Loading

KRAFTAVERKABARN: LIFÐI AF Í LÍKHÚSINU

ARGENTÍNA – Tólf tímum eftir að hafa fætt andvana dóttur fengu Bouguet-hjónin að fara niður í líkhúsið til að kveðja hana áður en hún yrði borin til grafar. Móðir barnsins bjó sig undir erfiða kveðjustund en átti ekki von á að litla stúlkan væri lifandi.

Tildrög málsins eru þau að þann 3 apríl fæddist hjónunum lítil stúlka eftir einungis 26 vikna meðgöngu. Var hún úrskurðuð látin og fjarlægð án þess að foreldrarnir fengu að sjá barnið. Tuttugu mínútum síðar voru þau komin með dánarvottorðið í hendurnar.
Greftra átti stúlkuna strax en foreldrarnir kröfðust þess að fá að sjá stúlkuna og kveðja hana. Farið var með þau í líkhúsið þar sem búið var að búa um hana í lítilli líkkistu.

„Ég færði klæðin til hliðar og sá þá agnarsmáa hendi, með fimm litlum fingrum. Ég snerti hendina og tók síðan klæðin frá andliti hennar. Það var þá sem ég heyrði veikburða grát. Ég var viss um að ég væri að ímynda mér þetta en þegar ég leit betur sá ég að hún var að vakna. Það var engu líkara en að hún segði „mamma, þú komst!” Þá féll ég á hnén og maðurinn minn vissi ekki hvað hann átti að gera. Við grétum bara og ég grét og hló til skiptis. Við hljótum að hafa virst galin,” segir móðir stúlkunnar sem jafnframt bætti því við að hún gæti vart hugsað þá hugsun til enda ef hún hefði ekki fengið það í gegn að sjá barnið.

Stúlkan var köld og illa haldin en liggur á vökudeild sjúkrahússins og braggast vel. Hún hefur ekki þruft súrefni og þykir í ótrúlega góðu ásigkomulagi miðað við meðgöngulengd.
Hjónin ætla að kæra spítalann fyrir afglöp en segjast fyrst og fremst vilja fá skýringar á því hvernig svona lagað geti gertst. Það sé þó litla stúlkan sem skipti öllu máli núna en henni var gefið nafnið Luz Milagroz – sem gæti útlagst á íslensku sem kraftaverkaljós.

Heimild: SunTimes

X