Loading

Kvíði fyrir fæðingu

Ég á von á barni númer tvö og er gengin rúmar 33 vikur núna. Ég hef verið að finna fyrir mikið meiri kvíða fyrir þessa fæðingu en þá seinustu vegna slæmrar upplifunar í fyrri fæðingunni og mig langar að segja ykkur aðeins frá því.

Þetta var ekki óvænt þungun. Við vorum ekkert að reyna að koma í veg fyrir að annað barn yrði til því okkur langaði alveg í annað og að hafa stutt á milli barna. Það er bæði skemmtilegra fyrir börnin og auðveldara fyrir foreldrana síðar meir. Þannig að þetta var allt út pælt. En þegar ég komst að því að ég væri ólétt þá upplifði ég hvorki ánægju né spennu heldur byrjaði að hafa áhyggjur. Það var svo mikið og yfirþyrmandi og mér fór að líða virkilega illa. Ég var búin að vera mjög þreytt auk þess sem ég fann fyrir meiri ógleði en á fyrri meðgöngu sem hjálpaði ekki.

Ég sá bara vandamál og mér leið virkilega illa. Maðurinn minn hafði áhyggjur af þessu og við ræddum um að ég myndi kannski fara og hitta einhvern fagaðila til þess að ræða um þessa vanlíðan. Ég var alveg til í það en við gerðum ekkert meira en að tala um að fá hjálp í það skiptið.

Svo bara leið tíminn og þessi leiðinda ógleði og og þreytan og allt þetta líkamlega lagaðist og mér leið betur og ég fór að hafa minni áhyggjur af hlutum, mér fannst það óþarfi á þessum tímapunkti það var svo langt þar til ég ætti að eiga og það þýddi ekkert að vera að spá í því, svo ég bara „geymdi” áhyggjurnar mínar og allt var fínt.

Áfram leið tíminn og svo var að koma tími á að skila inn tilkynningu um fæðingarorlof til vinnuveitanda og ég var klár og tilbúin með það með góðum fyrirvara og búin að fara til yfirmannsins míns og við áttum bara eftir að kvitta undir. Ég var búin að ákveða að ég ætlaði að byrja í fæðingarorlofi mánuði fyrir settan dag en það gerði ég til þess að sleppa við að þurfa útvega mér veikinda vottorði fyrir síðasta mánuðinn. Minn ofur hugulsami yfirmaður kom svo til mín og spurði hvort ég væri alveg viss um að ég vildi hafa þetta svona og hvort ég vildi ekki bara reyna að fá vottorð fyrir þennan mánuð svo ég ætti lengra fæðingarorlof með barninu og ég fullvissaði hana um að ég væri viss og ég ætlaði bara að hafa þetta svona því ég nennti ekki þessu vottorða veseni og þannig lauk því í bili. Svo nokkrum dögum síðar spyr hún mig aftur að því sama, öll af góðum vilja gerð og hvetur mig til þess að kanna hvort ég geti ekki fundið útúr þessu með vottorðið því hún vilji endilega að ég fái þennan tíma með barninu mínu. Ég segi henni að ég myndi tala við mína ljósmóður og kanna málið.

Þá hellist þetta allt yfir mig allt sem ég var búin að vera geyma; allt vesenið og vonleysið.

En nú þurfum við að fara aðeins aftur í tímann. Á síðustu meðgöngu gekk mér illa að fá veikindavottorð hjá mínum heimilislækni. Ég fór og hitti hann þarna einhvertíma á viku þrjátíu og eitthvað því ég átti orðið mjög erfitt með svefn og þetta var farið að hafa áhrif á allt. Oft leið mér illa í vinnunni og ég átti erfiðara með að höndla ýmsar aðstæður vegna þreytu. Ég er að vinna á leikskóla á yngstu deild og það gat alveg tekið mjög á mig líkamlega og andlega og ég hafði meðal annars verið send heim í að minnsta kosti einu sinni hágrátandi því að ein erfið ung dama hafði verið að gera mér lífið leitt í hvíldinni með því að láta öllum illum látum og ég bara höndlaði það ekki.

Læknirinn spurði mig al.skonar spurnina um líkamlega líðan og hvort væri ekki bara hægt að setja mig á deild með eldri börnum svo ég þyrfti ekki að vera lyfta þessum litlu og svona og ég reyni að útskýra fyrir honum að það muni ekki hjálpa mikið því það er bara þá öðruvísi álag og öðruvísi áreiti sem ég mun koma til með að þurfa að kljást við og það sé ekki endilega auðveldara að sinna þeim þá þau séu eldri ekki þegar maður er svona ósofin og tæpur á andlegu hliðinni. Ég fékk það á tilfinninguna að hann héldi að ég væri að reyna að sníkja mér einhver svefnlyf, sem var bara það síðasta sem ég gat hugsað mér, það meikaði ekkert sens í mínum huga að vera „dópa mig upp” af svefnpillum á meðgöngunni svo ég gæti sofið. Ég vildi bara fá veikindavottorð til að minnka við mig vinnu svo að ég gæti þá reynt að hvíla mig á daginn ef ég ætti erfiða nótt. Hann virtist engan veginn skilja mig og af því að það var ekkert líkamlega að mér þá fékk ég ekkert út úr þessari heimsókn og endaði þetta spjall okkar á þessum orðum hans; „já börn eru besta fólk, verður þetta ekki allt í lagi bara?”

Ég var mjög ósátt eftir þessu heimsókn, því allstaðar í kringum mig voru óléttar konur að fá vottorð eins og ekkert væri, margar í bumbuhópnum löngu búnar að minnka við sig vinnu og ein samstarfskona mín hafði m.a. verið send í 100% veikindaleyfi þegar hún var gengin rétt um 20 vikur og það var ekkert mál af því að það var líkamlegur kvilli en andlega hliðin virtist minna máli skipta. Ég var farin að halda að ég þyrfti að fara gera mér upp allskonar verki og ljúga til að fá þetta vottorð en ég bara hafði það ekki í mér.

Næst þegar ég fór til hans tók ég mömmu með í von um að hún gæti verið ákveðin fyrir mig ef ég gæti það ekki sjálf og í það skiptið hagaði læknirinn sér ágætlega og var ekki með neinn mótþróa líklega af því að mamma var með en hann vildi nú samt ekki skrifa uppá nema 50% vottorð og sá enga ástæðu til þess að ég kæmi til með að þurfa að minnka meira við mig síðar ég ætti alveg að geta unnið fram að fæðingu. Fegin að fá loksins eitthvað út úr þessum karli tók ég við vottorðinu og skilaði inn. Loksins gat ég farið að reyna að vinna upp svefn.

Það sem var líka svo pirrandi í þessu öllu saman er að ég var búin að tala við ljósmóðurina mína um að ég ætti mjög erfitt með svefn, ég væri mjög tæp og hefði miklar áhyggjur af því að vera þreytt þegar kæmi að fæðingunni. Hún virtist alveg skilja mig en ljósmæðurnar mega náttúrulega ekki gera neitt eða skrifa uppá neitt þannig að hún sagði mér bara að ég þyrfti bara að finna það sjálf hvenær ég vildi minnka við mig og hvenær ég vildi hætta. Ég fann það alveg sjálf að ég var ekki að höndla þetta en ég gat ekkert gert í því sjálf, ég þurfti að fá vottorð eða bara vera launalaus eða eitthvað og það var nú bara ekkert í boði á einhverju þurftum við að lifa. Mér fannst enginn geta hjálpað mér og ég yrði bara föst í vinnunni og myndi bara fæða barnið þar.

Til að fá fullt vottorð fyrir seinustu vikurnar talaði ég svo við annan lækni, kvenkyns, á heilsugæslunni og fékk það í gegn að fá vottorð en hún virtist hafa meiri skilning á þessu en læknirinn minn.

Svona hljómar mín fyrri, slæma, reynsla af veikindavottorðum á meðgöngu og ég hafði engan áhuga á að endurtaka þetta og var að reyna sleppa því af því að mig langaði ekki að þurfa að díla við þetta. Þetta var alveg rétt hjá yfirmanni mínum að það væri best að gera þetta svona og fá lengri tíma í fæðingarorlofi með barninu. En núna bara var ég kominn á þannig stað að ég þurfti að díla við þetta sem ég var að reyna forðast ég var aftur farin að vera mjög þreytt og orkulítil. Litla dóttir mín fann alveg hversu þreytt og illa fyrirkölluð ég var og var á fullu að reyna öll mín mörk. Hún var mjög erfið og ég var að nálgast bugun. Maðurinn minn er mikið að vinna úti á landi og við mæðgur oft bara tvær einar að „slást”. Ég átti stundum erfitt með að halda mér vakandi meðan hún borðaði kvöldmatinn sinn kl. 18 og það var svo erfitt að þrauka þar til hún sofnaði, ég beið bara og hlakkaði til að hún færi loksins að sofa svo ég þyrfti ekki að hugsa eða gera neitt. Ég var hætt að nenna að fara í sturtu og setja fötin mín í þvott ég bara átti ekki til neina orku handa sjálfri mér þar sem orkan fór öll í hana.

Ég panta símatíma hjá ljósmóður og það er hringt til baka. Mín ljósmóðir var ekki við þannig að hin ljósmóðirin á heilsugæslunni var með símatímann að þessu sinni. Ég byrja að reyna útskýra mín mál rólega fyrir henni í von um að hún geti veitt mér ráð eða bent mér á lækni eða bara eitthvað og áður en ég veit af er ég farin að hágráta og gubba út úr mér allri sólarsögunni í einhverskonar móðursýkiskasti því mér var aftur farið að líða mjög illa. Símtalið endar á því að hún segir mér að hún ætli að tala við mína ljósmóður um þetta og ég eigi ekki að hafa áhyggjur því þær muni finna lausn á þessu. Ég róast en kvíðinn er enn til staðar.

Ég var að sjálfsögðu búin að vera tala við manninn minn um þetta allt saman og hann var á ný farinn að hafa áhyggjur og vildi að við fengjum einhverja hjálp. Hann ákveður að spyrja mömmu sína hvort hún þekki ekki til einhvers sem ég gæti haft samband við til þess að hjálpa mér að vinna úr þessum ofsalega kvíða. Tengdamömmu verður mikið um við að heyra að mér líði svona illa og ákveður að þetta gangi nú ekki og hefur sjálf upp á ljósmóður minni og segir henni hvernig mál standa. Ljósmóðurinni bregður við þetta allt saman og vill gera eitthvað í málunum strax og ég er bókuð í „neyðar” tíma hjá ljósmóðurinni eins fljótt og hægt var.

Ég hitti ljósmóðurina mína og við ræðum um allt saman og hún lætur mig taka kvíða og þunglyndispróf og jú, þar kemur í ljós að um vægan kvíða er að ræða, en kvíða samt sem áður og í þessu spjalli okkar kasta ég svo á hana næstu sprengju, sprengjunni sem ég var búin að vera geyma þar til síðar. Í lok hverrar heimsóknar spurði hún mig alltaf „er eitthvað sem þú vilt spyrja um að lokum?” og ég svaraði alltaf neitandi enda þyrfti ég ekkert að spá í það strax en mikið hefði ég átt að koma því frá mér fyrr. Ég lýsti fyrir henni upplifun minni af seinustu fæðingu en sú upplifun var alls ekki góð og ég var rosalega kvíðin yfir því að sú slæma upplifun ætti eftir að endurtaka sig í þetta skipti.

Í lok tímans var hún síðan búin að panta tíma fyrir mig hjá lækni til þess að útvega mér 50% veikinda vottorð og býðst til þess að ræða við hann áður en ég fer til hans til að útskýra mín mál og svo ákveður hún að panta afrit af áfangaskýrslunni minni til þess að fara yfir með mér svo að hún geri hjálpað mér að vinna á þessum kvíða.

Næst þegar ég hitti hana er ég búin að fá vottorðið og búin að vera í 50% starfi í rétt rúma viku og líður strax mikið betur þar sem ég var farin að hvílast aðeins betur. Ljósmóðirin var komin með fæðingarskýrsluna mína, ég hafði sjálf farið og fengið þessa skýrslu á sínum tíma því ég var ekki sátt við þá þjónustu sem ég fékk en ég botnaði ekkert í skýrslunni, skildi ekki skriftina eða ljósmæðra tungumálið. En ljósmóðirin mín las yfir þetta með mér og útskýrði og var niðurstaðan sú að þetta var í raun mjög slæm þjónusta sem ég fékk á Landspítalanum þennan örlagaríka dag 1. maí 2015. Bara við að fá það staðfest að þetta hefðu ekki verið ásættanleg vinnubrögð og að ég hefði í raun fengið mjög lélega þjónustu þennan dag var mikill léttir. Ég var ekki eitthvað klikkuð og þetta var í alvörunni ekki í lagi.

Ljósmóðirin mín fullvissaði mig um að svona myndi ekki gerast aftur og hún ætlaði að sjá til þess. Hún sagðist ætla að skrifa bréf sem hún myndi senda upp á deild og myndi síðan líka fylgja mæðraskýrslunni minni. Hún ætlaði að hafa samband við yfirljósmóður fæðingadeildarinnar á LSH svo að þetta færi ekkert á milli mála og það yrði tryggt að mér yrði sinnt almennilega og að það yrði hlustað á mig í þetta skiptið. Í lokin spurði hún hvort ég vildi fá að ræða við sálfræðinginn á heilsugæslustöðinni um kvíðann mér fannst það góð hugmynd því ég vissi að sálfræðingur gæti veitt mér þau „verkfæri” sem ég þurfti til þess að takast á við kvíðann og tækla þessar neikvæðu hugsanir sem vilja stundum hellast yfir mig.

Í byrjun þessarar viku fór ég svo og hitti sálfræðinginn og það hjálpaði helling. Hún skynjaði og sá hvað ég þurfti og benti mér á námskeið í hugrænni atferlismeðferð en þetta námskeið hefst nú í lok febrúar. Á námskeiðinu verður farið yfir hvernig á að bregðast við þessum kvíða og losna við neikvæðu hugsanirnar. Ég er reyndar ekki búin að fá staðfestingu á að ég komist á námskeiðið en ég er komin á biðlista og bíð bara eftir að heyra meira en annars fékk ég nýjan tíma hjá sálfræðingnum til vonar og vara.

En tilgangurinn með því að deila þessari löngu kvíða sögu er að hvetja aðrar sem eru í sömu stöðu til að leita sér aðstoðar, ef þið eigið slæma upplifun frá fyrri fæðingu eða eruð mjög hræddar eða kvíðið fæðingu fyrsta barns ykkar þá er svo mikilvægt að segja ljósmóður frá því vegna þess að þær eru til þess að aðstoða konur í þessum aðstæðum. Ljósmóðirin þín á að sjá til þess að þér líði vel á meðgöngu og að þú hafir trú á að þú getir þetta, þú átt ekki að upplifa ótta eða kvíða þér á að líða vel og það að fá ljósmóður til að fara yfir ferlið eða lesa yfir fyrri fæðingarskýrslu í rólegheitunum getur gert heilmikið fyrir þig. Ég vildi að ég hefði sagt fyrr frá þessu, það er erfitt en það allt í lagi að biðja um hjálp.

Anna Sigrún

– – –

Ég heiti Anna Sigrún og er 28 ára. Ég á eina dóttur sem heitir Freyja og er fædd þann 1. maí 2015 og síðan er lítill drengur væntanlegur í heiminn í lok mars. Ég hef verið gift í þrjú ár en við höfum verið saman síðan 2009.

Ég bý og vinn í Breiðholti, er að vinna á leikskóla í augnablikinu en það styttist í að ég fari í veikindaleyfi á síðustu vikum meðgöngunnar og við tekur svo fæðingarorlof. Helstu áhugamál mín eru barnauppeldi og barnamenning, förðun, ljósmyndun, DIY stúss og falleg hönnun. Ég hef MJÖG gaman af því að versla og skoða allskonar sniðugt á netinu og svo er ég með skipulagsdellu! Ég er mjög dugleg að búa til allskonar lista og skipulag yfir hvernig er best að skipuleggja hitt og þetta…en ég er ekki alveg jafn góð í að fylgja þeim, sérstaklega innan veggja heimilisins.

– – –

Langar þig að verða bloggari?
Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt?
Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Við ætlum að endurvekja okkar stórskemmtilega MÖMMUBLOGG og erum að leita að vel skrifandi og áhugaverðum foreldrum til að deila sögum úr lífi sínu.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora@foreldrahandbokin.is

X