Loading

LAUS PLÁSS Á NÆSTA NÁMSKEIÐ

Það er spennandi þegar kemur að því að barn fari að fá fyrstu fæðuna. Það hefur mikið verið rætt um það hvenær börn eru tilbúin til þess en flest bendir til þess að þeim þroska sé náð milli fimm og sex mánaða. Við erum vön því að þegar barn fer að borða þá gefum við því fyrst hrísmjölsgraut og svo grænmetis og ávaxtamauk. Þetta var áður sagt að væri besta aðferðin þar sem grauturinn væri auðmeltanlegur og maukinu væri svo auðvelt að kyngja. Foreldrið ræður alveg ferðinni hvað varðar magn og hvað fer ofan í barnið og barnið er hlutlaus þiggjandi. Hættan er að oft erum við búin að ákveða visst magn og leggjum áherslu á að klára úr skálinni þó að barnið sé kannski búið að fá nóg.

Hætta er á að streita skapist í samskiptunum þegar barnið er ekki sammála foreldrunum um hvort það vill matinn en auðvitað höfum við áhyggjur af því að barnið fái nóg. En hugsið bara að þegar þau eru á brjósti þá stjórna þau sjálf magninu, stundum bara stuttir sopar og stundum langar gjafir. Flestir nota þessa grautar og maukmötun en mig langar að segja ykkur aðeins frá hinni aðferðinni.

Hugmyndin með því að láta barnið matast sjálft er að mauka ekki ofan í barnið og mata það heldur leyfa barninu sjálfu að handleika fæðuna og setja hana upp í sig. Þetta á sér erlenda fyrirmynd en Gill Rapley fann út að með því að leyfa barninu að ráða ferðinni (baby led weaning) þá urðu matmálstímarnir skemmtilegir og áreynslulausir. Með þessu stjórnar barnið frá upphafi hversu mikið það borðar, verður nýjungagjarnara á bragð og áferð og borðar fljótlega sama fjölskyldumat og aðrir. Þegar barnið tyggur fæðuna losnar munnvatn sem hvetur til meltingar en það gerist síður þegar þau kyngja mauki. Þjálfun kjálkanna við að tyggja er líka mikilvæg en við að borða graut og mauk reynir lítið á kjálkavöðvana. Einnig reynir þetta á hreyfiþroska bæði grófhreyfingar og ekki síður fínhreyfingar.
Námskeiðið Barnið byrjar að borða leggur einmitt áherslu á þessa aðferð og þar er farið í margt gagnlegt varðandi mataræðið fyrsta árið, næringu matvælanna, fæðuflokkana og hvernig er best að útbúa matinn þannig að þau geti borðað sjálf. Námskeiðinu fylgir vegleg mappa stútfull af fróðleik og uppskriftum. Næsta námskeið er 14.mars kl 12.30 – 14.30 og skráning fer fram á brjostagjof@gmail.com

Heftið „Barnið byrjar að borða“ er einnig hægt að kaupa sérstaklega.

Um námskeiðið sér Ingibjörg Baldursdóttir hjúkrunarfræðingur og IBCLC brjóstagjafaráðgjafi en hún hefur sérhæft sig í ráðgjöf um brjóstagjöf og mataræði barna.

X