Loading

KÓSÍ SVEFNHERBERGI FYRIR JÓLIN

Svefnherbergi foreldra (sérstaklega svefnlausra foreldra) eiga það til að líta út eins og ruslakistur heimilisins – staðurinn þar sem öllu rusli er sópað inn. Kósíheit eiga það til að víkja fyrir þvottinum, rúmið verður hoppukastali og náðarstundirnar verða engar. Margir foreldrar lenda jafnframt í því (sérstaklega eftir langvarandi svefnrugl) að missa getuna til að slaka á og sofna almennilega. En örvæntið eigi – hér koma nokkur gulltrygg ráð – svona fyrir jólin – sem að tryggja að svefnherbergið verði sá unarstaður sem að þig dreymir um (og í).

1. Út með ruslið. Þvottur, kassar, dót og annað slíkt verður að vera algjört tabú. Losaðu þig við allan óþarfa þannig að eftir standi rúm, náttborð, kommóða, stóll og annað í þá veru. Ekki Orbitrek tæki, straubretti og annað í þeim dúr. Reyndu jafnframt að fækka þeim stöðum sem geta safnað drasli – eins og hægindastólar og annað slíkt. Um leið og þú ert búin að hreinsa til í herberginu er hálft verk unnið.

2. Birta. Lampar gera kraftaverk. Hafðu daufa peru í lampanum eða dimmer til að skapa sem þægilegasta birtu. Forðastu að nota loftljósið nema þegar verið er að taka til eða kannski klæða sig á morgnanna.

3. Gluggatjöld. Falleg gluggatjöld gera ótrúlega mikið en geta líka verið svakalegt klúður. Hægt er að fá tilbúin gluggatjöld í verslunum á borð við IKEA og Rúmfatalagerinn og stangir á sömu stöðum. Grundvallarreglan er að hengja þau ekki of lágt. Með því móti virkar glugginn lítill og kubbslegur undir. Ef vel á að vera skaltu skella þér í gardínubúð og kaupa braut til að festa í loftið. Slíkt er miklu minna vesen en þig grunar og kemur ótrúlega fallega út. Láttu gardínurnar jafnframt ná alla leið niður í gólf.

4. Rúmteppi. Að búa um rúmið gerir kraftaverk og að toppa umbúninginn með fallegu rúmteppi er bæði fallegt og gefur herberginu allt annan blæ.

5. Púðar. Hafðu nóg að púðum og koddum. Þá verður rúmið svo fallegt og þægilegt. Þú þarft ekki að sofa með þá alla – heldur leggur þá á gólfið eða á þar til gerðan stað á nóttunni.

6. Rúmgafl. Rúmgaflar gera ótrúlega mikið og hægt er að kaupa þá tilbúna, láta bólstrara bólstra plötu eða gera það bara sjálfur. Hægt er að kaupa gardínuefni, svamp og mdf-plötu og með heftibyssu að vopni tekur enga stund að búa til gaflinn.

7. Litir. Ef þú nennir að mála skaltu hafa lágstemmda og róandi litapallettu. Ljósbláan, sandgráan eða eitthvað því líkt.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir – fengnar héðan og þaðan af netinu.

X