Loading

KURTEISI Á FÆÐINGARDEILDINNI

Áður en ég eignaðist frumburðinn fórum við hjónin samviskusamlega í gegnum allan undirbúning. Við sóttum námskeið, glugguðum í bækur og svo gúgglaði ég heil ósköp og miðlaði til eiginmannsins.

Þegar ég var gengin tvær vikur framyfir settan dag var ljóst að ég yrði gangsett. Við mættum með gulltöskuna mína góðu sem ég hafði fjárfest í niður á fæðingardeild klukkan átta um kvöld og í kjölfarið hófst ferlið.

Eitt það eftirminnilegasta frá allri þessari fæðingu var þegar að eiginmaðurinn sagði blíðlega við mig: „Við skulum síðan reyna að vera eins kurteis og við getum.”

Ég játti því enda fannst mér það á þeim tímapunkti auðsótt mál.

Síðan leið og beið, gangsetningin fór hægt af stað og lítið gekk. Verkirnir voru viðurstyggilega vondir áður en mænudeyfingin kom og ég háði mína baráttu innra með mér. Ég einbeitt mér að því sem var að gerast og hafði enga sérstaka þörf (né getu) til að ræða hlutina neitt sérstaklega.

Eiginmaðurinn var sífellt að reyna að hjálpa til og stöðugar spurningar hans um hvernig mér liði gerðu það að verkum að mig langaði að lemja hann.

En ég var kurteis…

Þegar allt virtist við það að fara í vitleysu, farið að draga af barninu og ljóst að þetta myndi enda í bráðakeisara var ég kurteis…

Og þegar að ljósmóðirin hélt á nýfæddum syninum og reyndi að leggja hann við kinnina á mér kunni ég ekki við að segja henni að fara burt með barnið því ég þyrfti að æla…

Þess í stað var ég kurteis…

Svona eftirá að hyggja held ég að eiginmaður minn hljóti að vera klárasti maður í heimi. Við vorum framúrskarandi kurteis út í gegn… eini munurinn er að ég gekk í gegnum gangsetningu, hríðir, legvatnsástungu, átján manns að pota í og þreyfa á mér, mælar fastir við mig, kviðristu, heftun og gríðarlegan blóðmissi.

Eiginmaðurinn sat í Lazy Boy stól og beið þess sem verða vildi.

En kurteis vorum við…

Þóra

X