Loading

Komið heim af fæðingardeildinni

Með breyttum tíðaranda í þjóðfélaginu og auknum sparnaði í heilbrigðiskerfinu eru konur hvattar til að fara heim um leið og þær treysta sér. Auk þess sem það hefur sýnt sig að foreldrar vilja flestir komast í sitt umhverfi sem fyrst.
Það er fátt sem toppar það að koma heim í hreina íbúð þar sem búið er að þvo barnafötin, bleyjurnar eru tilbúnar, hreint á rúmunum og friður og ró. Foreldrar eru í mjög misjöfnu ástandi við heimkomuna – sumir eru dauðþreyttir eftir fæðinguna en aðrir eru uppfullir af orku. Besta ráðið sem hægt er að gefa og mér var gefið á sínum tíma er að taka því rólega til að byrja með. Tíminn með barninu er ómetanlegur auk þess sem þið foreldrarnir eruð sjálf að ná takti og aðlaga ykkur að algjörlega breyttum aðstæðum. Fyrir móðurina er gríðarlega mikilvægt að hvíla sig þegar hún getur. Heimilisstörf, daglegt amstur og allt annað verður að lúta fyrir mikilvægi þess að hvíla sig og á ég þar við að reyna að leggja sig með barninu og leyfa líkamanum að jafna sig í ró og næði. Þér líður vonandi stórkostlega og vonandi verður það þannig áfram en ansi oft er álagið og svefnleysið fljótt að segja til sín. Ungi litli þarf að fá sitt – á daginn sem og á nóttunni og lærir ekki að þekkja muninn á nóttu og degi fyrr en hann er orðinn þriggja vikna gamall. Ein gömul í hettunni tók mig á eintal þegar ég sagði henni frá þessari bók og hélt yfir mér langa ræðu um fjögurra tíma regluna! Að allar nýbakaðar mæður ættu að reyna að ná á einhverjum tíma fjögurra tíma svefni. Styttri svefn en það (í samfelldri lotu) nægði líkamanum ekki til að hvílast og þrátt fyrir að fjögurra tíma reglan sé illframkvæmanleg fyrstu vikurnar og í raun ekki mælt með henni skaltu hafa þetta á bak við eyrað. Allir svefnlausir foreldrar geta staðfest þetta.

X