Loading

LÍFIÐ Á VÖKUDEILD

Vökudeild er annar heimur út af fyrir sig. Þegar ég gekk inná vökudeild í fyrsta sinn þá varð allt rosalega óraunverulegt. Eins og í draumi frekar en veruleika. Það er hægt að segja að ég gekk inn í hálfgerði þoku … loftið var þurrt … ljósin rosa skær … og bergmál og suð af vélunum í kring. Ég fann fyrir miklu óöryggi vissi ekki alveg hvernig ég myndi bregðast við að sjá hann þarna inni. Allt þetta ókunnuga fólk var á fullu með hendurnar á barninu mínu og mér fannst pínu eins og ég væri fyrir þeim. Svo margar tilfinningar og hugsanir koma upp inní manni, á ég að gráta, á ég að brosa, hvað má ég gera, hvað eru hinir að hugsa? Ég hef alltaf haft miklar áhyggjur hvað fólki finnst um mig í kringum mig, svo í langan tíma reyndi ég að hlæja þetta af mér, vera sterka konan en ekki unga mamman sem veit ekki neitt. Ég gekk inná vökudeild á klukkutíma fresti, brosandi og hress og passaði að vera sko ekki of lengi í burtu og ekki kannski of lengi þarna inni svo ég yrði ekki fyrir neinum. Við vorum með herbergi niðrá sængurkvennadeild svo ég flakkaði bara á milli og maðurinn minn kom oftast með. Við sátumst niður og horfðum á hann, spurðum spurninga ef okkur datt eitthvað í hug svo fór maður aftur niður og svona var þetta fyrstu 4 dagana. Aron littli var á miklu lyfjum og svaf bara, hann opnaði augun í fyrsta sinn 3ja daga gamall og það var æðisleg stund. Hann lá þarna og starði bara á okkur og við störðum á móti en svo fór hann aftur að sofa og vaknaði ekkert fyrir alvöru fyrstu daga lifs sins.

Við settumst alltaf sitt hvoru megin við kassan hans. Eftir smá stund að horfa á hann var eins og slöngurnar, snúrurnar, pípin og lætin hyrfu eitt að öðru. Þetta var litli strákurinn minn og oh hvað það var gaman að horfa á hann. Við fengum að setja hendurnar inní kassan og halda í hendur og fæturnar á honum og við hjónin skiptumst á … fyrst hélt ég í tærnar og hann í hendina og svo var komið að mér að halda í hendina á honum. Önnur hendin og annar fóturinn var alltaf upptekin með eitthverskonar snúru, nál og monetormæli. Hægt og rólega fékk ég að gera meira og meira. Til að byrja með var bara eitthvað lítið eins og að þvo honum um höfuðið með rökum klút. Það eru ekki orð til að útskýra hversu æðislegt það var að fá að gera EITTHVAÐ. Ekki bara horfa á aðra gera allt. Eftir þetta kom allt hægt og rólega, ég fékk að halda honum uppi á meðan þær skiptu á rúmfötunum í kassanum, síðan fékk ég að skipta um bleiu um leið og þvagleggurinn var farinn. Snúrunum fækkaði og ég varð meira og meira virk í öllu og gaman að segja að í endan var ég farin að gera allt sjálf og gekk bara um eins og ein af hjúkkunum.

Hjúkkurnar uppá vökudeild eru alveg til fyrirmyndar og ég held að sumt hefði ég ekki komist í gegnum án þeirra. Það tekur samt smá tíma að tengjast öllum og fyrst til að byrja með var ég háð þeim þremur hjúkrunarfræðingum sem tóku á móti Aroni og voru með hann fyrstu dagana. Svo urðu vaktaskipti og allt í einu var ég aftur á byrjunarreit með fullt af ókunnugu fólki í kringum mig og það var rosalega óþægilegt. Ég gekk í gegnum þetta fyrstu vikurnar. Um leið og ég fór að þekkja og líða vel í kringum þær hjúkkur sem voru á vakt kom eitthver vaktaskipting og puff aftur á byrjunarreit. Ég grét stundum þegar heim var komið yfir því að mér fannst að hjúkkan sem væri með Aroni þekkti hann ekki, hún myndi gera eitthvað vitlaust, en allt þetta var bara óöryggi. Ég talaði vð aðrar mæður sem hafa verið með barn á vökudeild og þeim fannst það sama, vaktaskipti eru rosa erfið. En við skulum ekki gleyma að á endanum var ég búin að kynnast þeim öllum og þær eru allar frábærar. Auðvita náði maður kannski aðeins betur saman með sumum en öðrum en Aron var sko í góðum höndum alveg sama hver var á vakt.

Þegar vitað er að barnið þitt þurfi að fara á vökudeild eftir fæðingu reyna þau að undirbúa þig. Þú færð tíma í að koma uppá vökudeild þar sem kynnt er fyrir þér reglur og útskýrt hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þar. Gott er að vera tilbúnin með spurningar því að í öllu upplýsingaflæðinu gleymir maður gjörsamlega því sem manni lá mjög á hjarta að vita. Ég gleymdi einmitt mínum miða heima og svona klukkutíma eftir að ég gekk út komu allar spurningarnar uppí höfuðið á mér. Vökudeild er skipt í tvær hliðar … hægri og vinstri. Hægra meginn er gjörgæslumeginn og vorum við Aron þar í einn og hálfan mánuð rúma. Hægra meginn eru tvö hólf H1 og H2 og ég rugla þeim mikið saman svo ég vona að ég sé ekki að segja þetta vitlaust en á H1 er pláss fyrir fjögur gjörgæslu ungabörn sem þurfa hjúkrunarfræðing útaf fyrir sig og mikla umsjá. Á H2 er pláss fyrir 6 ungabörn sem þarf að fylgjast vel með og þar eru um 2 til 3 börn á hvern hjúkrunarfræðing og það er rosaleg traffík ef ég fæ að nota það orð í H2. Mörg börn koma þangað í kannski bara nokkra klukkutíma … eða daga. Fyrir þá sem langt er í að komast heim eins og mig var svolítið erfitt að endalaust sjá fólk koma og fara heim … en aldrei fengum við að fara.
Vinstra meginn er vaxtaræktin, það er æðislegur staður og á ég margar góðar minningar þaðan. Það er gert eins heimilislegt og hægt er. 12 börn komast fyrir i þremur herbergjum en oftast eru ekki svo mörg börn í einu. Í hverju herbergi eru að mesta lagi 4 börn, þægilegir stólar, kósý ljós, vaskur og allir eru með sína eigin komóðu fyrir föt og annað persónulegt. Þar er um tvær hjúkkur á alla en þegar þangað er komið eru það við mömmurnar sem fáum að gera allt. Þetta er oftast staður fyrir fyrirbura og aðra nýbura sem eru tiltölulega hressir en þurfa kannski bara að þyngjast aðeins eða styrkjast og drekka betur áður en heim er haldið. Eitt sem er nýtt á vökudeild er mæðraherbergið. Það kom núna rétt fyrir jól og er mjög þægilegt. Það herbergi er einungis ætlað mömmunum til að sitja í rólegu umhverfi og mjólka sig eða bara komast aðeins í burtu til að slaka á. Æðislegt herbergi fyrir æðislegar mömmur.

Mín reynsla af vökudeild er mjög jákvæð. Auðvita er þetta tilfinningalega erfitt og svoddan rússíbani sem ég er búin að reyna að útskýra hér eins vel og ég get. Þú ert aldrei nógu undirbúin fyrir allt og það er allt i lagi. Nokkrum sinnum brotnaði ég niður fyrir framan alla og leið eins og hálfvita eftir á en þær eru öllu vanar þarna uppá vökudeild og skilja mann alveg rosalega vel, þær eiga alltaf eftir að eiga smá hluta af Aroni með mér og mér þykir óendanlega vænt um þær.

Kv. Dísa

– – –
Ég heiti Hjördís en er kölluð Dísa. Ég er 27 ára, gift og á tvær litlar dömur sem eru fjögurra og sex ára og einn lítinn gutta sem fæddist í enda september.
Ég er Montessori kennari og lærði í Bandaríkjunum. Ég vinn í leikskóla í Reykjavik sem sérhæfir sig í börnum með sérþarfir. Áhugamál mín eru góður félagskapur og börn og uppeldi.
– – –
Aron Raiden fæddist þann 30 september 2011. Það hafði komið í ljós í 20 vikna sónarnum að hann væri með fæðingargalla sem heitir gastroschisis en nánar má lesa um hann í fyrsta blogginu mínu 20 vikna sónar.
Aron dvaldi á vökudeild til 15 desember 2011 en hefur síðan þá verið niður á barnaskurðdeild barnaspítala Hringsins. Hann hefur þurft að fara í fjórar stórar aðgerðir, margar rannsóknir og þurft að hafa næringu í æð alla sína ævi.
Í þessu bloggi mun ég fara í gegnum sjúkdómsgreininguna, dvölina á vökudeildinni, brjóstagjöfina vs. mjaltarvél, muninn á vökudeild og barnadeild, hvað gerist þegar heim er komið.

X