Loading

LITLU HJÁLPARKOKKARNIR

Tíminn á milli fimm og hálfsjö á daginn (eftir því hvenær maturinn er komin á borðið) getur verið erfiður. Að minnsta kosti er það oft þannig á mínu heimili. Yfirleitt eru allir orðnir svangir og þreyttir og lítið þarf til að systurnar lendi í árekstrum og þetta er sá tími dagsins sem litli stubburinn á heimilinu er undir hvað minnstu eftirliti og nýtir sér það óspart.

Ég hef reynt að fá stelpurnar á heimilinu sem eru 4 og 6 ára til að taka þátt í matargerðinni og hjálpa til við hluti eins og leggja á borð o.s.frv. og það hefur gengið ágætlega, en stundum endar það þó með því að þær fara að rífast yfir því hver megi hræra, hver megi brytja osv.fr. og að lokum þegar þriðja barnið kemur og vill líka „hjálpa til“ heyrist oftar en ekki í foreldrunum „hvern langar að horfa á barnatímann“! Ég sé fyrir mér í hillingum mynd af fjölskyldu þar sem allir hjálpast að við að útbúa matinn í rólegheitum, án allra árekstra og enginn draslar til á meðan. Vonandi rætist sá draumur einhvern daginn.

Annars er sá litli 2ja ára einna duglegastur að „hjálpa til“ með misgóðum árangri, einu sinni þeyttist ommelettan úr skálinni og niður á gólf og ég skal segja ykkur það að það var ekki gaman að þrífa. Honum finnst líka mjög gaman að skoða kryddin og prufa þau aðeins ef hann kemst upp með það óséður.
Þegar ég var að alast upp höfðum við systkinin okkar ákveðnu daga í vikunni þar sem við hjálpuðum til í eldhúsinu. Það fól í sér að hjálpa til við matargerðina, gera salat, leggja á borð og svo eftir matinn sáum við um frágang. Hann fól í sér að þvo upp, þurrka borð, sópa gólfið og henda ruslinu. Fyrst var ábyrgðin minni en svo þegar á leið fengum við að taka meiri þátt, t.d. baka köku eftir matinn og jafnvel að elda matinn. Þetta fyrirkomulag gekk í nokkur ár með góðum árangri.

Fyrir nokkru var ég að stússast í eldhúsinu og hugsaði með mér þvílíkur snillingur hún móðir mín var, hún þurfti bara aldrei að ganga frá eftir matinn… eða svona næstum því! Fékk aðstoð við matargerðina og jafnvel nýbakaða skúffuköku yfir kvöldfréttunum. En það var ekki bara hún sem græddi á þessu heldur við líka.

Þar sem mér finnst yfirleitt alltof mikill tími fara í matarstúss og frágang á hverju kvöldi þar sem það er aðal máltíð fjölskyldunnar ákvað ég að vinna mér í haginn og byrja strax að þjálfa litlu skvísurnar mínar, það er ekki ráð nema í tíma sé tekið.

Um daginn ræddum við þetta svo við dæturnar hvort þeim litist ekki vel á það að hafa 1 dag í viku þar sem þær myndu hjálpa til við að elda matinn. Þær fá svuntu, fá að ákveða hvað er í matinn svona innan skynsamlegra marka, t.d. hvað er gert úr fiskinum, hvað er gert úr hakkinu, hvernig súpa er eða grænmetisréttur, þær fá að búa til salat, blanda, hræra og brytja og segja „gjörið þið svo vel“. Þeim leist mjög vel á og voru mjög spenntar yfir þessu öllu saman.

Nú eru liðnar þrjár vikur og hingað til hefur þetta gengið vel. Þær spyrja reglulega hvenær komi að þeirra degi (þær mega auðvitað hjálpa til hina dagana, en það er bara ekki alveg eins spennandi). Kosturinn við þetta er að nú rífast þær ekki um hver eigi að krydda, hver eigi að hræra osv.fr. heldur er bara ein í einu í eldhúsinu í hvert skipti, svo úr þessu verður svolítill einka-tími fyrir hvora um sig. Við spjöllum í rólegheitum um matinn sem við erum að elda, hvernig á að gera, hvað er í matnum osv.fr. Þeim finnst ótrúlega gaman að fá að hjálpa til að ákveða matinn. Stundum skoðum við matreiðslubækur saman og gaman að sjá hvað þeim finnst það skemmtilegt. Þar koma Heilsuréttir fjölskyldunnar, Eldað í Latabæ með Ebbu Guðnýju og Disney matreiðslubækurnar sterkar inn.

Með þessu áframhaldi sé ég fyrir mér náðuga tíma eftir nokkur ár þar sem gríslingarnir munu sjá um að elda matinn, ganga frá og baka köku á meðan ég horfi á kvöldfréttirnar.

– – –

Oddrún Helga Símonardóttir er 3ja barna mamma sem er með mikinn áhuga á heilsu og hollu mataræði. Hún heldur úti heimasíðunni www.heilsumamman.is, þar sem hægt er fylgjast með eldhústilraunum, finna fullt af uppskriftum af hollum og góðum mat og pælingar varðandi mataræði, mataróþol og líðan barna. Hún útskrifast úr námi í Heilsumarkþjálfun í vor og hlakkar mest til þess að vinna með mömmum í framtíðinni.

X