Loading

LÍF Í TVÖ ÁR!

Ég fann hvernig sólargeislarnir ruddu sér veginn inn í stofuna. Rétt eins og veisluglaðir gestir sem hafa fengið boskort og þyrstir í gómsæta veislu. Terturnar trítluðu ein á fætur annarri á veisluborðið og allt var smám saman að smella. Gaf forsmekkinn af fínustu afmælisveislu en veisluhaldarinn var líka af allra flottustu sort. Tveggja ára yngismær sem valið hafði af kostgæfni alla sína allra mestu uppáhalds til að sameinast yfir kaffitári og kökusneið þeim merka áfanga að hafa heiðrað þessa jörð í árin tvö.

Já ég er búin að bera þann merka titil móðir í tvö ár. Reyndar finnst mér titillinn verðskuldaður við getnað en ég er ekki viss um hvort tímatalið sé formlega hafið fyrr en barnsunginn mætir á svæðið, holdi kominn.

2 ár og plús mínus 9 mánuðir. Sem líf mitt hefur helgast besta barni. Virðulegasti starfstitill í heimi og um leið merkilegasta starfið. Þjónn, leiðbeinandi, umhyggjusöm, ástrík, nærandi, agandi, syngjandi, hlægjandi og stundum meira að segja grátandi. Allt í bland og útkoman hreint út sagt unaðsleg. Ástæða þess að við væflumst um á þessarri jörð.

Litla stelpan mín er komin í bleikan kjól og skyndilega er hún hefur hún fyllst þolinmæði sem fylgir því að festa spennur í stíl við kjólinn í silkimjúka slöngulokkana. Hvernær varð hún svona stór.

Þegar við lítum á nýfætt barn og tveggja ára sjáum við að munurinn er gríðarlegur. Mestu breytingar sem verða á mannskepnunni. Vitneskjan, þroskin og líkamlegar útlitsbreytingar eru þvílíkar að hvert einasta foreldri sýpur hveljur úr stoli að horfa á smábarnið sitt stækka á örhraða yfir í litla manneskju. Manneskju sem skyndilega er orðin fullfær að tjá sig og gera skiljanlega um flest sem viðkemur hennar daglega lífi. Hefur skoðanir á öllu og drekkur í sig fróðleik eins og svampur í froðufullu baðkeri.

Það er engin tilviljun að smábörn stækka svona hratt. Okkur liggur svo á í þekkingarleitinni og engin tími fyrir krútt kúr nema í þessa örskotstund á fæðingardeildinni. Eftir það liggur leiðin hratt upp á við í þekkingargöngu okkar enda stækkar heilinn á hraða ljóssins og þarfnast stöðugrar örvunar og þjálfunar í leit sinni að ofurmenninu sem við öll viljum verða.

Ekkert spendýr hefur jafn stóran heila og menn. En á sama tíma á ekkert spendýr eins langa barnæsku og mannfólkið. Það er ekki fyrr en á stökkpalli unglingsárana sem hlutirnir fara að flækjast og kannski er það heldur engin tilviljun. Sennilegt er að flókið flæði hormóna og ruglingsleg sápuóperukennd tilvera áttavillts unglings sé gerð af ráðnum hug náttúrunnar og stuðli að öflugri samfélagskunnáttu og auknum þekkingarkrafti þegar kemur að samskiptum unglinga við oft á tíðum dramatíska samnemendur sína og nánasta umhverfi.

Okkur liggur svo á að verða fullorðin og þjóðnýta heilann um leið sem mest að við hoppum úr barnskónum yfir í þá alltof stóru á svo stuttum tíma að unglingabólurnar ná varla að gróa saman. Kolruglaður unglingur í frumskógi fullorðina virðist oft lendingin og afleiðingin hugsanlega sterkari einstaklingur, afrakstur hinna flóknu samfélagsgerða.

En aftur að börnunum smáu og kláru. Því ekkert er í heiminum skemmtilegra en að skilja loksins ómálga barnið sitt sem tjáir sig með handahreyfingum, andlitstjáningu og loks undanfara raunverulegra orða í áttina að því að verða sjálfstæð persóna. Tungumálið er svo magnað tól og sumir segja að glugginn fyrir að læra tungumál lokist eftir 10 ára aldur. Hafi einstaklingur verið gjörsneiddur öllu tali, -mögulega alist upp í frumskógi eða einn uppi á háalofti. Fram að þeim tíma er mun auðveldara fyrir börn að læra hin ólíkustu tungumál og um að gera fyrir hugsandi foreldra að nýta sér öflugan heila ungviðis síns á meðan á þessum árum stendur. Búa þannig í haginn fyrir eldri árin þegar litli einstaklingurinn getur síðar státað af afburðar málfærni á sem flestum tungumálum.

Litla stelpurófan mín er (vissulega mjög hlutdrægt mat) óvenju skírmælt og söngelsk og er þess fullviss að sinn örsmái veruleiki snúist eingöngu um hana sjálfa. Þar hefur hún rétt fyrir sér. Ég get satt best að segja ekki beðið eftir framhaldinu, rökræðunum, útskýringunum og hennar sýn á flóknum veruleikanum.

Mikið er ljúft að vera mamma.

–  –  –

Ég heiti Íris Hauksdóttir og er 28 ára háskólanemi á loka árinu í mannfræði. En auk þess drattast ég með meistaragráðu í bókmenntafræði. Ég hef mikla ást á leikhúsi og flokka mig sjálfa sem fagurkera fram í fingurgóma. Hef unun af bakstri og eldamennsku sem og lestri góðra bóka. Ofar öllu öðru er ég móðir dásamlegrar næstum tveggja ára stelpurófu.

X