Loading

Maístjarnan mín

Ég og unnusti minn höfðum rætt barneignir og áður en við vissum af var ég orðin ófrísk. Aðeins þrjár vikur voru liðnar frá getnaði þegar ég tók þungunarpróf sem kom út jákvætt. Ástæðan fyrir því að ég tók prófið var vegna þess að ég fann að eitthvað var að gerast í líkama mínum og ég kastaði upp í gríð og erg. Ég taldi mig vera tilbúna til að eignast barn en tilfinningin við að sjá jákvætt þungurnarpróf var yfirþyrmandi. Ég var svo svakalega glöð en á sama tíma alveg svakalega hrædd þar sem ég vissi að frá og með þessari stundu væri líf mitt breytt – það sem eftir er. Nú væri upphafið að nýju lífi. Ég og unnusti minn voru svo ótrúlega þakklát og ánægð.

Á meðgöngunni fengum við að heyra hinar ýmsu sögur frá öðrum foreldrum. Vinir unnusta míns töluðu um að hann þyrfti í raun ekkert að taka fæðingarorlof fyrsta mánuðinn í ljósi þess að barnið myndi ekki gera neitt annað en að sofa og drekka. Sjálf horfði ég mikið á allskonar „snappara” í símanum mínum og las blogg um hvað lífið væri yndislegt. Þá er óhætt að segja að ég var komin með þá mynd í kollinn á mér að litla barnið okkar myndi liggja í rúminu sínu friðsælum svefni á meðan við myndum drekka heitt kakó í hreinu íbúðinni okkar. Ég var með algjörlega glansmynd af því sem koma skyldi.

Snemma á meðgöngunni fór bakið mitt en ég fékk þá klemmda taug niður báða fætur. Þar af leiðandi hætti ég að vinna á viku 20 en gat þá einbeitt mér á náminu en á þessum tíma var ég í 100% Háskólanámi. Skóladagarnir snérust um að hlaupa inn á klósett til að æla svo ég passaði að hafa alltaf ferða-kit með mér. Tannbursta, tannkrem, munnskol og mintutöflur eru hlutir sem ég hafði alltaf meðferðis hvert sem ég fór. Vegna verkjanna í bakinu hélt ég stundum að það yrði mitt síðasta að ganga upp og niður stigana í skólanum. Svo sat maður kennslutímana í svitabaði þar sem flökurleikinn var að fara með mig og því fylgdi stanslaus svimi. Verst af þessu var þegar ég gerði mitt besta til að halda andliti við skólafélaga og kennara. Ég hafði margoft séð svokallaðar „bumbumyndir” á samfélagsmiðlum þar sem allir eru svo glaðir og lýsa yfir vellíðan. Hvað var ég að gera rangt sem lét mér líða svona illa? Bæði á líka og sál? Hvað var ég að gera svona rangt í samanburði við allar hinar sem litu svo vel út og líða svona vel?

Í kringum viku 25 greindist ég með meðgöngueitrun og eftir það fóru allar skoðanir fram í mæðravernd á Landspítalanum. Það sem starfsfólkið þar er frábært. Ég man að ég lýsti þessu fyrir unnusta mínum; þegar ég gekk inn á ganginn í mæðraverndinni á Landspítalanum þá leið mér eins og ég væri að fá knús á sálina. Konurnar sem þar vinna eru svo yndislegar að þær eiga mikið hrós skilið! Ég var sett á lyf og lífið hélt áfram en þó undir miklu eftirliti. Það sem hélt mér mest gangandi var meðgöngusundið. Ég sótti það af kappi og reyndi að mæta niður á Grensás í öll þau fimm skipti vikunar sem sundið var í boði.

Ég fann mikið fyrir því hvað vinirnir byrjuðu að hverfa þegar ég varð ófrísk. Sjálfri leið mér heldur ekki vel og það var fátt sem ég gat gert. Ég vildi helst bara vera heima. Þar af leiðandi kom sundið sterkt inn! Félagsskapurinn var æðislegur og sundæfingarnar gerðu svo sannarlega sitt fyrir bakið á mér. Bakið hélt þó áfram að versna en mér leið alltaf betur í nokkrar klukkustundir eftir sundið. Bæði á líkama og sál. Ég byrjaði að vakna alltaf kl. 3 og 6 á næturnar vegna bakverkjanna. Þá þýddi fátt annað en að læðast fram úr rúminu til að fara í sjóðandi heitt bað með kúluna upp úr til að halda henni við stofuhita. Á sama tíma og ég var oft að brotna niður vegna sársauka þá leið mér best á næturnar þegar ég vaknaði því eftir að hafa legið kyrr í nokkrar klukkustundir þá hafði litla stúlkan mín vaknað svo sú minning, þegar ég fór í bað tvisvar á hverri nóttu til að deyfa bakið svo ég gæti sofnað aftur, er mér svo innilega kær. Það voru þær stundir sem ég og dóttir mín vorum vakandi saman. Ég fann hverja einustu hreyfingu og ég fékk alltaf að kynnast henna betur og betur. Ómetanlegt.

Alltaf hélt ég áfram að fara niður á Kvennadeild til þess að fara í skoðun og á viku 35 var ég svo lögð inn þar sem meðgöngueitrunin var orðin heldur alvarleg. Ég hef aldrei orðið jafn hrædd á ævi minni. Ég sendi unnusta mínum tíðindin í smáskilaboðum því ég vildi ekki brotna niður þarna fyrir framan ljósmóðurina og læknirinn. Mér var vísað inn á stofu á kvennadeildinni sem átti að verða mitt herbergi og fljótlega kom unnusti minn hlaupandi inn um dyrnar og tók mig í fangið. Þá brutust tárin út og ég hafði hreinlega enga stjórn á þeim. Þá tók við eftirlitið á spítalanum. Ég átti að vera að hvílast en ljósmæðurnar þurfu að koma inn til að ýmist taka blóð, gefa mér lyf og athuga lífsmörk míns og barnsins á ca. þriggja klukkustund fresti. Eins erfitt og það var þá er ég svo sannarlega þakklát fyrir allt sem var gert fyrir okkur á þessum tíma. Þau hreinlega björguðu lífi mínu og lífi dóttur okkar.

Ég lá inni í tæpar tvær vikur og loks rann upp dagurinn þar sem ég var komin sléttar 37 vikur. Þá fékk unnusti minn að „flytja” til mín inn á deild og við fengum herbergi inn á fæðingarstofu. Þess má geta að á meðgöngunni hafði ég barist við mikin kvíða fyrir fæðingunni sjálfri. Þar af leiðandi var mér úthlutaður mjög góður sálfræðingur sem hjálpaði mér að vinna á kvíðanum svo þegar ég var komin inn á fæðingardeild var ég vægast sagt til í slaginn! Ljósmæðurnar töluðu um að yfirleitt myndi ekki líða meira en tveir sólarhringar frá fyrsta stíl og þar til barnið myndi koma í heiminn og þær reiknuðu með því að í ferlinu myndi ég fá allt að fjóra stíla. Spennan á þessari stundu var ólýsanleg! Fljótlega breyttist þessi dvöl á fæðingardeildinni í mína verstu martröð. Ég fékk átta stíla á tveimur sólarhringum og aldrei mældist útvíkkun hjá mér. Á þriðja degi fékk ég svokallað “ballon”. Þá er þvagleggur þræddur upp í legið og 50ml af saltvatni er sprautað í inn í legginn svo á enda hans myndast þessi blaðra. Hlutverk hennar er að hreyfa við leginu til að framkvæma þessa útvíkkun. Þegar útvíkkunin mælist í þremur þá dettur “ballonið” að sjálfu sér niður og þá er hægt að sprengja belginn. Þessi aðferð tekur í mesta lagi 24 klukkustundir. Þegar 24 klukkustundir eru liðnar með “ballonið” inn í mér þá var það fjarlægt og enn var ég ekki komin með neina útvíkkun. Þarna var klukkan átta á sunnudagsmorgni. Frá fyrsta stíl, á miðvikudeginum, var ég búin að finna mesta sársauka sem ég hef á ævi minni upplifað því ég var með mikla samdrætti í þessa þrjá daga. Þetta var í fyrsta skiptið sem ég hreinlega brotnaði niður fyrir framan ljósmæðurnar en ég hafði grátið mjög mikið inn á deildinni en ég upplifði mig sem vælukjóa og leyfði aðeins unnusta mínum að sjá hvernig mér virkilega leið. Loks kom læknirinn inn og bauð mér þann valkost að barnið yrði tekið með keisaraaðgerð. Þetta voru bestu fréttir sem ég hafði heyrt! Mikið var ég spent að fá litla krílið í hendurnar og hefja loksins notalega lífið með litla barninu mínu. Sú minning er sterk í huga mér þegar ég mætti inn á skurðstofuna. Ég settist á skurðborðið og á meðan það var verið að mænudeyfa mig og skipta um æðaleggi þá réð ég ekki við mig og ég hreinlega hágrét allan tímann. Ég hef aldrei verið jafn hrædd, aldrei verið jafn uppgefin, aldrei verið jafn spennt og svo sannarlega hef ég aldrei verið jafn útkeyrð af þreytu og sársauka. Ég á engin orð í rauninni til þess að lýsa tilfinningunni – ég var algjörlega sigruð.

Kl. 13:29 kemur hraust stúlka í heiminn og ég heyrði grátur. Enn í dag er þetta fallegasta hljóð sem ég hef á ævi minni heyrt.

Við vorum á spítalanum frá á miðvikudag. Brjóstagjöfin gekk vel og meðgöngueitrunin gekk til baka. Þegar heim var komið byrjaði ég að fá allskonar kvíðaköst. Ég titraði og grét útaf öllu sem mér fannst ekki ganga upp. Litla stúlkan okkar fékk magakveisu svo hún lá í fanginu okkar til skiptis, frá sirka klukkan 18 á kvöldin til 06 á morgnanna og öskraði af sársauka. Aftur kom tilfinningin um að ég væri að gera eitthvað vitlaust. Hvað var ég að gera rangt? Afhverju líður barninu mínu svona svakalega illa?? Mér fannst ég ekki fá neina aðstoð varðandi kveisuna. Ég var búin að prófa öll húsráð í bókinni. Ég var búin að tala við alla sem ég hafði aðgang að og prófa allskonar lyf en ekkert breyttist. Í 7 vikur var ég með barnið mitt öskrandi í fanginu á mér í 10 til 12 klukkustundir á sólarhring. Þegar ég átti svo að fá tíma til þess að sofa þá var ég orðin svo stressuð að það var ekki möguleiki fyrir mig. Ljósmóðirinn lét mig hafa lyfseðil fyrir svefntöflum en þar sem dóttir mín var svo lítil þá leið svo stuttur tími á milli þar sem hún þurfti að drekka að ég treysti mér ekki til þess að taka þær. Ég vildi alltaf vera 100% til staðar. Þegar dóttir mín var orðin 7 vikna þá fórum við enn og aftur á Domus Medica og ég hreinlega neitaði að fara þaðan án hjálpar. Með miklum trega gaf læknirinn okkur lyfseðil fyrir lyfi sem hann kallaði „gamla kveisulyfið”. Ótrúlegt en satt þá sáum við strax framfarir á aðeins sólarhring. Barnið okkar fór að sofa á næturnar! Þarna var sú stutta einnig alfarið á pela þar sem brjóstamjólkin mín varð að engu, enda svaf ég ekkert á þessum tíma. Það var einnig enn ein ástæðan fyrir mig til að brjóta sjálfa mig niður. Það er ein ástæða fyrir því að ég er með brjóst en ég gat ekki einu sinni fætt barnið mitt með þeim.

Þessi saga mín er alls ekki til þess að brjóta niður spenntar mæður eða draga úr barneignarvilja annara. Í dag er dóttir mín 15 mánaða og sjálf get ég hreinlega ekki beðið eftir því að verða ófrísk aftur. En ég er svo þakklát fyrir þessa reynslu sem ég bý núna yfir. Þessi tími var sá fallegasti sem ég hef upplifað en persónulega kynntist ég svörtu myrknætti þar sem ég sat grátandi með grátandi barnið mitt í fanginu og ég var orðin sannfærð um að barnið mitt og unnusti væru betur sett án mín þar sem ég taldi mig gjörsamlega óhæfa í þetta starf, mér fannst ég allavegana ekki hæf til þess að sjá til þess að barninu mínu liði vel.

Þessar „glans-myndir” stinga mig bara svo svakalega því það virðist vera eina birtingarmyndin af þessu hlutverki. Það talar enginn um hversu í raun krefjandi þetta starf er. Þegar þú heldur að þú hafir upplifað sársauka og þú heldur í rauninni að þú sért að fara að deyja úr sársauka þá verður hann samt verri. Þegar þú heldur að þú hafir kynnst þreytu þá er ekki til nógu gott lýsingarorð fyrir þá þreytu sem maður upplifir á meðgöngu og eftir fæðingu. Mér finnst líka mjög slæmt hversu seint er skimað eftir meðgönguþunglyndi. Í hvert einasta skipti sem ég mætti með barnið mitt í ungbarnaeftirlitið þá sagði ég ljósmóðurinni að mér liði illa – mér hafi í raun aldrei liðið verr – en það var allt hummað í burtu. Mín upplifun var sú að hún var aðeins að spyrja mig til þess að vera kurteis og að henni hafi í raun verið alveg sama um svarið mitt.

Loks kom að því að ég átti að svara spurningarlista þar sem er skimað eftir fæðingarþunglyndi. Þá var ég greind með mjög alvarlegt fæðingarþunglyndi og þá fékk ég aftur að byrja að hitta sálfræðinginn sem hafði unnið með mér á meðgöngunni. Ég náði að hitta hana tvisvar en í bæði skiptin var dóttir mín svo óróleg allan tímann (og ég vildi ekki gráta eða leyfa henni að skynja að mér liði svona illa) að ég gafst upp á því að fara til sálfræðingsins.

Ég er eiginlega ekki bara að skrifa þetta bréf til ykkar, heldur eru þetta skrif sem ég ætla að eiga áfram og lesa þegar ég verð ófrísk aftur.

Tilvonandi foreldrar þurfa að verða tilbúnir fyrir hvað sem er! Við þurfum líka að vera ákveðin. Auðvitað hefði ég átt að segja ljósmæðrunum á fæðingardeildinni hvernig mér leið í raun og veru í stað þess að kæfa sársaukann og gráta í koddann í hvert skipti sem þær fóru framm af stofunni. Auðvitað átti ég að ganga strax á læknanna með að fá gott lyf við kveisunni. Auðvitað átti ég að hafa samaband við heimilislækninn til að segja honum að mig hafði aldrei á ævi minni langað jafn mikið til þess að hreinlega deyja.

Lífið er ekki dans á rósum. Eins og hjartalínuritið okkar sýnir þá er lífið upp og niður – ef það er aðeins bein lína þá erum við dauð.

Ég elska dóttur mína meira en lífið sjálft og ég get ekki hugsað mér að fara frá henni og ég er á allt öðrum stað í dag enda vinn ég í mínum málum á hverjum einasta degi. Heilbrigt barn er mesta gjöf sem lífið hefur að gefa og ég hlakka til að verða ófrísk aftur – en í þetta skipti verð ég undirbúin fyrir það versta. Ef allt gengur vel verður það stór bónus en eftir fyrri reynslu er ég tilbúin fyrir hvað sem er. Oft hef ég heyrt hvað maður er fljótur að gleyma en ég mun aldrei gleyma sársaukanum og vanlíðanum sem fylgdi mér þessa tilteknu mánuði en ég læri að lifa með þeim og þegar ég horfi á dóttur mína þá hristi ég hausinn og hugsa hvað hún er þess virði.

Það besta við þetta er, að eftir allt saman, er ég rík að eiga litlu yndislegu fjölskylduna mína og við lifðum þetta öll af.

Þessi reynslusaga birtist ekki undir nafni enda fannst henni það ekki aðalatriðið. Það er ávallt gríðarlega þakklátt þegar við deilum reynslu okkar og við hvetjum ykkur til að senda okkur póst ef þið viljið deila ykkar sögu… hver sem hún kann að vera. Góðar upplifanir jafnt sem slæmar… allt er þetta hluti af því veigamikla verkefni sem foreldrahlutverkið er.

p.s. myndin tengist sögunni ekki neitt… þetta er bara mynd af nýfæddu barni.

X