Loading

LOFA ENGU EN EINHVERJU ÞÓ…

„Kæra Þóra – viltu vinsamlegast láta prenta fleiri eintök af Foreldrahandbókinni sem fyrst. Það er erfiðara að redda sér eintökum af henni en ólöglegum fíkniefnum (ímynda ég mér) og það brutust nánast út slagsmál í mömmuklúbbnum mínum um daginn þegar að ein montaði sig af eintaki sem hún hafði reddað sér. Takk og bless. Ein ólétt og pirruð.”

Svona hljóma skilaboð sem ég fékk um daginn á Facebook og þrátt fyrir að mér þættu þau óendanlega fyndin þá læddist að mér samviskubit sem hefur plagað mig nokkuð lengi – eða alveg frá því að bókin seldist upp á sínum tíma. Þessi skilaboð eru jafnframt ekki þau fyrstu sem ég fæ og ég er uppfull þakklætis og svo auðvitað bullandi auðmjúk og undrandi yfir því hvað bókin, sem í upphafi átti bara að vera lítið upplýsingahefti til að auðvelda nýbökuðum foreldrum lífið, hefur öðlast sjálfstætt líf og virðist eiga sér traustan vinahóp meðal nýbakaðra foreldra.

Ég hef lengi verið á leiðinni við að bæta við bókina og nú er sú vinna komin á fullt og búast má við splunkunýjum eintökum af endurbættri Foreldrahandbók í sumar. Ég þykist jafnframt ætla að blása lífi í þessa litlu vefsíðu sem þrátt fyrir allt er orðinn mikill fjársjóður efnis sem að foreldrar og sérfræðingar hafa verið ötul við að deila.

Þannig að… ef ykkur liggur eitthvað á hjarta. Ykkur langar að blogga, finnst eitthvað verða að koma fram, lumið á sniðugum fréttum eða vitið um eitthvað sem verður að vera í næstu bók þá ekki hika við að hafa samband.

xx Þóra
thora@foreldrahandbokin.is

X