Loading

KYNLÍFIÐ REDDAST EKKI SJÁLFKRAFA

Kynfræðingurinn Sigríður Dögg Auðunsdóttir hefur slegið í gegn með pistlum sínum um kynlíf eftir barneignir sem birtast vikulega í Fréttablaðinu. Í þeim talar hún hispurslaust um vanda margra foreldra og mikilvægi þess að tjáskipti séu í lagi – ekki síst um kynlíf- og samlíf para. Í ítarlegu og skemmtilegu viðtali í Fréttatímanum í morgun bætir Sigríður, eða Sigga Dögg eins og hún er kölluð, um betur og útskýrir þann vanda sem að margir nýbakaðir foreldrar standa frammi fyrir og kynlífsvandann í kjölfar barnasprengjunnar.

„Auknar barneignir eru eina afleiðing kreppunnar. Það er enginn að tala um álagið af barneingnunum og hvernig þær geta haft áhrif á sambandið og á kynlífið,” segir hún í viðtalinu og bætir við að hún hafi fengið gríðarleg viðbrögð við pistlaskrifunum og fólk stoppi hana oft út á götu til að ræða málið. „Það er gaman að búa til börnin en það getur verið erfitt að klást við afleiðingarnar.”

Sigga Dögg leggur áherslu á að pör ræði vandann sín á milli. „Þegar þú ert að sinna barnauppeldi og brjóstagjöf fæðru hormónaendurgjöfina þar. Svo er sjálfsmynd kvenna oft breytt. En þegar álag er í sambandi þarf fólk að vera extra nærgætið og meðvitað um það; báðir aðilar. Það er leiðinlegt þegar konan fer í fasann að segja nei. En einnig ef hún bíður eftir því að hann hafi frumkvæðið á meðan hann vill vera tillitssamur af því að hann veit að hún er þreytt. Allur þessi dans í stað þess að segja bara: Ég er þreytt ég nenni ekki að stunda kynlíf. Við verðum að finna lausn á því.”

Fyrirlestrar fyrir nýbakaðar mömmur

„Það er brjálæðislega skemmtilegt,” segir Sigga Dögg aðspurð um fyrirlestra sem hún heldur fyrir mömmuhópa. „Það er brjálað að vera í mömmuhópunum. Ég hef aldrei lent í eins krefjandi hópum. Þær eru brjálaðar og vilja svör; haldbærar ráðleggingar.” Aðspurð að því hvað mömmurnar spyrji helst um liggur Sigga ekki á svari sínu. „Þetta að gefa sér tíma. Þær benda á: Og svo er barnið sofnað og karlinn stendur upp og segir; jæja nú er tími. TÍMI. Ertu að grínast. Ég er ekki búin að fara í sturtu. Ég er svöng. Það er ekki búið að þrífa hérna. Það er allt í rúst. Heldur þú að ég ætli að leggjast upp í rúm núna og dúlla mér! Stemningin verður oft konur vs. karlar í stað þess að bæði finni lausn. Kynlíf er fyrir bæði. Það er fyrir sambandið ykkar.”

Viðtalið í heild sinni má lesa í Fréttatímanum í dag.

Heimasíða Siggu er HÉR og hægt er að senda henni fyrirspurnir á kynlif@frettabladid.is. Eins er Sigga á Facebook en þá síðu er hægt að nálgast HÉR.

Ljósmynd: SiggaDogg.is

X