Loading

Lífið breytist við að eignast barn

Lífið breytist heilmikið við að eignast barn. Ekkert verður nákvæmlega eins og áður og í raun verður veröldin allt öðruvísi. Það er svo hvernig maður ákveður að líta á þessar breytingar sem ákvarðar það hvernig lífið verður! Ef við setjum okkur í þær stellingar að fara að hugsa um hvers við förum á mis við, við gætum jú verið í bakpokaferðalagi um Asíu en ekki „bundin“ heima með litlu barni sem þarf mikið á okkur að halda allan sólarhringinn! Eða að hugsa um að nú gæti ég verið á veitingahúsi með vínkonum mínum og þyrfti ekkert að hugsa um hvenær ég þarf að fara heim….í stað þess að sitja allt kvöldið og gefa barni brjóst!

En ef að við snúum þessu við og hugsum um allt það góða sem þessar stundir með barninu gefur okkur, hina hlutina getum við gert aðeins seinna, nú ef að okkur langar þá enn að gera þá! Svo er líka hægt að gera fullt af hlutum með barninu, eins og að ferðast út um allt ! Málið er að við erum ekki að missa af neinu. Við erum að græða allt! Veröldin breytist vissulega við að eignast lítið barn. Allur okkar tími sem áður fór í að hugsa um okkur sjálf, fer nú í að annast þennan litla ósjálfbjarga einstakling. Það getur verið krefjandi og áður sjálfsagðir hlutir eins og að sofa heila nótt, verða allt í einu munaður. Ef ég bara fengi eina, bara eina nótt sem ég þarf ekki að vakna, segir maður við sig í huganum. En það kemur að því. Þetta er bara stuttur tími og meðan hann varir er hægt að finna leiðir til að gera lífið sem auðveldast.

Það gleymist samt oft að nefna það að lífið stoppar ekki við að eignast börn. Það er hægt að lifa með barni! Ferðast með þau með sér innanlands og utan, fara með þau á kaffi- og veitingahús, já og gefa þeim brjóst á almannafæri – það má! Ekki loka sig af á heimilinu af því að það er auðveldara. Lifa með barninu en vera ekki alltaf að reyna að finna leiðir til að gera alla þessa hluti án barnsins af því að það sé svo mikið vesen að taka þau með. Börn nærast á umhyggju og nálægð við þá sem þeim þykir vænst um. Auðvitað þurfa allir hlé á milli og stund fyrir sjálfan sig. Það má ekki gleymast og þá er frábært að þiggja það ef einhver býðst til að vera með barnið á meðan. Það skiptir svo miklu að hlúa líka að sjálfum sér ef hægt er.

Þessi tími er svo stuttur og líður svo hratt. Njótum þess að vera í sem mestum samskiptum við börnin okkar ef við eigum kost á því. Við fáum það margfalt til baka í öruggum og ástríkum einstaklingum sem við höfum búið vel að frá upphafi.

– – –

Ingibjörg Baldursdóttir var hjúkrunarfræðingur og IBCLC brjóstagjafaráðgjafi.
Hún starfaði sjálfstætt við ráðgjöf og hélt námskeið um brjóstagjöf og umönnun ungbarna. Jafnframt því lauk hún meistaranámi í hjúkrun í HÍ með áherslu á sérhæfingu í brjóstagjöf. Henni var sérstaklega hugleikið allt sem viðkom brjóstagjöf og umönnun barna. Hún skrifaði reglulega inn á síðuna og hjálpaði ófáum foreldrum við að taka fyrstu skrefin í foreldrahlutverkinu.

Pistillinn birtist upphaflega árið 2013.

X