Loading

LÆRDÓMUR Á RÓLÓ

Ég var eins og svo oft áður á róló. Rólóvellir hafa komið í staðinn fyrir skemmtistaði hjá mér. Líkt og á góðu kvöldi í miðbæ Reykjavíkur er ég farin að þekkja sum andlitin vel og einstaka barnfóstrur farnar að heilsa mér. Í staðinn fyrir að eyða peningunum í hressandi kokteila og ískalda bjóra eyði ég peningunum í Earth’s Best barnamat til að sýnast ægilega lífræn og holl og Magnolia Bakery múffur til að sýnast nógu ánægð í eigin skinni til að borða slíka óhollustu.

Það er mikil kúnst að halda uppi samræðum við barnfóstruna sem stendur þétt við hliðina á þér og rólar barninu í takt. Þegar við erum rétt að klára að tala um veðrið kemur askvaðandi mamma sem talar sænsku við barnið sitt. Barnið var klætt í græn föt með svarta húfu. Barnfóstran snýr sér að henni og spyr hvað hann eða hún sé gömul og brosir sínu blíðasta til barnsins. Sænska mamman segir að Chris sé þriggja ára og að Chris muni sjálfur/sjálf ákveða kyn sitt seinna. Það var auðvelt að sjá ruglinginn í augunum á barnfóstrunni sem hafði aldrei heyrt annað eins. Hún vissi ekki hverju átti að svara og hélt áfram að blaðra um veðrið, í þetta sinn velti hún því fyrir sér hvernig helgin yrði eiginlega. Ég brosti til þeirra en velti þessu líka fyrir mér án þess þó að mikið bæri á. Laumaðist burt og fékk mér múffu.

Þegar ég var komin heim stóðst ég ekki mátið og leitaði að þessu á veraldarvefnum. Ég hafði eitthvað aðeins heyrt af þessu, en þetta er víst aðferð sem sí fleiri foreldar kjósa. Með þessu vilja foreldrar að börn fái frelsi til að kjósa kyn sitt og sjálfsímynd. Þeir vilja ekki að börnin þeirra séu fædd með stimpil á hausnum um hvernig þau eigi að vera og hvaða stað í samfélaginu þau tilheyra.

Djúpt hugsi horfi ég á drenginn á gólfinu sem lemur stútkönnunni í púslið og finnst hávaðinn mjög spennandi. Ef ég myndi fara eftir þessari aðferð er ég ansi hrædd um að hann myndi koma upp um mig áður en að fólk fengi tækifæri til að spyrja hvers kyns hann væri. Það er magnað hvað við mannfólkið erum ólík, það sem okkur finnst fáránlegt finnst öðrum hinn eðlilegasti hlutur. Þetta er það sem ég elska við þessa borg, ég er alltaf að læra eitthvað nýtt!

– – –

Ólöf Daðey Pétursdóttir, heimshornaflakkari frá Grindavík. Útskrifaður Þróunarfræðingur frá Háskóla Íslands. Finnst fátt skemmtilegra en að ferðast um heiminn í leit að sjálfri sér og býr um þessar mundir í West Village í New York með manni sínum og syni sem er fæddur í júní 2012. Hægt er að fylgjast með ævintýrum hennar á www.lafan.blogspot.com.

X