Loading

KÆRU PELAMÆÐUR – MIG VANTAR HJÁLP

Ég hefði aldrei trúað því hvað eins saklaus og einföld aðgerð eins og klipping á tunguhafti hjá nýbura getur breytt miklu varðandi brjóstagjöf fyrr en ég upplifði það sjálf. Drengurinn lét varla í sér heyra, kannski meira bara vegna þess að það var verið að troða upp í hann fingrum, ísköldum áhöldum og vekja af værum blundi, og um leið og komið var í mömmufang var dramatíkin búin. Ég lagði hann á brjóst nokkrum mínútum seinna og fann strax mun. Hann náði betra taki á geirvörtunni og vafði tungunni betur um brjóstið. Þess má þó geta að tunguhaftið hjá honum var ekki mjög áberandi né mikið en breytti heilmiklu varðandi okkar brjóstagjöf.

Ég vildi óska þess að þetta hefði verið svarið að mínum brjóstagjafavandræðum og var virkilega farin að hlakka til að eiga farsæla brjóstagjöf framundan. En svo einfalt er það nú ekki. Ég er enn að berjast við óbærilegan sársauka í hverri gjöf þó svo að sárin séu lítil sem engin og nú blæðir ekki einu sinni lengur. Alltaf þarf ég að bíta í koddann minn þegar hann byrjar að sjúga og minna sjálfa mig á að draga andann, slaka á í líkamanum og láta axlirnar síga þegar fer að líða á gjöfina. Við erum í sveppameðferð sem ég sé reyndar engan árangur af og næst er það þá meðferð við sýkingu, en maður spyr sig „hversu lengi á maður að berjast?“

Nú verður þessi yndislegi drengur fjögurra vikna á sunnudaginn og ég er ekki tilbúin til þess að gefast upp. Það sem stoppar mig er þessi ótrúlega mjólkurframleiðsla sem ég bý yfir. Þrátt fyrir mikið stress, kvíða, lystarleysi og skerðingu á svefni framleiði ég ótrúlegt magn af brjóstamjólk og drengurinn sprengir svoleiðis af sér fötin. Sömu sögu var að segja af systur hans, okkar barningur stóð yfir í marga mánuði en ég get ekki lagt þennan barning á fjölskylduna aftur. Ég verð að fá lausn og það fljótt!!
Þið frábæru pelabarnamæður sem tókuð skrefið og ákváðuð að gefa barninu ykkar þurrmjólk, það væri svo frábært að heyra frá ykkur. Er ekki einhver þarna úti sem vill miðla reynslu sinni?

Hvernig leið ykkur eftir að hafa tekið ákvörðunina?
Hvers vegna gátuð þið ekki gefið brjóst?
Hverjir eru kostir og gallar þurrmjólkurgjafar?

Ég hlakka til að heyra frá ykkur.

Gleðilegt sumar!!

– –
Helga Kristín Sæbjörnsdóttir er 27 ára gömul og búsett í sveitasælunni við Laugarvatn. Hún hefur eitt ómældum tíma og áhuga í það að mennta sig og þar af leiðandi prófað margt spennandi sérstaklega í tenglsum við útivist og heilsu. Hún útskrifaðist sem íþrótta- og heilsufræðingur vorið 2010 en átti þá fljótlega sitt fyrsta barn. Dóttir henn varð eins árs 26. desember 2011 og á hún samkvæmt sónar von á litlum bróður í lok mars 2012. Starf hennar sem heimavinnandi og sjálfstætt starfandi húsmóðir er því langt í frá lokið og eftir því sem hún best veit bara rétt að byrja. Hún segist alltaf vera að læra eitthvað nýtt í tengslum við uppeldi barna, og hefur oftar en ekki rekið sig á það að fæst er hægt að lesa um í bók. Það er því að hennar mati nauðsynlegt að spinna söguna eftir persónuleika barnsins og það þykir henni sérstaklega áhugavert.

Ljósmynd: Lýður Geir Guðmundsson

– –
Vilt þú deila reynslu þinni eða gerast Mömmubloggari? Sendu okkur þá post á thora@foreldrahandbokin.is.

X