Loading

KROSSFISKURINN

Ég er einkabarn og þegar ég var barn fannst mér fátt betra en að kveðja einmannalega gímaldið sem herbergið mitt var og skríða upp í hjá mömmu og pabba. Ég vafði mér listilega í kringum móður mína eða klessti mér undir sæng hjá pabba, allt eftir geðþótta og þörf hverju sinni. Enskættaður faðir minn kallaði mig litla hitapokann sem sparkaði. Og það fannst mér bara fínt.

Fjögurra ára skottið á heimilinu stundar það svolítið að koma upp í til foreldra sinna á nóttunni eða snemma á morgnana. Þau feðginin hafa einstakt lag á að breiða úr sér í rúminu en í morgun hékk verslings móðirin á brúninni, við það að detta fram úr, og morgunskapið eftir því! Þau lágu þarna eins og tveir krossfiskar; annar stór en hinn lítill, allir angar út og suður og tvöfalda sængin sem annars nær að dekka þrjá einstaklinga nokkuð vel vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og var á leiðinni niður á gólf líka.
Morgunfýlan var fljót að rjúka úr mér þegar ég stóð hálf flissandi við rúmstokkinn í morgun og virti þessi tvö fyrir mér.

Þó að lítið sé plássið fyrir mig í rúminu með þessu fyrirkomulagi finnst mér samt fátt jafnast á við það að vakna og horfa á lítið brosandi andlit sem tekur fagnandi á móti hverjum einasta degi og vill hvergi annars staðar vera en hjá foreldrunum. Það getur auðvitað verið erfitt að slíta svefninn svona í sundur og stundum lauma ég mér í stofuna til að reyna að bjarga því sem bjargað verður fyrir komandi vinnudag, en þetta er samt lífið. Lítið bros frá lítilli manneskju, sem elskar foreldra sína svo mikið að hún getur ekki hamið gleðina, er lífið.
Það hentar ekki öllum að hafa börnin sín upp í hjá sér og það hentar mér heldur ekki alltaf. Þrátt fyrir það hef ég tekið þann pól í hæðina að leyfa litlu mús að álpast yfir til mín á nóttunni ef hún þarf á að halda.

Ég held nefnilega stundum að hún viti betur en ég hvað hún þarf.

– –

Edda er menntaður margmiðlunarhönnuður og með BA í ensku. Hún hefur samt áhuga á öllu og vinnur því sem markaðsfulltrúi hjá ráðgjafafyrirtæki, syngur í kór, skrifar í tíma og ótíma og ferðast eins og hún getur.
Edda á eitt barn, einn mann og eina íbúð, en tvo króníska sjúkdóma sem krydda óneitanlega tilveruna og hún hefur lært heilmikið af því að lifa með veikindum og stýra heiminum í leiðinni.
Netfangið hennar er edda.kentish@gmail.com.

X