Loading

LEIÐIN UPP Á VIÐ

Það eru eflaust margir sem kannast við mig á þessari síðu í sambandi við það þegar ég braut ísinn með greininni minni „fæðingarþunglyndi.“ Eftir að ég birti þessa grein varð ég hálf máttlaus yfir öllum þeim góðu viðbrögðum sem ég fékk. Fólk sem ég þekki ekki fór að þakka mér fyrir úti á götu, mæður fóru að segja mér söguna sína í grænmetiskælinum í Samkaup og það sem enn betra var þegar fólk fór að segja að því þætti ég vera hugrökk.

Þessi langa leið að hamingjunni er samt ekki bara eitthver rúllustigi í Kringlunni. Þetta er þrautarganga upp langan stiga þar sem ég þarf að nota hverja einustu orku í líkamanum við að taka næsta skref upp á við.
Hvernig hef ég það er kannski spurning sem margir lesendur hafa pælt í. Það er bara þannig að ekkert gott gerist á einum degi. Ég á mína slæmu daga, þeim fækkar, en þeir koma þó. Ég lifi enn með kvíðaröskun en sem betur fer að þá er það ég sem stjórna sjúkdómnum en ekki hann mér. Ég hef verið í meðferð sem heitir „Triad Technigue“ og hún hefur kennt mér það að ná tökum á því sem ég ræð ekki við.

Þegar maður fær kvíðakast að þá eru líkaminn og hugurinn ekki að vinna saman. Hugurinn segir manni að eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast og sendir því boð til líkamans um að fara í „fight or flight“ viðbragð. Það er viðbragð sem við öll búum yfir og virkar þannig að þegar við erum í hættu að þá undirbýr líkaminn sig fyrir flótta og átök nema við kvíðasjúklingarnir fáum þetta viðbragð þrátt fyrir að engin hætta sé til staðar. Viðbragðið kallar fram adrenalínsjokk, svita, vöðvaherping, oföndun og hjartaáfallseinkenni og það eru þau sem hafa reynst mér erfiðust. Þetta eru viðbrögð rétt eins og við fáum þegar við verðum hrædd við eitthvað eða erum að flýja undan eitthverju. Þarna er kraftur hugans svo mikill í mínum sjúkdómi og þess vegna hef ég lært að setjast niður þegar ég fæ svona köst og ég næ að yfirvinna hræðsluna með því að segja sjálfri mér að ekkert hættulegt sé að gerast. Þú ert ekki að fá hjartaáfall Kristín, þetta er kvíðakast.

Allt þetta hef ég lært í þessari frábæru meðferð og hún ásamt mörgu öðru er eiginlega ástæðan fyrir því að ég fæ ekki orðið kvíðaköst lengur. Ég er nánast orðin lyfjalaus þökk sé minni eigin uppbyggingu og þrjósku. “Mind over matter” segir í meðferðinni minni og í því er mikil speki. Ég er svo þakklát fyrir það að vera loksins komin að síðustu tröppunum í stiganum eftir langa og erfiða göngu. Lán í óláni á svo sannarlega við hérna. Það var ólán að verða veik en lánið í því var að fá alla þessa lífsreynslu. Allt það sem ég hef lært í gegnum þetta og þurft að kljást við gerir mig að manneskjunni sem ég er í dag. Ég hef svo sannarlega farið út fyrir minn þægindarramma með þessum pistli en það er einmitt partur af batanum, að tala um vandamálið!

Ég hef ákveðið að halda áfram að vera opinská með veikindi mín. Fyrir þá sem ekki þola einlægni mína og geta ekki samglaðst mér vil ég biðja um að lesa ekki greinarnar mínar. Fyrir öll þau jákvæðu komment, hrós, reynslusögur, email, þakkir og hvatningarorð úti í samfélaginu vil ég þakka fyrir! Ég get ekki einu sinni reynt að koma því í orð hvað þetta gerir fyrir mig. Þetta fleytir mér áfram, þetta ýtir við mér á leiðinni upp tröppurnar og það nánast ber mig upp síðustu skrefin. Skál fyrir lífinu!

– – –

Kristín Greta er Bolvíkingur, búsett á Ísafirði og á dóttur fædda í nóvember 2011. Er að fara í nám í haust og stefnir á að verða ljósmóðir. Hefur rosalegan áhuga á börnum og uppeldi þeirra.

X