin grænmetisæta. Hún áttar sig ekki alveg á því hvað þeir gera milli nýárs og jóla og hefur miklar áhyggjur af mataræðinu hjá þeim.

Hún spáði líka mikið í það hvernig þeir kæmust upp á aðra hæð og hvernig þeir gátu fyllt í skóinn hennar. Það er erfitt að svara spurulu barni og stundum endum við í „svona var þetta í gamla daga.”

Stundum skil ég ekki sjálf af hverju við erum með hugann við jólasveinana en það er önnur saga.

Henni finnst spennandi en fáránlegt að jólasveinarnir hlaupi um allan bæ og gefi í skóinn. Hver fær fyrstur í skóinn? Fá allir vinir hennar í skóinn? Hver fær síðastur? Hvað eru þeir lengi? Fær frænkan í Svíþjóð líka í skóinn? Hvað gefa þeir í skóinn? Og áður en hún lokar augunum og sofnar veltir hún því fyrir sér hvað hún fær í skóinn.

Margar spurningar og lítill tími.

Jólasveinarnir á okkar heimili eru fínustu gaurar, koma jólasveinanna er ekki tengd við hegðun hér á bæ. Við ákváðum bara að bjóða þeim að koma og halda áfram að gera það sem við gerum alla jafna.

Hér gildir þó sú regla að það má ekki biðja jólasveininn um neitt sérstakt, við erum bara ánægð með það sem hann kemur með. ,,Hún er lánsöm” sagði stóran um yngri systur sína þegar hún rétti henni mandarínuna frá Stekkjastaur.

Það er erfitt að halda aftur af bræðrunum í gjafaæðinu, innilega auðvelt að fylla skóinn af þrettán skemmtilegum gjöfum en mér finnst einhvern veginn vera ábyrgðarhluti að gefa hófstilltar gjafir. Það er á okkar ábyrgð að kenna börnunum að umgangast jólin af virðingu og halda væntingunum raunhæfum.

Auðvitað er freistandi að fylla skóinn af hlutum sem eru dýrir og spennandi en kostnaðurinn er fljótur upp, aðfangadagur er á næsta leyti og við viljum reyna að halda í þá hefð að jólin séu hátíð ljóssins en ekki gjafanna.

Því fórum við í kringum regluna með að það er bannað að biðja jólasveinana um eitthvað í skóinn og töluðum við mömmu þeirra. Ef hún gæti komið þessum skilaboðum áleiðis myndum við skilja eftir bjúguögn fyrir hana.

Við báðum um mandarínur af og til, helst því það er svo góð lykt af þeim og þegar foreldrarnir voru ungir fengu þeir stöku sinnum mandarínu. Hér er gott að halda í hefðina og þær eru líka svo ljúffengar. Af sömu ástæðu báðum við um gotterí. Það er fátt skemmtilegra en að byrja daginn á sjaldfengnu gúmmelaði. Svo nefndum við eitthvað smotteríi sem gleður augað, stelpurnar og foreldrana. Passlega stórt, passlega lítið.

Í mínum huga eru jólasveinarnir tilbreyting, stef við hátíð og skemmtilegur arfur liðinna tíma. Mér finnst jólasveinarnir eiga að fá að vera sjálfstæðir, skrýtnir og frjálsir en ekki undir oki kaupvæðingarinnar.

Ég sagði það líka við mömmu þeirra að loks þegar hún er hætt að éta börn er óþarfi að synir hennar éti upp launin mín.

Soffía Bæringsdóttir er kennari og doula og burðarpokaspekúlant. Hún rekur vefverslunina www.hondihond.is sem selur bækur og burðarpoka. Hún hefur óbilandi áhuga á öllu sem tengist fæðingum og barnauppeldi.

Hægt er að hafa samband við Soffíu með tölvupósti á netfangið soffia@hondihond.is.

X