Loading

LAX, LAX, LAX!

Ég vildi að orðið taubleyja passaði inn í þennan texta: Lax, lax, lax og aftur lax – það eina sem þú hugsar um er bara laaaax! Á tímabili síðastliðið haust var ég svo heltekin af hugsunum og pælingum um taubleyjur að ég var (í alvöru) hætt að geta sofið. Það endaði með því að ég hoppaði á fætur eina nóttina og tæmdi barnavörudálkinn á bland.is af notuðum taubleyjum – ég var gersamlega sokkin á bólakaf í taubleyjurómantík.

En byrjum á byrjuninni. Þegar ég gekk með Drekann vorið 2010 ákvað ég að gerast taubleyjumamma. Ég byrjaði að afla mér upplýsinga á nokkuð skipulagðan hátt og setti meira að segja upp Excel skjal þar sem ég reiknaði dæmið frá upphafi til enda, fram og aftur og aftur og fram. Niðurstaðan var ótvírætt sú að þó ég keypti dýrustu taubleyjurnar á markaðnum þá myndi ég sennilega spara mér einhverjar krónur. Og þar sem planið var jú að eignast annað barn þá sá ég að þá fyrst yrði sparnaðurinn fullkominn! Svo þegar tveir mánuðir voru eftir af meðgöngunni byrjaði ég að panta. Mér datt ekki í hug að kaupa notaðar bleyjur – ÓNEI, fannst það mér bara subbuleg tilhugsun.

Fyrst komu í hús forbrotnar bleyjur (prefolds) og utanyfirbuxur (cover). Og þetta notaði ég með góðum árangri þar til Drekinn var orðinn of stór (6 kg) sem gerðist furðuhratt. Þá prófaði ég þessar líka fínu Alltíeinni (AIO) bleyjur, en hafði þó bara keypt tvö stykki til að prófa. Mér líkaði voða vel við bleyjurnar – að því undanskildu að ég náði ekki með nokkru móti að þvo þær almennilega. Eftir fyrstu kúkasprengjuna var önnur bleyjan varanlega lituð af karrígulum kúk. Þetta gat ég engan veginn sætt mig við og lagði taubleyjudrauminn á hilluna.

EN haustið 2011 þegar Drekinn var orðinn 18 mánaða og litla Ljónið mitt 4 mánaða hitti ég taubleyjumömmu og það var eins og allar flóðgáttir himins opnuðust fyrir mér! Ég fékk upplýsingar um hvernig ég ætti að þvo og meðhöndla bleyjurnar, hvaða bleyjur væru bestar og og og og það varð ekki aftur snúið.

Næstu daga rogaðist pósturinn með hvern pakkann á fætur öðrum hérna heim til mín. Taubleyjur fylltu eldhúsborðið, þvottavélina, snúruna og um síðir heila skúffu í kommóðu drengjanna. Ég veit ekki alveg hvernig þetta gerðist en allt í einu átti ég rúmlega 50 taubleyjur og 80 innlegg. Verandi með tvo taubleyjurassa er það svo sem enginn ofgnótt, á leikskólanum geymi ég alltaf nokkrar bleyjur og á hverri nóttu þvæ ég fulla vél af taubleyjum sem ég síðan hengi til þerris á morgnanna.

Rómantíkin er reyndar aðeins að skolast af taubleyjunotkuninni – en ég er samt hin stoltasta, sannfærð um að þetta sé hið besta mál. En skondið samt að segja frá því að ennþá er bara ein bleyja sem ég næ ekki að þrífa almennilega – það er dýrasta bleyjan í skúffunni og sú sem ég prófaði fyrst!

– – –
Ég heiti Kristín Ósk, er félagsráðgjafi að mennt, heimavinnandi húsmóðir og fósturforeldri að atvinnu. Barnafjöldinn er því breytilegur en fastinn eru Rósin (2006), Drekinn (2010) og Ljónið (2011). Ég er einstaklega afskiptasöm, skipulögð og óskipulögð í senn, horfi jákvæðum augum á lífið og tilveruna og hef ekki áhyggjur af því sem ég fæ ekki breytt!

X